Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Vegna þeirra tíðinda sem borist hafa frá Litáen hlýtur hugur okkar alþingismanna að vera hjá litáísku þjóðinni og þeim sem hún hefur kjörið til að vera í forustu. Samúð okkar hlýtur að vera með Litáum. Það er heilagur réttur þjóða að fá að velja sér sjálfar stjórnarhætti með lýðræðislegu móti.
    Ég hafði tækifæri til þess á sl. hausti sem forseti Norðurlandaráðs og sem formaður sendinefndar á vegum ráðsins að heimsækja æðsta ráðið í Moskvu og þingin í Litáen, Lettlandi og Eistlandi. Það er sannfæring mín að vilji meiri hluta þjóðanna í Eystrasaltslöndunum sé að öðlast sjálfstæði og það er þeirra réttur að svo verði.
    Þegar við vorum á ferð í Eystrasaltslöndunum fyrst í nóvember, þá létu forsetar allra Eystrasaltsríkjanna við okkur í ljósi ótta um að sovéski herinn mundi grípa til aðgerða, þvílíkra sem nú er raunin á í Litáen, þ.e. að Moskvuhollir minnihlutahópar yrðu notaðir til þess að efna til óspekta og það yrði notað sem afsökun fyrir íhlutun sovéska hersins. Því miður hefur raunin orðið sú í Litáen sem þeir óttuðust og ástand mála í Lettlandi og Eistlandi er mjög varhugavert. Ég persónulega óttast að austan þaðan berist fátt nema ótíðindi á næstunni.
    Ég óttast enn fremur að það sé þýðingarlítið að skrifa Gorbatsjov. Ég óttast að hann hafi misst tök á þróun mála og pólitísk staða hans verið orðin mjög veik jafnvel þó að hann hafi fengið sig kjörinn að nafninu til í miklar trúnaðarstöður. Ég held að hið raunverulega vald sé komið til annarra, annaðhvort til rauða hersins eða einstakra hluta hans eða hið raunverulega vald yfir rauða hernum sé komið til annarra og séu í annarra höndum. A.m.k. hefur sú pólitík sem Gorbatsjov hefur fylgt undanfarin 5 -- 6 ár beðið lægri hlut og henni er ekki fylgt núna. Nú er fylgt línu harðlínumanna.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs átti fund í Kaupmannahöfn 10. jan. Þar gerðum við ályktun varðandi þróun mála í Eystrasaltslöndum og ég hef fyrir hönd Norðurlandaráðs í dag sent þessa ályktun bæði til Anatolís Lúkíanovs, forseta æðsta ráðsins, og Ívans Laptévs, sem er forseti alríkisdeildar æðsta ráðsins, ásamt með bréfi sem ég vil lesa hér í lauslegri þýðingu. Þetta er bréfið til Lúkíanovs og Laptévs, það er samhljóða:
    ,,Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 10. jan. 1991 var ástandið í Eystrasaltsríkjunum til umræðu. Í ljósi hernaðaríhlutunar sovéska hersins í Litáen aðfaranótt 13. jan. sl. ber að líta á þessa yfirlýsingu forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem tjáningu á alvarlegum áhyggjum og sem stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs krefst þess með þessu bréfi að raunverulegar samningaviðræður hefjist eins fljótt og framast er unnt milli ríkisstjórnar Sovétríkjanna og Eystrasaltsríkjanna til að koma sjálfstæðismálum þjóða Eystrasaltsríkjanna áleiðis.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs leggur áherslu á að

samningaviðræður eigi sér stað í friðsamlegu andrúmslofti og án nokkurs ótta eða þrýstings.
    Herra formaður. Við sem erum þingmenn Norðurlandaráðs biðjum eindregið þingmenn æðsta ráðsins að virða lýðræðið í Eystrasaltsríkjunum. Það er Norðurlöndum jafnt og öllum þjóðum við Eystrasalt afar mikilvægt að hin jákvæða þróun á Eystrasaltssvæðinu haldi áfram á friðsamlegan hátt þannig að grundvallaratriði sjálfsákvörðunarréttar allra þjóða séu viðurkennd. Það má ekki ske að lýðræðisþróunin í Eystrasaltsríkjunum verði bæld niður.
    Yfirlýsingin fylgir bréfi þessu.

Páll Pétursson,

forseti Norðurlandaráðs.``


    Yfirlýsing forsætisnefndarinnar hljóðar svo, frú forseti, í lauslegri þýðingu:
    ,,Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur á sama hátt og ríkisstjórnir Norðurlanda fagnað mjög hinni lýðræðislegu þróun í Eystrasaltsríkjunum og krefst þess að raunverulegar samningaviðræður verði hafnar eins fljótt og mögulegt er milli ríkisstjórnar Sovétríkjanna og ríkisstjórna Eystrasaltsríkjanna til að leidd verði til lykta barátta Eystrasaltsríkjanna fyrir fullu sjálfstæði. Það er í ljósi þessa sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs lýsir djúpum áhyggjum vegna hernaðaraðgerða þeirra sem átt hafa sér stað undanfarna viku í Eystrasaltsríkjunum. Þjóðir Eystrasaltsríkjanna eiga rétt á að komið sé fram við þær í samræmi við grundvallarreglur RÖSE, Ráðstefnunnar um frið og öryggi í Evrópu.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs leggur áherslu á að samningarnir verði að eiga sér stað í friðsamlegum anda og án nokkurs ótta eða þrýstings. Það er Norðurlöndum jafnt og öðrum þjóðum við Eystrasalt afar mikilvægt að hin jákvæða þróun á Eystrasaltssvæðinu haldi áfram á friðsamlegan hátt þannig að grundvallaratriði sjálfsákvörðunarréttar allra þjóða séu viðurkennd. Það má ekki eiga sér stað að lýðræðisþróunin í Eystrasaltsríkjunum verði bæld niður.``
    Afrit af þessu bréfi lét ég senda til Landsbergis, forseta Litáens, Anatolijs Gorbunovs, forseta Lettlands og Arnolds Rüütels, forseta Eistlands.
    Norðurlandaráð eru samtök þjóðþinga Norðurlandanna og það er eðlilegt að snúa sér til fyrirsvarsmanna þings Sovét ríkjanna, þ.e. æðsta ráðsins, auk þess sem ég hitti þessa fyrirsvarsmenn æðsta ráðsins og veit um þeirra skoðanir.
    Norðurlandaráð mun á næstu vikum fylgjast með þróun mála. Á vegum ráðsins eru uppi margvíslegar aðgerðir til aðstoðar Eystrasaltsríkjunum. Ég vona sannarlega að þær aðgerðir komist í framkvæmd. Það er skylda okkar að veita þessum nágrönnum okkar í austri það lið sem við megum.