Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Þetta frv. sem hér liggur fyrir til 1. umr. flytur hv. flm., 3. þm. Suðurl., nú í fjórða skipti og þó að þetta frv. heiti ,,Frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár``, þá er þetta frumvarp til laga um afnám lánskjaravísitölu eins og flm. gat um í sinni framsögu. Það hefði verið eðlilegt að ráðherrar sem mikið hafa talað um lánskjaravísitöluna og vaxtamálin og ríkisstjórnin í heild skýrðu hv. Alþingi frá afstöðu þessara mála. Það vantar ekki yfirlýsingarnar frá einstökum ráðherrum í þessum efnum og það er ekki orðinn neinn skammur tími frá því að hæstv. forsrh. hefur lýst yfir eindregnum vilja sínum að afnema lánskjaravísitöluna. En hann hefur slegið svona úr og í öðru hvoru í þessum efnum og talið að það yrði nú ekki gert svona með einu stökki heldur tveimur og þeir hafa tekist á meira að segja flokksbræður hans og hann hér í þessari hv. þingdeild um það hvernig eigi að stökkva yfir þessa lánskjaragjá í tveimur stökkum og hefur sitt sýnst hvorum. Forsrh. telur þetta hægt, að stökkva yfir lánskjaragjána í tveimur stökkum, en flokksbróðir hans
og vinur, 2. þm. Vestf., telur að sá sem stekkur yfir gjá í tveimur stökkum lendi niður í gjánni og komist alls ekki yfir ef hann ætlar að fara í tveimur stökkum. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að forsrh. hefur ekki einu sinni þorað að stökkva fyrra stökkið því það situr allt í sama rassfarinu. Hann er enn þá á brúninni og leggur ekki til atlögu að stökkva yfir lánskjaragjána í tveimur stökkum. Og nú hélt ég að væri fullkomið tækifæri til þess að hæstv. forsrh. segði okkur frá áformum sínum í þessum efnum.
    Nú eru kosningar fram undan og þjóðin vill fá að vita það hver er afstaða hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar. Og nú vill svo til að af 11 manna ríkisstjórn --- það voru nú þrír hér áðan að burðast við að koma stjórnarfrumvörpum til nefndar en tveir stukku hið bráðasta upp og hlupu á dyr, en það sem sjaldan skeður er að hæstv. utanrrh. er nú sá eini þeirra ráðherra sem situr rólegur hér í sínu sæti og hlýðir á umræður hinna óbreyttu þingmanna. Og það sýnir hvað hann er nú alltaf ljúfur og alþýðlegur maður í hvívetna. Það hefði verið ástæða til að hæstv. viðskrh. gæfi sér tíma til að hlýða á og taka þátt í umræðum um þetta frv. þó ekki væri nema annað hvert ár. Hann gerði það ekki í fyrra. Ég veit ekki hvað olli. Núna er hann að fara úr landi. Ýmist er hann eins og fleiri á þessum bæ að fara eða koma. Maður veit aldrei hvort þeir eru að fara eða koma og því síður hvort þeir koma aftur þegar þeir eru farnir --- að hann skýrði nú frá sinni afstöðu í vaxtamálum og samræmdi vinnubrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það væri verðugt verkefni þessa hv. Alþingis að fá eina slíka alvöruumræðu og þá mættu gjarnan vera inni bankaráðsformaður Búnaðarbankans til þess að allir þessir ágætu snillingar gætu leitt saman sína góðu hesta við þær umræður og að við, þessir óbreyttu og hógværu þingmenn sem sjaldan förum nú hér upp í ræðustólinn, fengjum að heyra alla þessa vitsmuni og

dæma um hver væri vaxtastefna núv. hæstv. ríkisstjórnar. Er hún ein eða eru þær margar? Á þessu leikur okkur töluverð forvitni. Og þá hversu margar þær eru ef þær eru ekki ein og ef þær eru ekki tvær? Hvað eru þær þá margar? Hvað er verið að tala alltaf um að það sé nauðsynlegt að afnema lánskjaravísitölu eða gjörbreyta henni? Það hafi verið nauðsynlegt að afnema kaupgjaldsvísitöluna á sínum tíma og halda kaupgjaldi niðri vegna þess að kaupgjaldið skapi verðbólgu, sem er auðvitað alveg hárrétt. Fjármagnskostnaðurinn skapar líka verðbólgu.
