Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Bæði kjarninn í því sem frsm. félmn., sem ekki er hér inni, og hæstv. félmrh. sögðu áðan var að þegar lagt var fram frv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á sl. vori hafi höndunum verið kastað til þess. Það hafi verið illa undirbúið, illa unnið, ekki borinn saman texti og þar fram eftir götunum. Sú nefnd sem fjallaði um málið hér í þinginu hafi heldur ekki lagt sig fram um að kynna sér rækilega efni þess frv. sem hér lá fyrir o.s.frv. ( Gripið fram í: Hver sagði það?) Það er kjarni þess sem þeir sögðu, ráðherra og frsm. nefndarinnar. Það hafa verið mjög skiptar skoðanir um það frá gömlum tíma hvernig eigi að endurmeta verkamannabústaði. Það hvílir á þeim kaupskylda og þessi kaupskylda hvílir jafnt á Byggingarsjóði verkamanna sem sveitarfélögum. Það er mikið álitamál þegar um slíka kaupskyldu er að ræða hvernig rétt sé að meta viðkomandi íbúð til eignar. Hvað er sanngjarnt að sá fái mikið fyrir verkamannabústað sem þar hefur búið og hefur eignast hann og ég vil segja með misgóðum kjörum, því þó svo að kjörin á verkamannabústöðum séu mjög góð nú þá voru þau auðvitað enn þá betri áður. Alltaf var vakandi sú spurning hversu mikið tillit ætti að taka til markaðarins. Um það voru menn að velta vöngum. Það var líka mikil spurning um það hversu flókinn sá útreikningur ætti að vera sem lagður væri til grundvallar við mat á endursöluverði verkamannabústaða. Það var verið að velta því fyrir sér hvort það ætti að taka tillit til markaðarins. Um þetta voru skiptar skoðanir og auðvitað hægt að leggja margt til grundvallar í þvílíkum samanburði.
    Í þeirri sérstöku nefnd sem við áttum sæti í, ég og frsm. félmn. Jóhann Einvarðsson, var reynt að fara mjög rækilega einmitt ofan í þessi mál. Hvort hægt væri að finna einhverja betri aðferð til þess að endurmeta verðmæti þess sem þá hét einfaldlega verkamannabústaðir. Ég veit að hann rekur minni til þess, formann nefndarinnar. Nú skal ég ekki gera honum upp orð á þeim tíma en ég vil aðeins minna hann á að ég lagði það þá til grundvallar mínum skoðunum að það ætti að taka meira tillit til markaðsverðs en gert hefði verið. Einnig taldi ég nauðsynlegt að reglur um mat á íbúðum, endursöluíbúðum eða hvað það heitir, verkamannabústöðum, bara best að kalla það það, yrði reynt að hafa sem einfaldast en þó sem réttlátast. Það voru tveir tæknimenntaðir menn sem voru okkur til leiðbeiningar, báðir gagnkunnugir þessu kerfi, annar verkfræðingur og hinn tæknifræðingur. Mér var aldrei almennilega ljóst hvort þeir skildu hvorn annan, svo flókin voru þau atriði sem þeir vildu leggja til grundvallar við mat sitt á því hvernig ætti að komast að niðurstöðum um verð íbúðanna.
    Það sem við erum hér að tala um í 100. gr. er algert undanþáguákvæði í íslenskum lögum. Við erum að tala um það að, svo ég lesi nú þessa grein upp ef einhver þingmaður skyldi hlusta á það sem ég er að segja og hann geti fylgst með þá er sú grein svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Nú er íbúð sem

byggð hefur verið skv. þessum lögum eða eldri lögum um verkamannabústaði seld á nauðungaruppboði og skal sveitarstjórn þá neyta forkaupsréttar síns, sbr. þó 99. gr., og krefjast þess á uppboðsþingi að eignin verði lögð henni út til eignar á því verði sem hæst hefur verið boðið í eignina eða á söluverði skv. 2. mgr. 102. gr. ef það er lægra en hæsta boð. Að fengnu afsali skv. þessu ákvæði skal afmá í veðmálabókum veðbönd og höft á eigninni.`` Úrlausnarefnið sem við erum að horfa á er þetta: Á eigandi verkamannabústaðar rétt á því að fá a.m.k. markaðsverð? Og krefjast þess á uppboðsþingi að eignin verði lögð henni út til eignar á því verði sem hæst hefur verið boðið í eignina eða á söluverði skv. 2. mgr. 102. gr. ef það er lægra en hæsta boð. Að fengnu afsali skv. þessu ákvæði skal afmá í veðmálabókum veðbönd og höft á eigninni.
