Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 29. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Jæja. Þá fór sá síðasti. Ég held að ég hafi séð rétt að hæstv. forseti sameinaðs þings sé hér í hliðarsal og óska ég eftir því að hún hlýði á mál mitt. ( Forseti: Það er óskað eftir nærveru virðulegs forseta sameinaðs þings í þingsal á meðan hv. 6. þm. Norðurl. e. flytur ræðu sína.) Ég man ekki betur en að þegar verið var að ræða um vaxtamálin utan dagskrár fyrir jólin hafi því verið lofað af hæstv. forseta sameinaðs þings --- og ég held að hún hafi haft samráð við aðra forseta um það --- að sú umræða færi fram í fyrstu viku þingsins eftir jólafrí. Ég hef einu sinni hér síðan spurt um þetta og fengið þau svör að þetta verði nú athugað, en nú er tekið fyrir frv., 177. mál á þskj. 510, sem er að hluta til um það mál, án þess að ráðherrarnir séu hér til staðar. Og ég verð nú að átelja þetta, sérstaklega vegna þess að hin umræðan utan dagskrár hefur ekki farið fram.
    Ég vil segja það í sambandi við það sem hæstv. forseti deildarinnar sagði hér um atkvæðagreiðsluna áðan, að það var alveg rétt að tvö af þeim málum voru mál þingmanna og ég held að hv. 1. þm. Vestf. hafi misskilið það mál.
    En þetta frv. sem hv. þm. Eggert Haukdal flytur nú í þriðja sinn er kannski má segja ekki athygli vert því að þessu lofaði ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þegar hún var mynduð, að gera það sem í þessu frv. felst, þ.e. að afnema lánskjaravísitöluna á lánsskuldbindingar. Það var að vísu sagt að þegar lánskjaravísitalan væri búin að vera í sex mánuði í eins stafs tölu, en hún er búin að vera það og vel það og það heyrist ekkert um þetta mál.
    Enn fremur eru --- sem ég ætla ekki að ræða hér og nú út af því að hér er enginn ráðherra og ég nenni ekki að vera að flytja þá ræðu sem ég mun flytja þegar þeir eru hér til staðar --- vaxtamálin í landinu náttúrlega algjörlega ólíðandi og þvert á það sem er í stjórnarsáttmálanum. Þvert á það. Bæði raunvextirnir og nafnvextirnir.
    Vextir mega aldrei vera hærri en það sem eðlilegur atvinnurekstur getur staðið undir og ég held að það sé ekki mörg starfsemi í landinu sem getur staðið undir þessum vöxtum. Í staðinn fyrir 6% raunvexti hef ég séð skuldbindingar sem menn hafa neyðst til að skrifa undir sem er verið að skuldbreyta fyrir 10,5%. Þetta er nú jöfnuðurinn í þessu landi. Þetta er réttlætið sem menn eru að guma af. Þetta er nakin staðreynd og ég vona að hæstv. forseti sameinaðs þings sjái sér færi á því, ef ráðherrarnir yrðu einhvern tíma við fyrir kosningar, en það er ekki víst, noti þá fyrsta tækifæri sem gefst, ef þeir yrðu við.