Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Það er með döprum huga sem ég stíg hér í ræðustól í kvöld og svo er áreiðanlega um alla hv. þm. hér á Alþingi sem hugleitt hafa þá atburði sem orðið hafa í Eystrasaltsríkjunum og þá fyrst og fremst Litáen nú undanfarna daga.
    Málefni Eystrasaltsríkjanna og einkanlega Litáens hafa verið okkur alþingismönnum sérlega hjartfólgin allt frá því er hugir okkar fylltust gleði þegar við heyrðum um yfirlýsingu þings Litáens þar sem sjálfstæði þess ríkis var lýst yfir og við sendum á fyrsta fundi Alþingis þar eftir kveðjur til þings Litáens með ósk um náið samstarf beggja þessara löggjafarsamkoma. Frá þeim tíma hefur mikil vinátta og samskipti ríkt milli Litáens og ekki síst Landsbergis forseta og íslenskra valdhafa og hefur Alþingi ítrekað ályktað um stuðning sinn við Litáen. Þó er það ljóst að ein tegund stuðningsyfirlýsingar hefur þeim ekki borist þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það efni, en það er formleg og afdráttarlaus yfirlýsing um viðurkenningu á algjöru og óskoruðu fullveldi Litáens.
    Það liggja fyrir skýringar hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar á orsökum þess að það hefur ekki verið gert hér á landi, vegna þess að menn telja að þjóðréttarlega séð sé stuðningsyfirlýsing og viðurkenning frá 1922 enn í fullu gildi. Um það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir hér á Alþingi, hvort bæri að ítreka þessa yfirlýsingu formlega nú eða ekki. Sjálfstæðismenn hafa flutt um það tillögu en hins vegar gera sjálfstæðismenn sér það ljóst, eins og fram kom í ræðu formanns okkar sjálfstæðismanna, hv. 1. þm. Suðurl. í dag, að í raun hefur efni þeirrar tillögu verið tekið til greina og það samþykkt af hv. Alþingi, ekki síst í orðalagi þeirrar tillögu sem samþykkt var nú á Alþingi rétt fyrir jól þar sem ítrekuð er nauðsyn þess að viðurkenna sjálfstæði Litáens. Í því felst að sjálfsögðu hvatning til þeirra þjóða sem svo hafa ekki gert að standa að slíku.
    En núna hafa þeir atburðir gerst sem fyllt hafa hugi okkar hryggð. Við finnum til með þessari litlu þjóð sem við skiljum á margan veg þótt þar sé við annað og meira ofurefli að etja heldur en jafnvel það sem við áttum við í okkar löngu sjálfstæðisbaráttu.
    Þeir atburðir sem orðið hafa í Litáen hafa því miður gert að engu eða næstum engu þær vonir sem Evrópubúar og raunar heimsbyggðin öll hafa bundið við þau merki sem sést hafa á lofti um miklu betri sambúð þjóða, aukin réttindi manna í þeim ríkjum sem búið hafa við harðstjórn kommúnismans og mörg skref í átt til lýðræðis í þessum ríkjum, vitandi það að þeirri breytingu, einkanlega þeirri skyndilegu breytingu mundu vissulega fylgja vissir erfiðleikar. En þær þjóðir sem betur máttu sín hafa verið tilbúnar til þess að veita allan þann stuðning sem þær gátu í té látið. Ákvarðanir hafa þegar verið teknar um aðstoð, beina efnahagsaðstoð og í undirbúningi og í vinnslu er margs konar önnur aðstoð, bæði með ýmiss konar leiðbeiningar í sambandi við rekstur atvinnufyrirtækja, aðstoð vegna heilbrigðiskerfis, heilbrigðisþjónustu í

þessum ríkjum sem því miður er á ýmsan hátt mjög í molum og sést best á þeirri beiðni sem send var út frá Litáen í gærkvöldi með ákalli til annarra ríkja um aðstoð í formi hjúkrunargagna og heilbrigðisstarfsfólks.
