Kortlagning gróðurlendis Íslands
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að leyfa mér að þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir áhuga hans og mikið starf að landgræðslumálum. Væri betur að fleiri þingmenn hefðu þennan brennandi áhuga á landgræðslu sem kemur fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni.
    Þegar ég tók við embætti umhverfisráðherra og verkefni ráðuneytisins voru ljós eftir að frv. þar að lútandi varð að lögum sl. vor færðust Landmælingar Íslands til umhvrn. Eitt mitt fyrsta verkefni var að kalla á forstöðumann Landmælinganna svo og reyndar fleiri þá aðila sem koma nálægt kortagerð hér í landinu og hlusta á þeirra skýringu á því hvernig þau mál stæðu. Sérstaklega hafði ég þó áhuga á því að fræðast um það hvernig væri ástatt með gerð gróðurkorta fyrir landið og hafði því einnig samband við Ingva Þorsteinsson náttúrufræðing sem hefur manna mest unnið að gerð gróðurkorta fyrir Ísland á undanförnum árum og áratugum.
    Okkur kom saman um að kortamál almennt væru í miklum ólestri fyrir landið í heild sinni og það væri nauðsynlegt að taka á því máli og koma þeim til betri vegar. Í leiðinni yrði einnig hugað að því með hvaða hætti mætti flýta gerð gróðurkorta fyrir allt landið og sömuleiðis gerð jarðvegskorta, sem er ekki síður þýðingarmikið, en það er kannski enn þá meiri nauðsyn að hafa tiltækar góðar og nákvæmar upplýsingar um jarðveginn því hann er auðvitað forsenda þess gróðurs sem á jarðveginum hvílir.
    Það varð til þess að snemma sl. haust var skipuð nefnd til þess að koma með tillögur og huga að ástandi kortagerðar í landinu. Þá nefnd skipa forstöðumaður Landmælinga Íslands, forstöðumaður Skipulags ríkisins, Gylfi Már Guðbergsson, prófessor í landfræði, frá Háskóla Íslands, Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur og Jón Gunnar Ottósson deildarsérfræðingur í umhvrn.
    Þessi nefnd fékk það verkefni að taka út stöðu kortamála á Íslandi og koma með tillögur um það hvernig mætti koma því til leiðar að kortamál okkar færðust til betri vegar. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að við þurfum að taka upp nýja tækni og í raun og veru að gjörbylta undirstöðuatriðum í kortagerð á landinu í heild sinni.
    Við byggjum enn þann dag í dag að verulegu leyti á gömlu herforingjaráðskortunum dönsku en ný tækni er komin til sögunnar, svokölluð stafræn kortagerð, þ.e. kort sem byggja á stafrænum grunni og eru að verulegu leyti unnin í tölvu og byggja þá á tölvutækum upplýsingum ef menn vilja heldur orða það þannig.
    Það er hugmynd okkar og tillaga nefndarinnar að gera fullkomin grunnkort af öllu landinu í mælikvarða 1:25.000 sem byggjast á stafrænum upplýsingum. Síðan í framhaldi af því verði hægt að kalla fram hvers kyns sérkort sem byggi á þessum grunnkortum, m.a. jarðvegskort, gróðurkort og
byggðakort og skipulagskort til þess að þjóna hinum ýmsu verkefnum sem þarf að vinna sem byggja á fullkomnum grunnkortum. Þetta er geysilega viðamikið og

stórt verkefni og mun taka langan tíma að ljúka því og það mun kosta mikla fjármuni.
    Gróðurkortin, eins og þau hafa verið, hafa byggt á gamaldags aðferðum þannig að þau eru í raun og veru byggð á gömlu herforingjaráðskortunum og upplýsingarnar hafa verið handteiknaðar inn á kortagrunninn, sem er herforingjaráðsgrunnurinn, en gróðurkort í 1:25.000 eru nú orðin til fyrir verulegan hluta landsins. En þau eru með þeim galla að það er erfitt að endurnýja þau og endurskoða vegna þess að þau eru í raun byggð á úreltri aðferð, þ.e. þau hafa ekki enn þá verið færð yfir í stafrænt upplýsingakerfi sem er framtíðin í þessum efnum.
