Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Tilefni þess að hér er flutt af hálfu hv. utanrmn. till. til þál. um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna er ákall forseta Litáens fyrir fáum dögum um endurnýjaðan stuðning af hálfu Íslendinga. Ég tel mjög mikilvægt þegar slíkt ákall berst að Íslendingar bregðist við skjótt og af einurð og sýni vilja Íslendinga til stuðnings í þessu efni. Æskilegt hefði verið að þau viðbrögð hefðu verið skjótari og málið hefði komið fyrr til kasta Alþingis.
    Við Íslendingar höfum verið í fararbroddi í stuðningi okkar við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og hófum þann stuðning með þeirri ályktun sem samþykkt var sl. vor eftir að Litáen gaf út sjálfstæðisyfirlýsingu sína. Við fluttum svo í framhaldi af því nokkrir þingmenn Sjálfstfl. sl. vor tillögu um viðurkenningu á sjálfstæði Litáens. Og nú í haust höfum við í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað endurflutt tillöguna með þeirri breytingu að nú gerum við ráð fyrir því að Ísland viðurkenni öll Eystrasaltsríkin þrjú og efni til stjórnmálasambands við þau.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum þar um að þessi ríki voru sjálfstæð og eiga að alþjóðalögum allan rétt á að endurheimta sjálfstæði sitt og fullveldi. Þau voru með hervaldi innlimuð í Sovétríkin og kjósa nú að losna undan því oki með friðsamlegum hætti. Og okkur Íslendingum ber sem fámennri þjóð að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að styðja þá baráttu.
    Við höfum þegar lagt ýmislegt af mörkum í þeim efnum. Enginn vafi er á því að sú tillaga sem flutt var af hálfu okkar sjálfstæðismanna hér sl. vor hefur haft jákvæð áhrif í því efni og ýtt við hæstv. ríkisstjórn að ýmsu leyti og ber að þakka það sem hún hefur vel gert í því efni.
    Ég átti þess kost að þiggja boð Eystrasaltsríkjanna eða ríkisstjórna þeirra sl. haust og átti viðræður við forseta þeirra og forustumenn þeirra nýju stjórnmálaflokka sem eru að spretta upp í þessum ríkjum. Það fór ekki á milli mála að vilji þeirra er einbeittur og alveg ljóst að þessi barátta getur aldrei endað nema á einn veg, að við kröfu þeirra verði orðið. Að baki forustumanna ríkjanna er svo sterkur þjóðarvilji og svo rík söguleg hefð og svo sterkur alþjóðlegur réttur að ekkert vopnavald getur brotið þessa baráttu á bak aftur.
    Það kom líka fram í þessum viðræðum að þeir munu meta það mikils að þjóðir heims viðurkenni fullveldi þeirra og sjálfstæði. Þó að við Íslendingar séum ekki fjölmenn þjóð og höfum ekki mikil áhrif á alþjóðavettvangi, þá líta þessar þjóðir svo til að það mundi styrkja þær í þeim viðræðum sem þær eiga nú við yfirvöld í Moskvu ef ríki eins og Ísland riði á vaðið og viðurkenndi formlega sjálfstæði þeirra eins og þau hafa farið fram á.
    Það er rétt að taka fram að þær viðræður sem nú eiga sér stað við miðstjórnarvaldið í Moskvu snúast ekki um það hvort miðstjórnarvaldið viðurkenni sjálfstæði þessara ríkja. Af hálfu yfirvalda í Eystrasaltsríkjunum öllum þremur er litið svo á að sjálfstæði sé forsenda viðræðna um pólitísk og efnahagsleg samskipti að öðru leyti.
    Allt þetta er nauðsynlegt að hafa í huga á þessu stigi máls. Ég tel mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafa í verki barist fyrir því að Eystrasaltsríkin fengju aðild að ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu. Ég tel að Ísland eigi að styðja óskir Eystrasaltsríkjanna um áheyrnaraðild að Norðurlandaráði og tel reyndar að það sé keppikefli okkar og geti verið þáttur í því að dýpka og styrkja norrænt samstarf í nýrri Evrópu að leita eftir víðtækara samstarfi þjóða á þeim grundvelli.
    Ég verð einnig að minna á að þrátt fyrir lagalega viðurkenningu sem ekki hefur verið afturkölluð frá 1922 höfum við í reynd viðurkennt hernám Sovétríkjanna og innlimun þessara ríkja í 50 ár. Það er nauðsynlegt ef við viljum stíga skrefið til fulls að brjóta þá viðurkenningu sem við höfum í reynd sýnt hernámi Sovétríkjanna með nýrri, endurnýjaðri áréttingu á viðurkenningu á sjálfstæði þessara ríkja. Vegna þess að við höfum í reynd viðurkennt hernámið er nauðsynlegt að árétta hina fyrri yfirlýsingu á nýjan leik áður en við getum talið okkur hafa getað brotið þann ís að verða fyrstir þjóða til að viðurkenna formlega sjálfstæði þessara ríkja.
    Það sem hér er um að ræða í dag eru viðbrögð við nýlegu ákalli forseta Litáens. Það kreppir að í þeirra baráttu. Forustumenn þessara ríkja hafa óttast að yfirvöld í Moskvu kynnu að beita þvingunum. Þeim er mikilvægt að fá slíkan stuðning og ég tel rétt að Alþingi samþykki þá tillögu sem samkomulag hefur orðið um í hv. utanrmn. og tel hana vera skref í áttina og góðan stuðning við sjálfstæðisbaráttu þessara ríkja, en ég lít svo á að hér sé aðeins um áfangaskref að ræða. Við Íslendingar þurfum að stíga fleiri og mikilvægari skref til þess með virkum hætti að styðja við bakið á þessum þjóðum sem nú berjast fyrir því að endurheimta fullveldi sitt. En hér er verið að leggja til mikilvægan áfanga í stuðningi af hálfu okkar Íslendinga við þessar þjóðir og ég fagna því að um það skuli hafa tekist samstaða í hv. utanrmn. og vænti þess að þingið sameinist um þá niðurstöðu þannig að á þessum tímapunkti finni Eystrasaltsþjóðirnar fyrir þeim einhuga stuðningi sem Íslendingar vilja sýna þeim í þessari mikilvægu baráttu.