    Nú eru það auðvitað hagsmunir þess sem býr í verkamannabústað að hann missir hann auðvitað ekki vegna þeirra skulda sem hvíla á verkamannabústaðnum. Ég hygg að það séu fá dæmi þess að menn hafi ekki getað staðið við þær skuldbindingar sem þar eru, heldur erum við hér að ræða um skuldbindingar sem hvíla á viðkomandi manni annars staðar í þjóðfélaginu. Og þá er álitamálið hvort viðkomandi íbúðareigandi eigi rétt á að fá markaðsverð fyrir íbúðina ef markaðsverðið er hærra en hið fixaða verð, ef ég má tala góða íslensku, en útreikningar sýna. Það mundi auðvitað létta skuldabyrði hans annars staðar.
    Með 100. gr. tekur Alþingi ákvörðun um að færa markaðsverðið niður, færa verð íbúðarinnar niður ef hið útreiknaða verð sýnist lægra og krefjast þess á uppboðsþingi að eignin verði lögð sveitarstjórninni út til eignar á því verði sem hæst hefur verið boðið í eignina, eða á sama verði skv. 2. mgr. 102. gr. ef það er lægra en hæsta boð. Greinin lýtur með öðrum orðum að því að veita sveitarfélögunum ekki aðeins forkaupsrétt á uppboði heldur veit greinin að því að sveitarfélögin séu skyldug til þess að kaupa eignina. Þá skulum við athuga hvað vakir fyrir þeim sem samdi þessa lagagrein. Við skulum reyna að íhuga það.
    Það er auðvitað áhættulaust að bjóða hvað sem er í íbúð í verkamannabústað eða félagslega íbúð sem seld er á nauðungaruppboði. Til þess að tryggja hagsmuni þess sem hefur búið í íbúðinni, skv. þessari grein, er þess vegna óhætt að bjóða 10 millj. kr. í íbúðina þó svo að íbúðin sé ekki nema 5 millj. kr. virði vegna þess að sveitarfélagið mun leysa íbúðina til sín skv. þeirri reglu sem segir í lögunum. Þá er það efnislegt álitamál, sem verður að taka tillit til, hvort eðlilegra sé að taka til viðmiðunar hina einföldu reglu 102. gr. eða hvort fara eigi í flóknari reglur skv. 101. gr. Ég skal ekki um það segja. Ég hef satt að segja enga skoðun á því. Ég hef ekki séð neina útreikninga á því hvernig hvor regla um sig kemur út. En það er greinilegt að þarna er ekki um sömu útreikningsreglu að ræða. Það er kjarni málsins. Þess vegna er hægt að miða við hvort sem er.
    Mér þætti mjög fróðlegt, herra forseti, þó svo þetta frv. verði keyrt í gegn í dag að fá útreikning frá

félmrn. um það hvernig þessar reglur báðar koma út í sambandi við einhverja íbúð sem seld hefur verið á nauðungaruppboði. Það er um þetta.
    Þá skulum við aðeins víkja að lánum til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Ég man ekki hvenær 22. gr. kom inn, en ég hygg að ég muni það rétt að hún hafi komið inn samkvæmt tillögu okkar hv. 8. þm. Reykn. Ég vil enn endurtaka það sem við lögðum til grundvallar. Það er a.m.k. alveg ljóst að í okkar áliti á sínum tíma var lögð sérstök áhersla á efnisatriði þessarar greinar og nauðsyn þess að þau yrðu felld inn í húsnæðislöggjöfina.
