Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár sem nú er flutt í fjórða sinn, nokkuð breytt, þótt megintilgangurinn að baki frv. sé sá sami. Frá upphafi hef ég látið frv. heita ,,Frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár`` og held því nafni enn þó segja mætti að frv. ætti að heita: Frumvarp til laga um afnám lánskjaravísitölu.
    Í 1. gr. frv. segir: ,,Frá og með 1. júlí 1991 er óheimilt að verðtryggja fjárskuldbindingar með lánskjaravísitölu, þar með talin inn - og útlán í bankakerfinu, skuldabréf, verðbréf o.s.frv.``
    Í 2. gr. frv. segir: ,,Heimilt skal þó vera að verðtryggja spariskírteini ríkissjóðs enda sé þá miðað við vísitölu vöru og þjónustu.``
    Í 3. gr. frv. segir: ,,Við gildistöku þessara laga falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34. -- 47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.``
    Í 5. gr. frv. segir: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1991.``
    Ég leyfi mér þessu næst að vitna í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verðtrygging fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu hefur þegar gengið sér til húðar enda komið á daginn að atvinnuvegirnir þola hana ekki. Greiðslustöðvanir og gjaldþrot fyrirtækja, raunar einnig heimila, hafa farið hraðvaxandi. Áframhaldandi hrun og atvinnuleysi er fram undan ef ekki er gripið í taumana.
    Fyrirheit, sem gefin voru með verðtryggingu fjárskuldbindinga, um samdrátt útlána, minni erlendar lántökur og aukinn sparnað, hafa öll brugðist eins og hagskýrslur bera með sér.
    Lánskjaravísitala er meiri verðbólguhvati en aðrar vísitölur þar sem byggingarkostnaður er innifalinn, en hann er háður mestum sveiflum í hagkerfinu. Vinnulaun eru og reiknuð í vísitölunni en ein afleiðing þess er sú að sérhver kjarabót launþega er jafnharðan af þeim tekin með sjálfkrafa hækkun skulda af íbúðalánum. Kaupgjaldsvísitalan hefur þegar verið afnumin með lögum og því ekki siðferðilega stætt á því að halda lánskjaravísitölunni. Afnám hinnar síðarnefndu var þess utan loforð ríkisstjórnar sem ekki er lengur unnt að víkjast undan, enda öll sett skilyrði fyrir hendi.``
    Athugasemdir við 1. gr.:
    ,,Þegar lög þessi öðlast gildi er gert ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar innlánsstofnanir, sem veita viðtöku fé til ávöxtunar, taki upp þá reglu, sem viðgengst í öðrum vestrænum ríkjum, að greiða vaxtaauka á bundin spariinnlán til eins árs eða lengur ef gildandi vextir eru lægri en nemur verðbólgu. Útgjöld vegna vaxtaaukans eru þá fjármögnuð með fé sem inn kemur við vaxtalækkun á hlaupareikningum, ávísanareikningum og almennum sparisjóðsbókum er notast sem viðskiptareikningar. Talið er af sérfræðingum í banka- og peningamálum að 90 -- 95% rekstrarkostnaðar í viðskiptabanka fari í að þjónusta þessa

reikninga og fyrir þá þjónustu ber eigendum þeirra að greiða með lágum vöxtum af innlánum.``
    Athugasemdir við 2. gr.:
    ,,Verðtryggð ríkisskuldabréf voru heimiluð á dögum viðreisnarstjórnarinnar og gáfust á ýmsan hátt vel. Bankar geta keypt þau og notað sem baktryggingu gegn innlánum með skilyrðum um vaxtaauka. Þau eru og önnur sparnaðarleið fyrir hinn almenna borgara en fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð til þess að greiða niður erlendar skuldir sem nú þegar krefjast of þungrar árlegrar greiðslu afborgana og vaxta.
    Í vestrænum ríkjum, sem verðtryggja fjárskuldbindingar að einhverju leyti, er notast við vísitölu neysluvöruverðs til viðmiðunar. Hún samsvarar vísitölu vöru og þjónustu sem Hagstofa Íslands reiknar mánaðarlega. Lánskjaravísitalan er óhentug, varasöm og hættulegur verðbólguvaldur.``
    Á síðasta degi þingsins fyrir jól fór fram umræða utan dagskrár um vaxtamál hér á Alþingi. Sökum tímaskorts komust færri að en vildu. Henni hefur ekki verið fram haldið en ýmislegt sem þar kom fram vil ég draga fram sem rök með mínu frv.
