Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þeir atburðir sem við höfum orðið vitni að á alþjóðavettvangi undanfarna sólarhringa og þessa sólarhringa hljóta að kalla á það að við veltum því mjög vandlega fyrir okkur hvar heimurinn eiginlega stendur og hvaða leiðir er hægt að fara til þess að koma í veg fyrir að sviptingar af þessu tagi hafi í för með sér hrikalegri örlög fyrir mannkynið en við höfum séð fram á mjög lengi.
    Ég tel að þeir atburðir sem hafa átt sér stað í Litáen núna síðasta sólarhringinn lýsi fyrst og fremst í raun og veru tilraunum Sovétstjórnarinnar til að brjóta á bak aftur frelsishreyfingu Litáa, lýsi í raun og veru fyrst og fremst fjörbrotum harðstjórnar. Hér sé ekki um það að ræða að Sovétstjórnin, hver svo sem hana skipar núna, hvort sem það er herinn eða aðrir,
geti gert sér í hugarlund að þessar aðgerðir geti brotið á bak aftur þá frelsishreyfingu sem hafin er í Sovétríkjunum yfirleitt. Þvert á móti held ég að það sé nauðsynlegt að við áttum okkur á því að þessar tilraunir sem birtast í skriðdrekum andspænis saklausu fólki eru dæmdar til að mistakast. Það er algerlega fráleitt að Sovétstjórninni, Kremlstjórninni, takist að endurreisa vald sitt í Sovétríkjunum eftir það sem á undan er gengið.
    Það var athyglisvert að um áramótin lagði Morgunblaðið þá spurningu fyrir formenn stjórnmálaflokkanna á Íslandi hvort þeir teldu að Sovétríkin yrðu til í lok ársins 1991 eða byrjun ársins 1992. Það var athyglisvert vegna þess að þessi spurning er lýsandi um stöðuna í dag. Það sem er að gerast í Eystrasaltslöndunum þessa dagana er undirstrikun á því að það kerfi sem byggt hefur verið upp í Sovétríkjunum á undanförnum árum er að liðast í sundur. Við verðum núna vitni að fjörbrotunum.
    Það er einkar fróðlegt, virðulegur forseti, að verða vitni að því hér á Alþingi Íslendinga að allir þingmenn að mér virðist ná samstöðu um megináherslur varðandi þessi mál, bæði í Eystrasaltslöndunum en það á einnig í rauninni við um þá atburði sem eru að ganga yfir í Persaflóa. Þessi víðtæka samstaða um mikilvægar ályktanir í utanríkismálum er í raun og veru einkar umhugsunarverð eftir þær deilur sem hafa átt sér stað hér í þessari virðulegu stofnun um áratuga skeið um utanríkismál. Og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það geti verið svo að þessi stofnun, Alþingi Íslendinga, gæti á grundvelli þeirrar afstöðu, sem nú er að verða til og hefur orðið til á undanförnum árum, náð samstöðu um utanríkisstefnu með skýrari hætti en nokkurn tímann hefur áður verið. Ég tel í raun og veru að í ljósi þess hversu miklar breytingar eru að eiga sér stað í heiminum hljótum við að velta því mjög alvarlega fyrir okkur hvort hér verði ekki til á næstu árum og jafnvel fyrr en seinna nýtt alþjóðlegt öryggiskerfi sem taki í raun og veru á mörgum þáttum þessara mála, m.a. þeim sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gerði að umtalsefni hér áðan og snúa að vopnasölu, efnavopnum, sýklavopnum og slíku.

    Mér sýnist í raun og veru að margt geti bent til þess að svo verði. Að hér á Alþingi Íslendinga geti náðst víðtæk samstaða um nýtt alþjóðlegt öryggiskerfi og aðild okkar að því, hvernig Ísland tengdist slíku kerfi. Eftir reynslu okkar bæði í landhelgisstríðinu og núna undanfarna mánuði, þar sem afstaða ríkisstjórnar Íslands og Alþingis varðandi Eystrasaltsmálin hefur vakið sérstaka athygli, þá liggur það fyrir að Íslendingar hafa getað náð eyrum í raun og veru heimsins alls. Það er því liðin tíð að við þurfum í þessu efni að hefja ræður okkar á því að við séum fáir og smáir. Við erum gild rödd sem getur heyrst og sem er tekið mark á. Ég held þess vegna að á grundvelli þeirrar umræðu sem fram hefur farið, m.a. hér í dag og reyndar oft áður á undanförnum árum, eigum við að geta velt því fyrir okkur hvort við stöndum á þeim tímamótum að við getum náð samstöðu um utanríkismálastefnu okkar með meira afgerandi hætti en verið hefur, m.a. um kröfuna um það að til verði nýtt alþjóðlegt öryggiskerfi.
    Hér í þessum umræðum hafa verið nefndar fjöldamargar hugmyndir varðandi hugsanleg viðbrögð við því sem hefur gerst í Eystrasaltslöndunum. Um það mætti margt segja. Ég tel að þær hugmyndir séu í raun og veru allar þannig að þær beri að ræða af fyllstu alvöru. Ég vil engri þeirra vísa á bug fyrir mitt leyti á þessu stigi málsins. Og ég tel að ríkisstjórn Íslands hljóti í framhaldi af niðurstöðu mála hér í kvöld að fjalla um það hver eiga að verða næstu skref af okkar hálfu. Hún eigi að gæta þess að halda þannig á málum að um það sé sem allra best samstaða á Alþingi Íslendinga með góðu samráði við utanrmn. svo sem skylda ber til samkvæmt þingsköpum og lögum landsins.
    En það er alveg ljóst að þó við afgreiðum málin hér nú í kvöld þá hlýtur Alþingi að vera áfram á vakt, ríkisstjórnin að vera áfram á vakt og allar þær tillögur sem nefndar hafa verið hér úr þessum ræðustól í dag, m.a. úr samþykktum þingflokks Alþb. og fleiri aðila, hljóta að verða til umræðu áfram og á þeim verður að taka efnislega.