    Allt þetta þýðir að við þurfum að meta þessa stöðu upp á nýtt. Þó leyfi ég mér að halda að það kunni að vera einhver von vegna þess að við sjáum ekki enn endanlega hvað raunverulega er að gerast í því mikla ríki Sovétríkjunum og hvaða áhrif hefur sú ákvörðun sem Boris Jeltsín hefur tekið í samstöðu við Eystrasaltslýðveldin.
    Það má spyrja: Hvað getur Ísland gert frekar heldur en þegar hefur komið fram? Hvað getur Alþingi gert Litáum til stuðnings? Hvað getur ríkisstjórn Íslands gert? Höfum við ekki sýnt allan þann stuðning sem við höfum verið beðin um og allan þann stuðning sem við höfum mátt til þess að framfylgja og mun ekki sá stuðningur verða þeim mun áhrifaríkari sem það er ljóst að víðtæk samstaða er á Alþingi um þá afstöðu sem tekin er hér í dag og tekin hefur verið og er líkleg til að verða tekin í þessum málum nú næstu daga?
    Hér hafa menn rætt í dag ýmsar aðgerðir í þessu sambandi og það hefur í raun og veru komið fram nokkur blæbrigðamunur samt á tillögum hæstv. ráðherra ekki síst, um það hvernig standa beri að því að mótmæla með sem kröftugustum hætti aðgerðum Sovétríkjanna í Eystrasaltslöndunum. Hér hafa komið fram hugmyndir af hálfu ráðherra að slíta stjórnmálasambandi, menningarsambandi og viðskiptasambandi. Hér hafa komið fram tillögur um ýmiss konar aðrar mjög eindregnar aðgerðir, en að því hafa verið leidd rök af hálfu hæstv. utanrrh. og forsrh. að slit á stjórnmálasambandi væri e.t.v. ekki það ráðlegasta í augnablikinu, eða svo þótti mönnum ekki fyrr í dag, en vel má vera að þeir atburðir sem nú fréttist af síðdegis hafi í einhverju breytt afstöðu manna.
    Það er ljóst að þau dimmu ský sem hvíldu yfir himni þessara landa, okkar allra himni, eru enn þá dimmari í dag því að það er ljóst að Sovétherinn hefur svikið það vopnahlé sem hann samdi um, svikið 24 stunda vopnahlé. Svo lágt er lotið. Og þá er meira en tímabært að Alþingi Íslendinga, sem vill sýna Litáen eindreginn stuðning, stígi fastar á fjöl og sendi eindregna yfirlýsingu sem yrði samþykkt nú strax í kvöld.
    Það hefur ríkt mikil samstaða í utanrmn. þingsins um afstöðu til þessa máls og utanrmn. samþykkti einróma í dag tillögu sem formaður hennar, hv. 8. þm. Reykn., mun gera grein fyrir hér á eftir. Þessi tillaga er harðari heldur en áður hefur verið samþykkt hér á Alþingi og hún tekur enn eindregnari afstöðu en menn hafa áður gert hér á Alþingi til þeirrar hugmyndar að viðurkenna beri fullt og óskorað sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.
    Ég vil leyfa mér að árétta örfáar hugmyndir, sem ég tel að ríkisstjórnin ætti að grípa til við fyrsta tækifæri, sem hlyti þá að vera á morgun, til viðbótar því sem þegar hefur verið gert. Ég vil taka samt fram að ég hef verið mjög sammála hæstv. utanrrh. og raunar hæstv. forsrh. um það sem gert hefur verið og þær yfirlýsingar sem þegar hafa fram komið um ástandið í Eystrasaltsríkjunum. En mér þykir ekki ólíklegt að samstaða fengist um það í öllum stjórnmálaflokkum hér á hv. Alþingi og veit ekki nema sú afstaða sé þegar mótuð í huga hæstv. utanrrh. að það sé rétt og sjálfsagt eins og málin blasa við nú að kalla heim viðskiptasendinefndina íslensku í Sovétríkjunum.