    Raunvextir eru ekki ákvörðun bankaráða viðskiptabankanna. Raunvextir eru í höndum ríkisstjórnar hverju sinni. Nafnvextirnir eru svo ákvörðun bankaráðanna og þær ákvarðanir fara eftir því sem raunvextirnir eru á hverjum tíma. Það er þetta sem menn eru alltaf að blanda saman og vilja ekki viðurkenna, hvorki hæstv. forsrh. né ýmsir fleiri.
    Ég dáist að þrautseigju hv. 3. þm. Suðurl. að flytja nú þetta mál í fjórða sinn. Það sýnir að þingmaðurinn er ekkert af baki dottinn. Hann heldur sig við sína skoðun hvort sem hún fellur í kramið hjá mér eða þér, en þá er hér um að ræða mjög virðingarverða viðleitni og jafnframt að rökstyðja þær hugmyndir sem þingmaðurinn hefur í þessum málum. Þessar hugmyndir hans koma saman við margar, fjölmargar yfirlýsingar einstakra hæstv. ráðherra en ekkert gerist og ekkert liggur fyrir í þessum efnum.
    Ég vildi því aðeins með þessum fáum orðum taka undir það að ég vil að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum, verði ekki alltaf að tala út og suður í vaxtamálum. Eitt í dag og annað á morgun og þegar þessi hefur sagt þetta, þá tekur hinn það aftur. Það er þetta sem er orðið óþolandi að hlusta á.
    Ég tel rétt að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, sem er væntanlega fjh. - og viðskn. deildarinnar, kalli eftir þessari stefnu þó að það sé nú séð og víst að það er ekki ætlun stjórnarliðsins að afgreiða þetta frv. nú frekar en áður, enda kom það á daginn að þó að þetta eina mál væri hér á dagskrá, þá var umræðu frestað um það til þess að forseti gæti komið stjórnarfrumvörpunum til nefndar. En það mátti ekki ljúka atkvæðagreiðslu um þetta frv. því að það er nú sjáanlegt að sumir sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni áðan eru alveg örugglega hlaupnir út úr húsinu. Ég tel að hver sem er forseti, hvort sem það er deildarinnar eða sameinaðs þings, þá eigi á sama hátt að greiða fyrir þingmálum þingmanna og stjórnarliðs en ekki að setja það hér í tvo mismunandi flokka eins og hæstv. forseti Nd. gerir í þessu máli með því að slíta umræðuna í sundur fyrst ekki var reynt áður en þessi umræða fór fram að hafa atkvæðagreiðslu um hin þrjú málin.
    En þessi málsmeðferð öll og mæting hér í þingi sýnir þann losarabrag sem er hér á öllu. Og þó að forseti sameinaðs þings flytji hér áminningarræður um það að menn eigi að taka þátt í sem mæta á þinginu og vera ,,loyalir`` fyrir þá sem eru hingað og þangað úti í heimi, þá eru þetta ekki vinnubrögð sem verður litið á. Þeir eru ekki úti í heimi allir sem eru ekki

mættir, forseti Sþ. ( ÓÞÞ: Hún skammar alltaf þá sem eru viðstaddir.) Já, en það er kominn tími til að viðkomandi fari að breyta um og skipta um skammarræðu og skamma þá sem ekki eru viðstaddir og láta hina þá eiga sig í bili. Og þetta hefði viðkomandi hv. þm. og forseti átt að vita fyrr.