Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. beinir til mín spurningu. Að sjálfsögðu er hæstv. forsrh. og formaður flokksins hér í salnum, en hins vegar get ég svarað því sem ég best veit. Það vill nú svo vel til að æðsta valdastofnun Framsfl. er nýbúin að halda sitt flokksþing núna fyrir örfáum vikum. Þar var einróma samþykkt að halda við húsnæðiskerfinu frá 1986 og reyna eftir föngum að styrkja það og nýta það sem máli skiptir í þessum málum. Húsbréfakerfið var þar sérstaklega skilgreint sem aukakerfi við aðalkerfið. Ég geri ráð fyrir því að þessi samþykkt flokksins gildi í dag sem stefna flokksins. Hún hefur ekki breyst. Ég veit ekki betur en það verði gerðar tillögur um það þegar lengra heldur hvernig flokkurinn hyggst framfylgja þessari einróma stefnuyfirlýsingu. Ég vænti þess að hv. 1. þm. Suðurl. skilji þetta svar.