    Það er óneitanlega einkennileg tímasetning til að gera upp viðskiptaskuld að bregða við að morgni þess sólarhrings sem sorgaratburðirnir í Vilnius urðu á nú aðfaranótt sunnudagsins, að þá skuli fyrsta sýnilega aðgerð af hálfu Íslendinga vera að senda viðskiptanefnd til Sovétríkjanna til þess að ræða um uppgjör gamallar skuldar. Mér er alveg óskiljanlegt í fyrsta lagi hvers vegna menn rönkuðu ekki við sér strax og sáu að þetta var ekki viðeigandi og svo hitt að það hljóti að vera einhver önnur ráð við að gera upp þessa gömlu skuld ef þá eitthvað er til til að borga hana með. En þetta held ég í raun
og veru að sé mál sem við séum öll sammála um. Ég vil einungis nota þetta tækifæri til að undirstrika þessa afstöðu. Ég held að við flest mundum styðja það mjög eindregið ef hæstv. utarrh. kveddi þessa nefnd heim.
    Í öðru lagi held ég að við séum öll sammála um þá hugmynd að kalla bæri heim sendiherra Íslands til skrafs og ráðagerða. Það hefur ekki komið fram enn þá breið samstaða um það að slíta stjórnmálasambandi en í öllu falli virðist þessi aðgerð, að kalla heim sendiherra Íslands til skrafs og ráðagerða um þá atburði sem orðið hafa, vera sjálfsögð.
    Í þriðja lagi vil ég láta í ljós þá skoðun að rétt sé að kæra athæfi Sovétríkjanna til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í samræmi við óskir forseta Litáens. Mér er alveg ljóst að það kunna að vera vandkvæði á því að láta þá kæru leiða fljótlega til lausnar á þessu máli enda var það ekki það sem forseti Litáens fór fram á, hann fór fram á að send væri kæra til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta getum við mæta vel gert, þó ekki væri nema til að koma til móts við þessa ósk, sýna hinni hrjáðu þjóð í Litáen siðferðilegan stuðning. Hvernig svo sem þessari kæru reiddi af --- það er auðvitað rétt og viturlegt sem hæstv. utanrrh. benti á að það sé eðlilegt að hafa samráð við einhverja þeirra þjóða sem hafa neitunarvald í öryggisráðinu um það að þær a.m.k. settu ekki fótinn fyrir slíka tillögu og einnig er það líka athugunarefni sem hæstv. ráðherra benti hér á í dag að það kynni að vera að af vissum formsástæðum yrði slík kæra ekki tekin til greina eða henni hreinlega vísað frá. Ég vona að hæstv. ráðherra leiðrétti mig ef þetta er ekki rétt skilið, en hæstv. ráðherra skýrði það fyrir okkur í dag að vegna þess að menn mundu e.t.v. deila um það að hér væri um fullkomlega sjálfstætt ríki að ræða þá gæti slík kæra sem það varðaði ekki verið tekin til greina samkvæmt reglum öryggisráðsins.
    Nú er það svo að þetta er ekki okkar afstaða. Við teljum að við séum að vinna fyrir sjálfstætt ríki og við viljum styðja það í þeirri viðleitni að fá viðurkenningu á því sjálfstæði, á því fullveldi frá sem flestum öðrum ríkjum. Þess vegna tel ég að við eigum ekki að láta bilbug á okkur finna með þetta og senda þessa kæru. Þó svo að hætta kynni að vera á að henni yrði vísað frá af þessum ástæðum kemur enn betur í ljós nauðsyn á því að senda formlega viðurkenningu á fullveldi Litáa.
    Þetta vildi ég nú sérstaklega undirstrika og ég leyfi mér líka að láta í ljós það álit að það muni vera víðtækur stuðningur við það á Alþingi ef hæstv. utanrrh. stæði fyrir þessu, að senda slíka kæru, því þá erum við að vinna gerð þar sem hugur fylgir máli, við erum að gera okkar besta. Við getum auðvitað ekki tryggt framganginn. Við getum ekki tryggt niðurstöðuna. Að sjálfsögðu ekki. Við erum lítið ríki sem er að sýna skilning og samstöðu og siðferðilegan stuðning og á þessu þurfa þau að halda, bræður okkar og systur í Litáen og öðrum Eystrasaltsríkjum.
