Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að sú tillaga sem utanrmn. hefur sameinast um og hér er flutt sé rétt orð á réttum stað og bæti við með réttmætum hætti þær áherslur sem fram hafa komið áður hjá Alþingi Íslendinga til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.
    Það var auðvelt verk í utanrmn. að ná samstöðu um þann texta sem hér liggur fyrir frá nefndinni því að innan hennar hefur á þessu ári, þegar málefni Eystrasaltsríkjanna hafa verið þar til umræðu, verið mjög samhljóða álit og viðhorf milli þeirra flokka og fulltrúa sem skipa utanrmn. Ég held að það sé nauðsynlegt að undirstrika hér þessa ríku samstöðu milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi í sambandi við stuðning við baráttu Eystrasaltsríkjanna.
    Við hljótum þegar við metum það með hvaða hætti við látum okkar viðhorf koma í ljós opinberlega að athuga hvað geti komið þessum þjóðum, Eystrasaltsríkjunum, að gagni hverju sinni. Ég held að sá háttur sem á hefur verið hafður í sambandi við þetta mál, að álykta nú eftir samráð við æðstu menn í ríkjum þeirra, sérstaklega Landsbergis forseta Litáens, að þar sé rétt á máli haldið. Við eigum ekki að draga af okkur í þessum málum, en við eigum auðvitað jafnframt að gæta þess að fara ekki offari og ég tel að það hafi ekkert það komið fram hér á Alþingi Íslendinga til þessa sem beri vott um það.
    Í lokaorðum þessarar till. er því beint til ríkisstjórnar Íslands að hafa frumkvæði að því á alþjóðavettvangi að styðja sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna þannig að á henni finnist farsælar lyktir. Það hlýtur að verða viðfangsefni næstu vikna, næstu mánaða. Vonandi tekur ekki allt of langan tíma fyrir okkur Íslendinga og íslensk stjórnvöld að finna leiðir til þess með sem árangursríkustum hætti að styðja sjálfstæðisviðleitni og baráttu þessara ríkja allra þriggja.
    Ég tel í raun að af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar hafi verið lagt inn mjög gilt og réttmætt orð í þessu samhengi. Í ályktuninni er vitnað til ræðu hæstv. forsrh. á fundinum í París í síðasta mánuði og það er með fullum hætti réttmætt að gera það því að það undirstrikar þá áherslu sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt í þessu máli, en af hálfu annarra ráðherra, einnig hæstv. utanrrh., hefur verið lagt inn gott og gilt orð í þessa baráttu víða á fundum nú á yfirstandandi ári. Ég held að við þurfum að meta það, og íslensk stjórnvöld sérstaklega, hvort ekki sé eðlilegt að taka þetta mál upp ef þörf krefur og ekki miðar í rétta átt í samningum milli þessara ríkja, að þá beitum við okkur fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að taka málefni Eystrasaltsríkjanna og sjálfstæðisbaráttu þeirra upp með formlegum hætti. Við höfum víða vettvang til að ljá þessum málum lið. Norðurlandaráð er einn slíkur vettvangur. Þar hafa fulltrúar Íslands lagt inn orð, ég leyfi mér að segja með ákveðnari hætti heldur en fulltrúar og þingmenn frá öðrum Norðurlöndum, þó ég ætli ekki að fara að metast á um það, til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, m.a.

að ljá því lið að þeir fái fasta áheyrn á vettvangi Norðurlandaráðs. Ég hef sjálfur mælt fyrir því á þeim vettvangi að svo megi verða og ég tel að við eigum að stuðla að því að Eystrasaltsríkin fái þar fastan áheyrnarrétt.
    Sjálfur átti ég þess kost sem ferðamaður að heimsækja eitt af þessum ríkjum í júní sl. Það var í ferð til Eistlands og þar hitti ég ráðamenn þess ríkis. Það var mjög ánægjuleg heimsókn að því er varðaði þau áhrif sem maður varð fyrir um þá samheldni sem ríkti meðal Eista í sjálfstæðisbaráttu þeirra og eftir þær viðræður er manni alveg ljóst að það mun ekkert buga þessa þjóð þó að hún standi að mörgu leyti í erfiðum sporum vegna þess fjölda útlendinga sem hafa tekið sér þar bólfestu á árunum eftir stríð. Ég er viss um það að frumkvæði okkar Íslendinga í stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna mun verða til þess að hreyfa almenningsálit heimsins þó okkur finnist hægt ganga í þeim efnum og við eigum að halda þeirri viðleitni áfram þangað til fullur sigur vinnst í sjálfstæðisbaráttu þeirra.