Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Hér er um að ræða breytingu eða tillögu til breytinga á Stjórnarráði Íslands sem felur í sér að Fjárlaga- og hagsýslustofnun verði sameinuð fjmrn. Efnislega geta ýmis rök hnigið til þess að slík skipulagsbreyting sé eðlileg. Stofn að núverandi lögum um Stjórnarráð Íslands er frá árinu 1969. Þá var unnið með mjög vönduðum hætti að gerð heilsteyptra stjórnarráðslaga og undirbúningur allur var þá bæði langur og vandaður. Niðurstaðan varð löggjöf sem staðist hefur tímans tönn í allan þennan tíma.
    Eðlilega mótuðust hugmyndir manna þá við aðrar aðstæður, bæði varðandi stjórnun og umfang verkefna í stjórnarráðinu. Þá var ákveðið að koma málum á þann veg fyrir að undir fjmrh. yrðu settar tvær sjálfstæðar stjórnardeildir auk fjmrn. sjálfs, þ.e. Ríkisendurskoðun og Fjárlaga - og hagsýslustofnun. Það getur verið ýmislegt sem mælir með því að breytingar verði nú gerðar á þessari skipan. Stjórnunarlega eru oft vandkvæði á því að greina á milli verkefna og eðlileg nýting sérfræðinga og starfsmanna
og getur í mörgum tilvikum verið betri ef sameining fer fram. Á hinn bóginn er á það að líta að um nokkurt árabil hafa farið fram umræður um endurskoðun á stjórnarráðslöggjöfinni í heild sinni. Bæði hafa menn haft nýjar hugmyndir um stjórnun og stjórnunarhætti og eins hugmyndir um aukna hagræðingu með fækkun ráðuneyta. Af þessu hefur ekki orðið þó umræður um þær hugmyndir hafi orðið allmiklar á undanförnum árum.
    Hæstv. ríkisstjórn var hins vegar í miklum bögglingi á síðasta þingi með frv. sem fól í sér alveg gagnstæða stefnu við það sem almennt hefur verið um rætt á undanförnum árum varðandi endurskoðun og endurskipulagningu á Stjórnarráðinu. Þá tók hæstv. ríkisstjórn hér drjúgan tíma af störfum þingsins, marga mánuði, til þess að ræða og koma fram hugmyndum sínum um fjölgun ráðuneyta. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér. Það var mikil hrakfallasaga sem gekk þvert gegn ríkjandi hugmyndum um skipan og endurskoðun Stjórnarráðsins. Nú eru enn á döfinni hugmyndir um breytt stjórnarráðslög. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ærin ástæða til þess að fylgja því verki fram og koma í framkvæmd hugmyndum um endurskoðun og endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Ég tel að það eigi að fækka ráðuneytum niður í níu og tímabært sé að koma slíkum hugmyndum fram og festa í lög. Þess vegna tel ég það eðlilegast varðandi þetta mál að það fylgdi slíkri heildarendurskoðun á löggjöf um Stjórnarráðið. Ég tel ástæðulaust að draga umfjöllun og ákvarðanir hér á hinu háa Alþingi um þetta efni, vænti þess að Alþingi geti fjallað um það á þessu þingi. Fyrir þá sök er það mín tillaga í þessu máli að það verði tengt heildarendurskoðun á stjórnarráðslöggjöfinni en ekki tekið eitt sér út úr með þessum hætti. Það er augljós hætta á því, ef þessi vinnubrögð verða viðhöfð, að mál muni þróast á þann veg að menn skjóti sér undan því að taka á endurskoðuninni í heild sinni en fari fram eftir áhugasviði einstakra ráðherra með breytingar á næstu árum og fyrir vikið nái menn ekki eðlilegum og sjálfsögðum markmiðum um heildarendurskoðun á stjórnarráðslöggjöfinni sem miði að aukinni hagræðingu og sparnaði og bættri stjórnun. Ég er þeirrar skoðunar að ef þetta þing tekur málið til meðferðar þá þurfi ekki að verða hér á nein óeðlileg töf. Þó að af slíkri skipulagsbreytingu sem hér er verið að fjalla um geti verið hagræði þá er ekki af núverandi skipan slíkt óhagræði að töf í nokkrar vikur skipti sköpum í þeim efnum.
    Herra forseti. Það er þess vegna mín tillaga um málsmeðferð í þessu tilviki að við fjöllum um þetta mál í tengslum við heildarendurskoðun þótt ég sé efnislega þeirrar skoðunar að mörg rök hnígi í þá átt að hér sé um að ræða eðlilega breytingu, sem væri þá rétt að kæmi til meðferðar við heildarendurskoðunina. Ég er ekki að mæla gegn breytingunni sem hér er verið að tala um efnislega en tel að það mundi horfa til betri vegar og lýsa vandaðri vinnubrögðum ef horfið yrði að því ráði að fjalla um þetta og taka ákvarðanir um þetta í tengslum við heildarendurskoðun á stjórnarráðslögunum.