Persaflóadeilan
Mánudaginn 28. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get í raun verið stuttorður, ég er sammála í flestum eða öllum atriðum skilgreiningu hv. fyrirspyrjanda á Atlantshafssamningnum og möguleikum á því að við Íslendingar drögumst þar inn í átök. Það kom reyndar greinilega fram hjá hæstv. utanrrh. að það getur ekki gerst sjálfkrafa.
    Báðir hv. ræðumenn hafa rakið 5. gr. samningsins og skal ég ekki gera það á ný. Ég vek bara athygli á því sem kom fram þegar greinin er lesið að það er samkvæmt ákvörðun hverrar þjóðar í hvaða mæli viðkomandi þjóð lætur í té nauðsynlega aðstoð til að standa við 5. gr. samningsins. Og ég vek athygli á því í því sambandi að nokkur sérstaða gildir um Ísland. Ísland hefur gert sérstakan samning við Bandaríkin þar sem tekið er fram í 1. gr. hans að Ísland er skuldbundið til að láta Bandaríkjamönnum í té nauðsynlega aðstöðu hér á landi til þess að Bandaríkin geti staðið við sína skyldu um varnir Íslands og varnir svæðis Atlantshafsbandalagsins. Íslandi er ætlað að láta í té þessa aðstöðu ef til átaka kemur. Sú aðstaða er þegar í té látin í raun með Keflavíkurflugvelli og engin beiðni hefur komið fram frá Bandaríkjamönnum um frekari aðstoð hér á landi. Þó ég taki undir það sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um okkar skyldu samkvæmt samningnum þá gildir þarna sérstakt ákvæði um Ísland. Við erum á engan hátt skuldbundin til þess að skera hér upp herör og taka beinan annan þátt í þeim átökum sem kunna að verða til að fullnægja ákvæðum Atlantshafssamningsins.
    Um þessi átök við Persaflóa og hugsanleg stríðsátök við Tyrkland sýnist mér í raun hljóta að gilda nokkuð sérstakt mat. Eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. eru Tyrkir að verða við beiðni Sameinuðu þjóðanna um að veita aðstoð til þess að framkvæma ályktun Sameinuðu þjóðanna. Ef á Tyrkland verður ráðist þegar Tyrkland gegnir þessari skyldu sinni, getum við sagt, sem aðili Sameinuðu þjóðanna, hlýtur að gilda um það nokkuð annað mál en ef ráðist er á eitthvert ríki Atlantshafsbandalagsins af allt öðru og óskyldu tilefni. Þetta mál er raunar þegar í höndum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eins og gert er ráð fyrir í Atlantshafssamningnum að skuli vera ef um árás á eitt ríki bandalagsins er að ræða. En um þetta er hins vegar kannski erfitt að velta vöngum á þessu stigi. Hins vegar sýnist mér að það atriði sem ég hef nefnt hlyti að verða til athugunar hjá Atlantshafsbandalaginu ef málið kemur upp sem árás á Tyrkland.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það hvort unnt hefði verið að koma í veg fyrir þessi átök við Persaflóa. Ég hef út af fyrir sig oft sagt að mér sýnist að það hefði þurft að skoða samninga á breiðari grundvelli, m.a. með lausn á Palestínumálunum í huga. Hins vegar er þetta orðin staðreynd, átökin eru orðin staðreynd og ég treysti mér ekki til að taka þátt í vangaveltum hv. þm. um þann mikla skaða sem af þeim getur orðið. Ég efa ekki að líffræðingurinn fer þar með rétt mál. Hins vegar er fjölmörgum öðrum spurningum í raun ósvarað í þessu sambandi. Menn

geta líka spurt sjálfa sig: Á að láta undan ofbeldinu? Á að láta undan lögbrjótunum? Hvað hefði tekið við næst? Hvar ber lögbrjóturinn niður næst, ofbeldismaðurinn? Og hve lengi er hægt að þola slíkt?
    Ég held að enginn geti svarað þessum spurningum hér. Við höfum dæmin fyrir okkur, við höfum Hitler gamla fyrir okkur, hvernig þar hélt áfram stig af stigi og leiddi til heimsstyrjaldar sem margir fullyrða að hefði orðið miklu miklu minni ef stöðvuð hefði verið fyrr. Ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til þessa.
    Hins vegar tel ég hárrétt það sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. og full samstaða er um innan ríkisstjórnarinnar, að utanrrh. beiti sér, eins og hann frekast má, til þess að undirbúa að koma á friði á þessu svæði. Þar hefur hæstv. utanrrh. beitt sér innan Norðurlandanna. Skilaboðum hefur verið komið á framfæri við aðalritara Sameinuðu þjóðanna og það er einlæg von mín að þessum átökum þarna ljúki fljótt og unnt verði þá að hefjast handa um að koma á, við skulum segja varanlegum friði þó að varanlegt sé kannski einum of víðtækt hugtak, en koma á friði á þessu svæði og leysa þau fjölmörgu mál sem annars munu verða þarna til stöðugra vandræða. Ég tel að þar eigum við Íslendingar ekki að láta deigan síga heldur að halda áfram þeirri viðleitni sem við höfum þegar hafið.