    Í umræðunni var vitnað í nýlega skýrslu Seðlabankans sem gefur í skyn að breytt vaxtastefna á undanförnum árum hafi örvað innlendan sparnað og dregið úr eftirspurn eftir lánum. En hagskýrslur þessa sama banka segja annað. Almenn verðtrygging inn - og útlána samkvæmt Ólafslögum tók gildi frá ársbyrjun 1982. Lánskjaravísitalan tók þá viðbragð upp á við og jókst um liðlega 60% það ár. Hún fór upp í liðlega 74% árið eftir, árið 1983. Við þennan verðbótaþátt vaxta samkvæmt vísitölunni bættust svo raunvextir, 4% 1983 og 7% 1987.
    Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra, en þeir eru nú hér ekki viðstaddir en þá um leið raunar þingheim: Dró úr útlánum bankakerfisins við þessa svimháu vexti? Nei, þvert á móti. Þau jukust samkvæmt Hagtölum Seðlabankans um meira en 300% á tveim árum. Meðaltalsvextir á öllu tímabilinu 1982 -- 1989 voru um 40% en á sama tímabili nítjánfölduðust útlánin. Þessi útkoma stafar af því að vaxtahækkanir eru óvirkar þegar jafnvægisleysi ríkir í peningamálum og ríkisfjármálum, enda jókst peningamagn langt fram úr þjóðarframleiðslu að verðgildi. Erlend lán voru tekin og ríkissjóður lengstum rekinn með halla. Þetta ætti hver einasti alþingismaður og ráðherra að vita, en margir halda áfram að hamra á vitleysunni.
    Það er hastarlegt að Seðlabankinn og talsmaður hans, bankamálaráðherra, sem eiga að veita leiðsögn, skuli gefa villandi upplýsingar sem stangast á við þeirra eigin hagtölur og að þeir skuli heldur ekki kunna skil á sumum staðreyndum fjármálalífsins.
    Margir hafa bent á að tvær meginástæður séu fyrir hækkun raunvaxta, og þar á meðal sjálfur Seðlabankinn, þær eru halli ríkissjóðs og útgáfa húsbréfa. Þetta mun rétt vera. En á ekki Seðlabankinn að sjá um samkvæmt lögum að raunvextir séu ekki hærri en í helstu viðskiptalöndunum?
    En ríkið stendur ekki í stöðu sinni, engu fremur en Seðlabankinn. Hæstv. fjmrh. hefur misst marks. Forsrh. hefur lög að mæla þegar hann segir að bankaráðsmenn séu ekki vandanum vaxnir. Ráðherrann viðurkennir þó auðmjúklega að hafa gert rangt, þó í góðri trú hafi verið, þegar hann féllst á 2% hækkun 1984.
    Enn alvarlegri mistök hans voru þau að fella niður kaupgjaldsvísitölu en ekki lánskjaravísitölu, svo og að taka kaupgjald upp í lánskjaravísitöluna. Af því leiðir að sérhver kjarabót launþega er jafnharðan af þeim tekin með hækkun íbúðalána af völdum aukins verðbótaþáttar vaxta.
    En hvað um sparnaðinn? Jókst hann á hávaxtaskeiðinu sem ég nefndi, 1982 -- 1989? Nei. Þrátt fyrir hæstu innlánsvexti sem þekkst hafa hér á landi okkar jókst sparnaður minna en sem nemur viðbættum vöxtum. Með öðrum orðum minnkaði grunnsparnaður, fé sem fólk leggur til hliðar af tekjum sínum inn á bundna sparifjárbók.
    Þegar bankamenn segja að sparnaður hafi aukist eiga þeir við innlán sem ekki teljast til sparnaðar, þ.e. tékkareikninga, t.d. svonefnda skiptikjarareikninga eða almennar bækur er notast sem viðskiptabækur á sama hátt og tékkareikningar. Þarna er um enn eina fölsunina að ræða. Loks má geta þess að erlend lán jukust allt hávaxtaskeiðið með sama hraða og önnur útlán. Allt þetta er samkvæmt Hagtölum Seðlabankans.
    Og hávextirnir fara beint út í verðlagið. Það hefur verið sýnt og sannað af hagfræðingum, bæði hér heima og erlendis. Vaxtakostnaður fyrirtækja er í mörgum greinum orðinn jafnmikill eða meiri en launakostnaður. Því er statt og stöðugt haldið fram að launahækkanir fari út í verðlagið, sem eðlilegt er. Hvernig í ósköpunum getur nokkrum manni dottið í hug að segja að hið sama gildi ekki um vaxtahækkanir? Ég sýndi fram á í máli mínu hér áðan að samdráttaráhrif vaxtahækkana við ríkjandi skilyrði eru engin.