    Í fjórða lagi vildi ég nefna þá gerð sem fram kom í yfirlýsingu þingflokks sjálfstæðismanna og lýst var hér af formanni Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., en það var að fækka starfsmönnum í sendiráði Sovétríkjanna hér á Íslandi, þ.e. að krefjast þess að einhverjir þeirra færu til síns heima, því hvaða nauðsyn gæti borið til þess að ríki sem hagar sér með þeim hætti sem komið hefur í ljós nú síðustu daga að Sovétríkin gera, hafi allan þann fjölda starfsmanna í sendiráði sínu í þessu litla ríki hér?
    Þessi fjögur atriði virðast vera nokkuð sjálfsögð og ég leyfi mér að halda að um þetta sé í raun og veru víðtæk samstaða hér á Alþingi. Ég legg þann skilning í orð hæstv. utanrrh. og hans ríka vinarhug, sem hann hefur þráfaldlega látið í ljós gagnvart Litáen og Eystrasaltsríkjunum, á þann veg að hann mundi standa að slíkum ákvörðunum ef hann hefur þá ekki þegar gert það. Það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi brugðið við og tekið nýjar ákvarðanir í framhaldi af þeim fréttum sem við heyrðum hér síðdegis í útvarpinu um nýjustu atburði í Litáen.
    Þessi atriði, frú forseti, vildi ég nefna í þessu sambandi um leið og ég hlýt að láta í ljós þá von að það sé ekki öll von úti enn um áframhald á þeirri þróun til lýðræðis og mannréttinda í veröldinni sem við þóttumst sjá þegar Gorbatsjov, sá sem nú hefur tekið þessar hörmulegu ákvarðanir, stóð fyrir því öðrum mönnum fremur að opna þetta lokaða stóra ríki gagnvart öðrum ríkjum í vestri og annars staðar í heiminum og láta í ljós ósk um samstarf og nýja viðleitni til lýðræðis og frelsis fyrir borgarana sem mundi bæta hag þeirra, eitthvað á þann veg sem orðið hefur á Vesturlöndum.
    Við vitum ekki enn þá fyrir víst hvað gerst hefur. Vissulega var það hörmulegt og þyngra en tárum taki að hlusta og horfa á það í sjónvarpinu nú í kvöld að Gorbatsjov, verðlaunahafi friðarverðlauna Nóbels, sæti á blaðamannafundi og verði gerðir Sovéthersins í Litáen. Það var hins vegar svo hörmulegt að það er erfitt að trúa því að þarna hafi maður talað sem var algjörlega sjálfum sér ráðandi. Það hvarflar að manni að sjálfur forseti þessa stóra veldis sé einhvers konar gísl, sé einhvers konar leiksoppur í tafli annarra

manna. Þetta vitum við ekki fyrir víst enn, það bendir því miður of margt til þess að hann beri þarna stærri ábyrgð heldur en við hefðum fyrir nokkrum mánuðum trúað að gæti orðið. Og svo mikið er víst að formlega og eftir öllum þjóða- og ríkjareglum þá ber hann þessa ábyrgð. Það er erfitt að horfast í augu við það en svo er það núna.
