Matvælaaðstoð við Sovétríkin
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Mikið vatn hefur nú runnið til sjávar frá því að þessi till. til þál. var lögð fram um matvælaaðstoð við Sovétríkin. Þannig hefur fylgt þessari þáltill. grg. sem á margan hátt er orðin allverulega úrelt, svo ekki sé meira sagt. Þar segir m.a. að stefna Gorbatsjovs forseta og stjórnar hans byggist á því að gefa þjóðum Sovétríkjanna sjálfsvirðingu, sem byggist á frelsi, velsæld og samvinnu við vestræn ríki. Þetta virkar í dag sem hin örgustu öfugmæli. Og þar sem þetta voru á sínum tíma meðal forsendna þess að við stæðum að því að veita matvælaaðstoð til Sovétríkjanna og þessar forsendur eru meira en hrundar, þá segir sig sjálft að það verður vart við þessa till. staðið.
    Auðvitað var fyllilega ástæða til þess á þeim tíma að gera grein fyrir þessari tillögu á þennan hátt. Pólitík Gorbatsjovs og stjórnar hans kom beinlínis af stað þeirri lýðræðisþróun í Austur-Evrópu sem auðvitað var óhugsandi án perestrojku og forustu Gorbatsjovs í þessum heimshluta. Hin stórkostlega þróun sem varð í Þýskalandi, sem leiddi til sameiningar landsins, þar sem í fyrirrúmi var stórhugur og friðarvilji austur - evrópskra stjórnmálamanna. Það voru alveg greinilegar framfarir sem áttu sér stað í afvopnunarmálum og þar kom að undirritun samninga í París um frið, lýðræði og virðingu fyrir mannhelginni. Þetta voru slíkir atburðir, sem aðrir eins höfðu ekki gerst í Evrópu í óralangan tíma og sem vöktu vonir um frið og samvinnu og eðlileg samskipti manna í milli, og þegar harðnaði á dalnum í efnahagsmálum í Sovétríkjunum þá var ekki nema von að menn víðs vegar um hinn frjálsa heim vildu bregðast við og koma til aðstoðar.
    Ástandinu í efnahagsmálum Austur-Evrópu og Sovétríkjunum kannski sérstaklega var vel lýst í grein eftir Jón Sigurðsson í Morgunblaðinu frá 14. des. sl. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Efnahagur þessara landa er að hruni kominn vegna þess að sú víðtæka samvinna og samstilling í framleiðslu og dreifingu sem nauðsynleg er hagkerfi sem byggir á verkaskiptingu og sérhæfingu sprettur ekki af sjálfu sér. Annaðhvort þarf valdstjórn til að knýja hana fram með góðu eða illu eða hún er löðuð fram af hvatningum verðkerfis í frjálsum markaðsbúskap. Hrunið verður ef hagkerfið er lengi á milli vita, á gráu svæði, þar sem hvorki vald né verð ræður för.``
    Og svipað ástand var vissulega í Þýskalandi eftir stríðið, áður en endurreisnarstarfið hófst.
    En það var ekki einungis efnahagskerfið sem var að hruni komið í Sovétríkjunum, heldur var gífurleg pólitísk spenna þar manna á meðal. Þar virtust kristallast hópar umbótasinna, perestrojku - manna sem voru beinir stuðningsmenn Gorbatsjovs og hinna gömlu valdhafa, gömlu íhaldsmannanna. Það gerðust margir ótrúverðugir hlutir í Austur-Evrópu t.d. þar sem gömlu kommúnistaflokkarnir kölluðu sig allt í einu jafnaðarflokka, sem var ákaflega ótrúverðugt og hefur sennilega verið það versta sem jafnaðarmennskunni hefur verið gert á síðari árum, þegar gömlu, þekktu valdaandlitin birtust og kölluðu sig allt í einu jafnaðarmenn. Því gat auðvitað enginn trúað að nokkur alvara væri þar að baki. En það gerðist auðvitað víða. Meira að segja hefur sá siður borist hingað til lands.
    En það gerðust líka stærri hlutir sem vöktu athygli manna á þessari þróun. Sjévardnadze varð að segja af sér. Prunskiene, sem menn bundu miklar vonir við, sagði af sér. Íhaldsmenn virtust herða tökin þannig að andrúmsloftið varð lævi blandið og framfarir virtust staðna.
    Í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 13. des., var vitnað í ræðu sem yfirmaður KGB hélt, en þar sagði hann, með leyfi forseta: ,,að sveitir hans mundu gera allt sem þær gætu til að koma í veg fyrir að róttækir umbótasinnar kæmust til valda og stuðluðu að sundrungu Sovétríkjanna. Hann sagði að starfsmenn KGB litu á það sem skyldu sína að berjast gegn afskiptum erlendra sérsveita og þeirra erlendu samtaka sem með stuðningi þeirra hafa háð leynileg stríð gegn sovéska ríkinu í áratugi.`` Við þessu voru viðbrögð frá Vasselí Sjaknovskí, sem er róttækur umbótasinni í stjórn Moskvuborgar, en hann kvaðst dolfallinn yfir ávarpi Krútsjkovs, sem er yfirmaður KGB. Hann sagði, með leyfi forseta: ,,Þetta er einfaldlega afturhvarf til gömlu aðferðanna sem margir hafa næstum gleymt. Þeir eru að leita að óvinum heima og erlendis til að kenna þeim um mistök okkar.``
    Þarna mátti strax greina merki um að váleg tíðindi væru að gerast. Þeim mun mikilvægara var fyrir alla lýðræðissinna um hinn vestræna heim að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa Gorbatsjov, til að hjálpa hans pólitík til að komast áfram til að varðveita frið, styðja við lýðræði og markaðsbúskap og um leið að koma í veg fyrir hungursneyð í Sovétríkjunum.
