Útflutningsráð Íslands
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Þetta frv. um Útflutningsráð og þau rök sem eru fyrir því að það er flutt og hæstv. viðskrh. skýrði hér frá eru að öllu góðra gjalda verð. Ég hef aftur þá athugasemd fram að færa að það er ákaflega óeðlilegt að fara fram á það við Alþingi, við löggjafarþing, að það taki við máli sem er tekið hér inn á dagskrána með afbrigðum núna í dag og að ætlast til að það sé afgreitt fyrir jól. Og setja Alþingi þar með upp við vegg á þeim forsendum að Útflutningsráð missi tekjur frá áramótum og sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að afgreiða frv. vegna þess. Það er auðvitað afskaplega óeðlilegur hlutur að bjóða löggjafanum upp á það að viðhafa slík vinnubrögð. Það hefði verið full ástæða til að fá greinargott yfirlit og viðræður við Útflutningsráð um starfsemi ráðsins, um framtíðina, hvað væri á döfinni hjá Útflutningsráði, en hér er verið að stilla Alþingi upp við vegg. Ef þetta frv. er ekki afgreitt í dag eða jafnvel næsta dag þá sé Útflutningsráð eiginlega lamað frá 1. jan. Vegna þess að hér er um mál að ræða sem mér er kærkomið og ég vil gjarnan að þetta frv. nái fram að ganga þá ætla ég að hverfa frá því að hafa slíka andstöðu en ég gagnrýni mjög þessi vinnubrögð og tel þau alveg ólíðandi. Nema það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að fresta jólunum. Þá ætti maður að fara líka að líta framan í það frv.