Opinberar fjársafnanir
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinargóð svör hans við spurningum mínum. Það fór reyndar eins og mig grunaði að þó að þessi lög hafi verið samþykkt 1977 þá hefur þeim í litlu verið framfylgt. Það er ekki lítil ábyrgð þeirra sem taka að sér að standa fyrir söfnunum eins og þeim sem við þekkjum á undanförnum árum þar sem hafa safnast milljónir króna. Það er nauðsynlegt að hafa strangt eftirlit með því að söfnunarfé sé notað í þeim tilgangi sem upphaflega var ætlað, í auglýstum tilgangi. Það kom fram í máli ráðherra að ekki hefðu borist kvartanir um misferli við slíkar safnanir. Það er eðlilegt þar sem mjög erfitt er að kæra ef tilkynningarskyldu hefur ekki verið framfylgt, en í 3. gr. laganna segir að í þeim tilvikum þar sem aðeins þarf að tilkynna viðkomandi lögreglustjóra en ekki sækja um leyfi skal hver tilkynning bera með sér hver standi fyrir fjársöfnuninni, hvenær fjársöfnun skuli fara fram, hvar fjársöfnun skuli fara fram, hvernig fjársöfnun skuli fara fram og í hvaða tilgangi fjársöfnun fari fram. Ef þessu er ekki fullnægt er ekki heldur hægt að fullnægja því eftirliti sem skylt er að viðhafa, sbr. 5. gr. þar sem segir: ,,Óheimilt er að nota fé í öðrum tilgangi en upphaflega var ætlað nema með leyfi dómsmrn.``
    Ég vil svo minna á að ég nefndi átak sem ríkisstofnanir eiga aðild að. Vissulega hafa þær sínar bókhaldsskyldur en þó langar mig til að fá að heyra hjá hæstv. dómsmrh. hvernig er farið með reikningsskil á þeim fjármunum sem safnast þegar um er að ræða beina aðild ríkisstofnana að opinberum fjársöfnunum.