Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég fagna því samkomulagi sem tekist hefur í hv. utanrmn. um þá till. til þál. sem hér liggur frammi. Þessi till. staðfestir að Íslendingar eru í fararbroddi þeirra ríkja sem styðja sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Frá því að Alþingi samþykkti í mars sl. stuðningsyfirlýsingu og hamingjuóskir til þjóðþings Litáa í tilefni af sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra hefur ríkisstjórnin notað hvert tækifæri til þess að sýna Eystrasaltsríkjunum stuðning. Stöðugt samband og samvinna hefur verið við leiðtoga ríkjanna, einkum forustumenn Litáa. Stuðningur Íslendinga hefur komið fram með ýmsum hætti, m.a. á vettvangi Norðurlandaráðs, Atlantshafsbandalagsins, Evrópuráðsins, ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar hafa stutt málaleitan Eystrasaltsríkjanna að fá að senda áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs og þeir hafa tekið drjúgan þátt í viðleitni Norðurlandaríkja til að halda málefnum Eystrasaltsríkja á loft, m.a. á vettvangi RÖSE.
    Utanrrh. hefur talað máli Eystrasaltsríkja á utanríkisráðherrafundum Atlantshafsbandalagsins. Ráðherra hélt sömu sjónarmiðum á loft á sérstökum utanríkisráðherrafundi Evrópuráðsins, sem haldinn var í Lissabon í mars á þessu ári, til þess einmitt að ræða samskiptin við ríkin í Mið - og Austur - Evrópu. Um svipað leyti sendi hann bréf til Sjévardnadze, utanrríkisráðherra Sovétríkjanna, þar sem hann hvatti Sovétríkin til þess að hefja viðræður við rétt kjörna fulltrúa Litáens án nokkurra fyrir fram skilyrða.
    Málefni Eystrasaltsríkja hafa oft komið til umræðu á vettvangi RÖSE og í ávarpi utanrrh. á ráðherrafundi þeirrar samkundu um mannréttindamál í Kaupmannahöfn fjallaði hann einmitt um réttmætar kröfur Eystrasaltsríkja til sjálfstæðis. Fulltrúar íslensku utanríkisþjónustunnar á RÖSE - fundunum í Vín hafa unnið mikið að því að afla stuðnings við óskir Eystrasaltsríkja um beina aðild að RÖSE - ferlinu. Í ræðum sínum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september og á utanríkisráðherrafundi RÖSE í New York 2. okt. lýsti utanrrh. yfir fullum stuðningi Íslands við aðild Eystrasaltsríkjanna að RÖSE.
    Forsrh. talaði, eins og fram kemur í þáltill., máli Eystrasaltsríkja á leiðtogafundi RÖSE í París 20. nóv. sl. og Ísland og Danmörk stóðu fyrir blaðamannafundi utanrríkisráðherra Eistlands, Lettlands og Litáens í sambandi við það fundahald. Í júlí sl. tók utanrrh. á móti Endel Lippma, ráðherra í stjórn Eistlands, og í ágústmánuði tók hann á móti Ranonas Bogdanas, ráðgjafa forseta Litáens. Í ágúst bauð svo forsrh. Landsbergis, forseta Litáens, í heimsókn til Íslands sem varð af í október eins og fram hefur komið þegar Landsbergis hitti að máli flesta forustumenn íslenskra stjórnmála um málefni þjóðarinnar og annarra Eystrasaltsríkja.
    Þetta er aðdragandi þeirrar þáltill. sem við ræðum hér og á morgun verður haldinn, eins og fram kom hjá forsrh., í Kaupmannahöfn sameiginlegur fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna fimm og utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna þriggja í tilefni af opnun upplýsingaskrifstofu Eystrasaltsríkja í Kaupmannahöfn. Það væri sérstakt ánægjuefni á þeim fundi ef unnt væri að greina frá einróma samþykkt Alþingis Íslendinga. Á hana verður litið sem fordæmi hjá öðrum þjóðum sem vilja styðja réttmæta baráttu Eystrasaltsríkjanna fyrir fullu sjálfsforræði.
    Frú forseti. Við höfum að undanförnu upplifað sögulegar sættir, umsköpun þeirrar Evrópu sem í kjölfar seinni heimsstyrjaldar skiptist í tvær fylkingar, gráar fyrir járnum. Stórt skref til þess að lækna sárin eftir hildarleik stríðsins hefur verið stigið með sameiningu Þýskalands. En endurreisn Evrópu frjálsra ríkja er ekki lokið. Næsta skref hlýtur að vera, verður að vera, farsæl lausn og viðurkenning á réttmætum kröfum Eystrasaltsríkjanna um sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt þeim til handa. Þess vegna er þessi þáltill. einkar velkomin.