    Á hverjum degi verða mikil og örlagarík tíðindi þessa dagana og við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við vitum heldur ekki hvað þarnæsti dagur eða þarnæsta nótt ber í skauti sér annars staðar í veröldinni. Hér hefur í dag verið rætt um hið geigvænlega ástand við Persaflóa og þar gegnir öðru máli um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar að því er mér heyrist. Því miður er þar allverulegur áherslumunur í afstöðu milli hæstv. ráðherra. Mér virtist svo ekki vera í fjölmiðlum í gær en í dag get ég ekki betur heyrt en hæstv. forsrh. tengi miklu nánar heldur en hæstv. utanrrh. vandamál Palestínu og vandamál Kúvæts. Ég hefði haldið að það væri öllum ljóst, eins og hæstv. utanrrh. sagði hér sjálfur í dag, að það var ekki ráðist inn í Kúvæt til þess að bjarga Palestínu. Þar voru aðrar hvatir að baki. Af því einu væri nægilegt að forðast að tengja þau mál saman. Önnur er sú ástæða að í því felst viss blekking að tengja lausn þessara tveggja mála saman. Og ég hef orðið nokkuð undrandi á því að heyra menn tala um það fullum fetum að það sé sjálfsagt að láta að þeirri kröfu Saddams Husseins að standa að tillögu um alþjóðlega ráðstefnu um málefni Palestínu. Þetta hefur verið þeim mun undarlegra sem ég man ekki betur en við höfum margsinnis horft á það og hlustað á það og staðið að því í alþjóðlegum þingmannasamtökum sem fjölmargir þingmenn eru í, hver á sínum vettvangi, að menn séu sammála um það, Evrópuríki séu sammála um það að halda slíka ráðstefnu. Það þarf engan Saddam Hussein til að segja okkur það. Þess vegna er það fráleitt að tengja þessi mál. Tillaga liggur nú þegar fyrir án nokkurra tengsla við Írak og ég veit ekki betur en að Íslendingar hafi á ýmsum vettvangi tekið þátt í að samþykkja slíka tillögu.
    Að því er varðar ofbeldi sem framið hefur verið í Kúvæt, að því er varðar þá saklausu borgara sem þar voru murkaðir niður, að því er varðar virðingu við sjálfsákvörðunarrétt þjóða hvar sem er í heiminum, þá finnst mér það í samræmi við sögu Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, að þeir styðji hverja þá aðgerð sem verður til þess að hrinda ofbeldi af höndum þeirra sem beittir hafa verið því af stærri og voldugri ríkjum, af þeim sem vilja leggja sjálfstæði þeirra og framtíð sem þjóða í rúst. Það atriði kemur ekki lausn annarra mála við.
    Þetta finnst mér eðlilegt að sé alveg greinilegt og því fagna ég að mér hefur oft virst þetta koma fram í máli hæstv. utanrrh. Ég tel það skipta mjög miklu máli því ég veit að hann beitir sér á ráðherrafundum ýmsum sem við eigum aðild að. Og ég hvet til þess að hæstv. utanrrh. haldi nú fast í hönd hæstv. forsrh. þannig að hann villist nú ekki í því máli. Ég efast ekkert um að öll erum við sammála um að stuðla að

því að friður náist sem fyrst bæði í Austurlöndum nær, í Evrópu og hvar annars staðar sem er í heiminum. En við viljum að það verði varanlegur friður og við viljum að mannréttindi og frelsi þjóða séu virt.
    Að þessu öllu saman er vandi að vinna og að þessu öllu saman vinnum við betur og náum öflugri og meiri árangri með því að taka eindregna afstöðu og láta ekki drepa málunum á dreif.
    Frú forseti. Ég hygg að það sé fjöldi manna á mælendaskrá og finnst því ekki sanngjarnt að taka lengri tíma til að ræða um þetta mál. Ég veit það að mér liggur svo sem ekki meira á hjarta heldur en hverjum einasta hv. þm. sem situr hér inni í salnum. En mér liggur mikið á hjarta. Okkur öllum liggur mikið á hjarta og við sameinumst áreiðanlega öll um þá von að bæði þessi mál, hið alvarlega og sorglega mál sem við stöndum andspænis í Litáen og Eystrasaltsríkjunum öðrum e.t.v. alveg næstu daga og hið alvarlega mál sem heimurinn stendur frammi fyrir vegna ástandsins við Persaflóa, að þarna fáist sú viðhlítandi lausn að menn geti kinnroðalaust gengið á vit framtíðarinnar og í góðu og drengilegu samstarfi við önnur ríki sem stefna að því sama marki.