Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Það féll niður hjá mér áðan að ég ætlaði einmitt að minnast á það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson var að tala um, þ.e. síldina. Ég held að við verðum að spyrja okkur og að hæstv. sjútvrh. verði að færa rök fyrir því hvað eigi að gera með svona stóran síldarstofn. Hvað á að gera við þann síldarlager hér í sjónum í kringum landið einmitt þegar fæðukerfið er veikt og hvert á að selja þessa síld?
    Það er mikið álag á fæðukerfinu í hafinu og þar af leiðandi væri að mínu mati rétt að láta veiða núna einmitt verulegt magn af síld. Nákvæmlega hvað mikið er ég nú ekki með hér, en ég tel þetta vera einmitt einn af þeim möguleikum sem væri miklu réttara að huga að heldur en að færa kvóta úr þessum Hagræðingarsjóði eins og hæstv. sjútvrh. ætlar að fara að gera. Það væri miklu nær að leyfa skipunum að veiða eitthvað af síldarstofninum. Ég tel bara að það sé að öllu leyti gott.
    Það er ákveðin mótsögn líka í því við frv. um stjórn fiskveiða og Hagræðingarsjóð að fara nú allt í einu í þveröfuga átt við eigin stefnu, fara að úthluta þessu í enn þá fleiri áttir, tvístra þessu meira en orðið er, og er nú ekki mikil hagræðing fólgin í því held ég. Því að dýrt verður nú að starta þorskveiði loðnuveiðiskips með öllum þeim byltingum og breytingum sem þarf að gera á viðkomandi skipi því það stendur að ekki megi færa kvótann af skipinu. Það þýðir að útgerðin hefur væntanlega ekkert út úr þessu og spurning hvort lagt verður í það.
    En það er líka enn ein leið til og það er að veita hreinlega styrk til þessara fiskiskipa til að nýta vannýtta fiskstofna, svo sem kolmunna, gulllax og fleiri tegundir, eða reyna djúphafsrækjuveiðar t.d. fyrir Austurlandi. Þarna eru möguleikar sem ekkert er verið að ræða. Það er eins og annað komist aldrei að hjá mönnum. Þeir eru fastir inni í einhverjum hring og komast ekki út úr hugsunarhættinum inni í þessu kvótakerfi. Þar á alltaf að stjórna og herða og stjórna meira, skammta meira, deila og drottna og komast ekki út úr þessum hugsunarhætti. Menn verða að komast alla vega 100 mílur frá landi, þó að maður fari nú ekki fram á meira, í hugsunarhætti. Þar eru til fiskstofnar sem eru vannýttir. Því skyldum við ekki fórna peningum í það að reyna að nýta þessa stofna alveg eins og við fórnum peningum í rannsóknir á vatnasvæðum hálendisins eins og ég sagði hér áðan? Þegar verið er að ræða þessa hluti heyrist svo oft: Ómögulegt, ómögulegt. Fólk sem vill ekki bjarga sér er ómögulegt fólk.
    Hæstv. forseti. Ég vildi bara koma þessu hér á framfæri.