    Fjöldamargar þjóðir brugðust líka við og veittu Sovétríkjunum gífurlega matvæla- og efnahagsaðstoð. Bandaríkin afnámu alls konar höft sem verið höfðu á útflutningi vara til Sovétríkjanna. Efnahagsbandalag Evrópu og Þjóðverjar sérstaklega hafa veitt stórkostlega aðstoð til Sovétríkjanna.
    Það má e.t.v. segja að ástæðurnar hafi ekki alltaf verið af óeigingjörnum toga. Þannig segir í Berlinske Tidende þann 13. des. að hjálp Efnahagsbandalags Evrópu sé allt eins hjálp til sjálfshjálpar þeirra sjálfra, þ.e. að minnkun á matvælabirgðum Evrópu komi tvímælalaust fyrst og fremst Efnahagsbandalaginu til góða.
    Hjálp eða framlag Íslendinga skipti auðvitað ekki sköpum í sjálfu sér. En með því værum við að sýna vinarhug til þjóða sem við höfum haft mikil menningarleg og viðskiptaleg samskipti við í gegnum tíðina. Því okkur virtist sem þessar þjóðir væru að berjast fyrir því sama og við Íslendingar höfum viljað standa vörð um með veru okkar í NATO, en það er fullveldi landsins og sjálfstæði ásamt frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Þannig má segja að við hefðum viljað bregðast við, sýna merki góðs vilja, aðstoða jákvæða pólitík Gorbatsjovs og hjálpa fólki í hungursneyð.

    En auðvitað má líka finna einhverjar svipaðar aðstæður hjá okkur eins og hjá Efnahagsbandalagi Evrópu, að hjálp okkar hefði líka orðið að vissu leyti hjálp til sjálfshjálpar.
    Nú er það svo að við eigum miklu meira en nóg af dilkakjöti alls konar, við eigum miklu meira af slíkri vöru heldur en kemur fram í skýrslum. Við vitum að dilkakjöt er framleitt utan kvóta svo að segja og gengur kaupum og sölum þar sem þau viðskipti eru hreinlega ekki skráð. En auðvitað er skráð framleiðsla er líka miklu meiri en nóg. Við framleiðum eitthvað í kringum 12 þús. tonn á ári og neyslan er eitthvað í kringum 7 þús. tonn. Minnkun á þeim matvælabirgðum hefði komið okkur mjög til góða. Við sáum þegar við sendum dilkakjöt m.a. til Jórdaníu til hjálpar hungruðu fólki þar að það skapaði mikla og góða vinnu við að pakka þessari vöru og koma henni til skila. Eins gæti það gerst í sambandi við matvælaaðstoð við Sovétríkin að það skapaði góða vinnu fyrir fólk út um alla landsbyggð að koma þessari vöru frá okkur og það minnkaði spennu framboðs á þeim markaði. Það væri miklu nær að landbrh. okkar liti sér nær hvað er að gerast á þessum markaði, bæði skráð og óskráð viðskipti, heldur en að æsa sig ófrýnilega gegn samstarfsmönnum í ríkisstjórn þó að örfá tonn af mjólkurvörum séu flutt inn til landsins og viðhafa við það tækifæri alls óviðeigandi ávirðingar.
    En nú hafa þeir atburðir gerst í Sovétríkjunum að stalínisminn virðist vera að ná yfirhöndinni. Við sáum í Litáen fyrir nokkrum dögum aðferðir sem minna á Austur - Berlín 1953, sem minna á Búdapest 1956, sem minna á Prag 1968. Þetta eru aðferðir sem maður svo sannarlega hélt að heyrðu fortíðinni til og átti alls ekki von á að gætu gerst undir stjórn þeirra manna sem nú fara með völdin í Sovétríkjunum. En þá er það auðvitað að maður spyr sig: Hverjir fara raunverulega með völdin þar að svona aðferðum er beitt fram og aftur? Manni hnykkir við. Þetta er alls ekki það sem maður átti von á frá hendi einmitt þessara manna sem höfðu komið slíkum vonum af stað um allan heim að nú heyrði loksins til friðar, að þeir væru menn friðarins, lýðræðisins og virðingarinnar fyrir mannhelginni. Þannig að nákvæmlega eins og ég hafði í huga að við sýndum okkar góða hug með því að leggja til matvælaaðstoð við Sovétríkin, þá vil ég núna að við setjum þess merki að svona nokkuð er eitthvað sem við viljum ekki. Við viljum ekki stuðla að hjálp við stalínista, við getum ekki með því sýnt vinarhug þeim mönnum sem beita slíkum aðferðum.
    Ég vil því, virðulegi forseti, leggja til að þetta mál fái ekki þinglega meðferð. Þessu máli verði ekki vísað til nefndar. Þetta mál verði tekið út af dagskrá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.