    Það er annað sem er líka mikilvægt og það er að laða fram samstarf milli allra þeirra stofnana sem vinna að þessum málum, en það eru ótrúlega margar stofnanir á Íslandi sem koma nálægt kortagerð. Nægir þar t.d. að nefna Vita - og hafnamálastofnunina, Landsvirkjun, Orkustofnun og fjölda annarra stofnana sem allar hafa í raun með kortagerð að gera. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessar stofnanir hafi nána samvinnu þannig að ekki sé um tvíverknað að ræða og fjármunirnir nýtist sem best í þessu skyni fyrir þjóðina í heild sinni. Það er m.a. hlutverk þessarar nefndar sem ég hef verið að segja hér frá að reyna að treysta þetta samstarf og koma því til leiðar að með samstilltu átaki verði unnið markvisst og skipulega að því að vinna upp þennan stafræna upplýsingagrunn og fá kortagerðina inn í nútímafarveg.
    Þá komum við að fjarkönnunarhugmyndum og notkun gervitungla í þessu skyni sem er mjög mikilvægt í sambandi við alla kortagerð eins og þróunin hefur verið. Það er þó mjög erfitt að nýta gervitunglamyndir og fjarkönnunarupplýsingar enn sem komið er ef um er að ræða mjög nákvæma greiningu. T.d. er vart hægt að hugsa sér að nýta með auðveldum hætti gervitunglamyndir til gerðar korta í svo stórum mælikvarða sem 1:25.000, þó svo að það væri auðvelt að vinna kort í mun stærri mælikvarða fyrir landið í heild sinni byggt á gervitunglamyndun. Það er enn þá mjög erfitt að vera með nákvæmari greiningu á upplýsingunum en sem nemur reit sem er u.þ.b. 75 m á kant en það þykir mönnum ekki vera nógu nákvæm greining ef um á að vera að ræða fullkomnar upplýsingar um ástand gróðurs og jarðvegs.
    Það eru ótal aðilar hér á landi sem hafa fylgst með þróun fjarkönnunar og náð mjög langt á þessu sviði. Nægir þar t.d. að nefna Merkjafræðistofnun Háskóla Íslands sem starfar sem undirdeild Verkfræðistofnunar, en þar hefur verið unnið að þróunarstarfi á þessum vettvangi og fylgst mjög grannt með þeirri þróun sem á sér stað í heiminum á fjarkönnun og notkun upplýsinga frá gervitunglum gegnum gervitunglamyndir.
    Til þess að gera langt mál stutt, þá vænti ég þess að niðurstöður þeirrar nefndar sem ég skipaði sl. haust muni liggja fyrir nú í þessum mánuði og hugmyndin er sú að leggja fyrir Alþingi þáltill. um að ljúka því verkefni að gera fullkomin grunnkort í 1:25.000 byggð á stafrænum upplýsingum fyrir landið í heild sinni og

í leiðinni leggja grundvöll að gerð fullkominna gróðurkorta í sama mælikvarða sem einnig verði byggð á stafrænum upplýsingum og sömuleiðis gerð jarðvegskorta. Ég geri því ráð fyrir því að við munum fá tækifæri til þess að skila umsögn um þessa þáltill. sem hér er flutt og reyna að fella efni hennar inn í þá miklu heildarvinnu sem er fram undan og ég er ekki í nokkrum vafa um það að þar eigum við hv. þm. Egill Jónsson og sá sem hér stendur samleið því að það er okkur báðum áhugamál að reyna að koma þessum málum til betri vegar. Og ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. sagði að það er mjög brýnt að upplýsa þjóðina um þessi mál og reka dálítinn áróður fyrir landgræðslumálum meðal þjóðarinnar og sérstaklega kannski meðal ungu kynslóðarinnar.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, kannski setja aðeins spurningarmerki við vísun til atvmn. Ég hefði talið að e.t.v. ætti þetta mál heima hjá allshn. en ég skal viðurkenna það fúslega að ég er ekki mjög fróður um þingsköp hvað þetta atriði varðar.