Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Eins mikið rót og komið er á ríkisstjórnina og eins gagnslaust og það er að beina fyrirspurnum til einstakra ráðherra, þá skal ég láta við það sitja að gera athugasemdir hér við þetta frv. án þess að hæstv. ráðherrar séu viðlátnir, enda kannski ekki aðalatriðið.
    Kjarni þessa máls er sá að hinn 1. júní 1990 tóku gildi lög sem samþykkt höfðu verið á Alþingi á sl. vori. Síðan kom í ljós að hæstv. félmrh. var óánægður með lögin og hófust nú allsérkennilegar bréfaskriftir milli einstakra ráðuneyta, milli fjmrn. og félmrn., þar sem m.a. kemur fram að embættismenn eða ráðherra húsnæðismála telji að Alþingi hafi bara algjörlega misskilið málið og ekki gert sér grein fyrir efni þess frv. sem það var að fjalla um, eða eins og segir í bréfi fjmrn. til innheimtumanna ríkissjóðs, í Reykjavík borgarfógeta, sem dags. er 11. des. sl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Enda þótt ráðuneytinu væri kunnugt um þann vilja höfunda lagafrv. að láta framkvæmdalánasamningana vera undanþegna stimpilgjaldi taldi ráðuneytið sér ekki fært að skýra ákvæðið svo rúmri skýringu, enda engin vísbending um slíka túlkun í lögskýringargögnunum.
    Embætti ríkislögmanns var falið að gefa álit sitt á túlkun á umræddu ákvæði laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins. Varð niðurstaða ríkislögmanns sú að eigi væri hægt að skýra undanþáguákvæði þetta svo rúmri skýringu að undir það féllu umræddir framkvæmdalánasamningar.
    Í ljósi þessa hefur í samvinnu félmrn. og fjmrn. verið samið frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Er þar kveðið á um það að umræddir framkvæmdalánasamningar séu undanþegnir stimpilgjaldi. Einnig er þar kveðið á um heimild til handa fjmrh. að endurgreiða stimpilgjald sem innheimt hefur verið af framkvæmdalánasamningum sem stimplaðir voru eftir 1. júní 1990.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að fallið skuli frá innheimtu á stimpilgjaldi af framkvæmdalánasamningum gegn því að þinglýsingarbeiðandi ábyrgist greiðslu á stimpilgjaldinu fari svo að frv. þetta verði eigi að lögum. Skal þetta gert með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu sem lögð skal fram þegar skjal er afhent til stimplunar.``
    Undir þetta skrifa síðan embættismenn fjmrn.
    Nú lít ég svo á, herra forseti, að hér fari fjmrn. út fyrir sínar heimildir. Því beri að láta eitt yfir alla ganga og ég vil lýsa því yfir að ég tel þetta bréf, sent innheimtumönnum ríkissjóðs, ganga freklega gegn þeim rétti að menn eigi að vera jafnir gagnvart lögunum, fyrir svo utan það að ég er undrandi á því ef það er mat Alþingis að sumir framkvæmdalánasamningar vegna húsbygginga eigi að vera undanþegnir stimpilgjaldi en aðrir ekki.
    Ég vil þess vegna spyrja frsm. félmn. hvernig hann hugsi sér að framkvæmd þessara laga verði. Nú vitum við að oft er það svo að byggingarverktakar ráðast í byggingu íbúðarhúsnæðis áður en vitað er hverjir muni kaupa einstakar íbúðir. Stundum ræðst það að á byggingartíma er hluti sambýlishúsa keyptur undir verkamannabústaði, stundum undir það sem eru kallaðar kaupleiguíbúðir, ég tala nú ekki um búsetaíbúðir. Það fer síðan eftir skattframtölum og mánaðarlegum launum þeirra sem búa í íbúðunum, þeirra sem kaupa íbúðirnar, hvort íbúðin telst félagsleg eða ekki í skilningi laganna. Og að síðustu hlýtur það að vera álitamál hvort löggjafinn yfir höfuð að tala hafi heimild til að mismuna mönnum með þessum hætti, eins og segir hér í þessum framkvæmdalánasamningi.
    Nú er mér ekki kunnugt um það hver var frsm. félmn. en vil biðja hann um að útskýra það sem ég hef hér vikið að.