    Forsrh. sagði í umræðunum um daginn að bankarnir bæru saman bækur sínar og færu eftir ákveðinni formúlu. Þetta vita allir enda þótt bankamálaráðherrann þreytist ekki á að tala um frjálsa markaðsákvörðun vaxta. Sjálfur sagði hann frá því í ræðu sinni að við ákvörðun um nafnvaxtahækkun Búnaðarbankans hefðu þrír verið með heimildinni, einn hefði setið hjá og einn verið á móti. Spyrja má hæstv. ráðherra en hann er því miður ekki hér við: Var þetta ekki handaflsákvörðun? Kannski ekki hjá þessum eina sem sat hjá. Hann notaði víst ekki handaflið. En það var fróðlegt að heyra að það skyldu vera fulltrúi Framsfl., Alþfl. og Borgfl. sem stóðu að vaxtahækkun í Búnaðarbankanum rétt fyrir jólin, mitt í þjóðarsáttinni.
    Stigminnkandi vægi verðtryggingar sem ríkisstjórnin kveðst áforma nú leysir engan vanda. Vandann leysir ekkert annað en afnám lánskjaravísitölunnar eins og landsmönnum var lofað af núv. ríkisstjórn þegar verðbólga hafði verið undir 10% í eitt ár. Þarf hæstv. ríkisstjórn ekki að standa við þau orð? Frv. mitt hjálpar henni að standa við sín eigin loforð.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson fáraðist yfir að í Búnaðarbanka séu 18 milljarðar af sparifé á verðtryggðum kjörum en 12 milljarðar af útlánum. Þar er leiðin ekki að hækka útlánsvexti með öllum þeim vandræðum

sem slíkt skapar heldur t.d. færa niður vexti af verðtryggðum tékkareikningum, sér í lagi skiptikjarareikningum og af skammtímasparisjóðsbókum sem notast með sama hætti og tékkareikningar. Það skapar og möguleika til að borga hærri vexti af langtímaspariinnlánum. Vísast hér og til frv. míns. Vaxtahækkun er ekki heldur ráð til að losna við vanskilin. Hún mun aðeins auka þau. Myndast þannig vítahringur.
    Hérlendis reyna menn að beita vaxtahækkun til að draga úr útlánum. Ég hef sýnt fram á í máli mínu að það hefur engan árangur borið eins og dæmin sanna. Erlendis er í þessu skyni miklu frekar beitt verðbréfaviðskiptum á opnum markaði, ekki vaxtahækkunum sem hafa öfug áhrif. Hins vegar er stundum gripið til vaxtahækkana erlendis til að forða fjármagnsflótta þegar fjármagnsflutningar milli landa eru frjálsir. Þeir eru það ekki hér hjá okkur en það er verið að reyna að koma þeim á enda þótt þeir fái síður staðist í svo smáu landi sem okkar með einhæfan útflutning.
    Það hefur margkomið fram að gróði bankanna hafi verið verulegur á síðasta ári og það var undirstrikað af forsrh. í vaxtaumræðunum fyrir jólin sem hér hefur aðeins verið vitnað til. Í fyrirspurnatíma hér á Alþingi fyrir fáum dögum um vexti og verðtryggingu innlána og útlána kom fram hjá fyrirspyrjanda, hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, að bankar hefðu reiknað sparifjáreigendum um 500 -- 700 millj. kr. lægri vexti á ári heldur en þeim bæri ef reiknað væri á sama hátt og gert er af útlánum. Ef þetta er rétt, þá virðast skrýtnir hlutir gerast á tímum lánskjaravísitölu og verðtryggingar. Það hafa alltaf verið rökin að verðtryggingin skilaði sér til sparifjáreigenda. Það er nú aldeilis ekki, ef þetta er rétt. En skýrir þetta ekki að hluta vaxtamuninn og skýrir þetta ekki að hluta gróða bankanna? Hefðu þeir ekki í raun getað stillt vöxtunum meira í hóf á þjóðarsáttartíma? En þvert á móti fara bankarnir þá leið að hækka vextina með handafli undir því yfirskini að þeir séu að jafna mismuninn á vöxtum á óverðtryggðum og verðtryggðum lánum.
    En það er til önnur aðferð við að laga þann mismun. Hún er sú að í stað þess að hækka vextina á óverðtryggðum lánum lækki þeir vextina af verðtryggðum lánum, þ.e. raunvextina, sem eru langtum hærri en lög leyfa og Seðlabankinn á að sjá um að séu sambærilegir við það sem þeir eru í helstu viðskiptalöndum okkar eins og ég kom að fyrr.
    Þegar verðtryggingunni var komið á töluðu menn um að 2% raunvextir væru eðlilegir en 4 -- 5% raunvextir væru óðs manns æði. En hvað er þá að segja í dag þegar óðs manns æðið, þ.e. raunvextirnir, eru orðnir margfaldir frá því sem menn spáðu?
Og ofan á vaxtaokrið og raunvaxtaæðið blasir nú við að á þessu ári muni lánskjaravísitalan, ef hún fær að halda sér, hækka miklu meira en á síðasta ári sökum þeirrar náttúru hennar að við hverja kauphækkun hækkar vísitalan og þar með skuldir íbúðaeigenda í landinu.
    Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.