    Úrræði félagslega íbúðakerfisins sem grundvallast á því að sveitarfélög byggi leiguíbúðir til þess að leysa af hólmi heilsuspillandi íbúðir getur ekki átt við í strjálbýli. Ég hygg að það sé alveg ljóst hverjum þeim manni sem kunnugur er úti um landið og ég hygg að viðkomandi --- nú er að vísu mjög vel byggt upp í Mjóafirði, ég tala nú ekki um á Brekku, en einfalt væri að bjóða hæstv. félmrh. þangað og spyrja hann hvort honum þyki líklegt að félagsleg úrræði séu þar möguleg, að sveitarfélagið komi inn með byggingu leiguíbúða. Sú leið er því ekki fær og heldur ekki æskileg. Það sem við lögðum áherslu á, ég og hv. 8. þm. Reykn. og allir þeir aðrir sem voru með okkur í húsnæðisnefndinni á sínum tíma er hv. þm. Alexander Stefánsson fór með málefni Húsnæðisstofnunar ríkisins, var að í húsnæðislöggjöfinni væri sérstakt úrræði um hvernig hjálpa mætti þeim fjölskyldum sem byggju í heilsuspillandi húsnæði til að laga húsnæðið, gera það betur íbúðarhæft, gott húsnæði til þess að spara kostnað, bæði fyrir sig og þjóðfélagið í heild. Það var út á það sem 22. gr. gekk. Það er mjög athyglisvert að hvorki hæstv. félmrh. né frsm. nefndarinnar skyldu víkja einu einasta orði að þessum þætti málsins, sem er þó kjarni málsins í mínum málflutningi. Ef einhver býr í heilsuspillandi húsnæði og á annars vegar kost á því að fá lán með 1% vöxtum til 50 ára, en hins vegar lán með 8, 3,5 eða 4,5% vöxtum tekur hann auðvitað lánið með 1% vöxtum þar sem það er mögulegt. Hvernig hugsar hæstv. ráðherra sér framkvæmdina í hinum fámennari sveitarfélögum? Er hugmyndin þar að félagslega kerfið grípi inn í? Hver á þá að vera framkvæmdaraðilinn? Að þessu lúta mínar spurningar.
    Nú er ég að vísu máladeildarstúdent og þess vegna ekki góður í líkindareikningi. En við skulum hugsa okkur að þeir sem gengu frá lagafrv. flettu lögunum frá 1988 um Hússnæðisstofnun ríkisins. Þeir sjá á bls. 3 tölul. 5, einn af tíu töluliðum, ein setning: ,,Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði``. Síðan fletta þeir við og sjá á bls. 7 millifyrirsögn feitletraða: ,,Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði``. Og nú er verið að segja mér að þeir sem sömdu frv. hafi af skarpskyggni sinni tekið eftir tölul. 5 sem sker sig ekki úr öðrum tíu en algerlega farið fram hjá heilum kafla í lögunum á þeim tíma sem heitir ,,Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði``, algerlega yfirsést heill kafli. Líkindareikningurinn segir: Auðvitað tekur maður fremur eftir hinu smáa en hinu stóra. Sér frekar

þúfuna en fjallið, pollinn en sjóinn.
    Ég vil svo ítreka það sem ég hef áður sagt. Við getum fært margvísleg rök fyrir því hvernig eigi að endurmeta íbúðir í verkamannabústöðum, félagslega kerfinu. Það gefur félmrn. ekki heimild til þess að breyta lagaviðmiðun. Við erum þar að fjalla um opinbera fjármuni og einkafjármuni, hagsmuni fólks, og það er alveg ljóst að starfsmenn félmrn. hafa ekkert með það að gera.
    Ég vil í annan stað benda á að það er ekki á valdi starfsmanna félmrn. að fullyrða hvort heill kafli standi inni í lögum fyrir athugunarleysi eða lítið setningarbrot, sem vantar meira að segja í umsögn, falli brott vegna athugunarleysis, að kaflinn falli ekki brott vegna athugunarleysis eða hvort þessi litla setning falli brott vegna athugunarleysis. Það er ekki á valdi starfsmanna félmrn. að fullyrða neitt um það. Það er algerlega ljóst í mínum huga að 22. gr. var þörf. Það er algerlega ljóst í mínum huga að það má vel vera að fólki sé ekki kunnugt um það úrræði sem felst í 22. gr. ( Forseti: Þar sem nú hefur verið boðaður fundur í sameinuðu Alþingi þarf ég að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Þegar ég var hér að tala í dag þá beindi ég orðum mínum til hæstv. félmrh. Hann er auðvitað fjarverandi. Frsm. félmn. sem ég var að tala við er einnig fjarverandi. Það var tilkynnt í forsetastóli í sameinuðu þingi að fundir í deildum byrjuðu kl. hálfellefu. Það getur satt að segja ekki verið meiri óstjórn eða ringulreið á þessu þingi en er. Það er ekki reynt að sjá um að sá ráðherra og sá þingmaður sem eru til andsvara í málinu séu við. Það er sagt ósatt um það hvenær fundir hefjist og virðist ekki skipta neinu máli og annað eftir því. Ég sé ekki ástæðu til að halda þessu áfram eða biðja um að þetta fólk verði sótt. Ég var með ákveðna beiðni um að viss atriði í sambandi við brtt. yrðu dregin aftur til 3. umr. Ég sé að frsm. nefndarinnar hefur ekki vilja til þess einu sinni að svara og ég nenni ekki að vera að biðja alltaf um að þessir menn séu við hér í deildinni.