Aðgangur ungmenna að skemmtistöðum
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera upp fyrirspurn á þskj. 528 til hæstv. menntmrh. um aðgang ungmenna að skemmtistöðum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Gildir önnur regla um aðgang ungmenna að stöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga en sú sem almennt er boðuð í 43. gr. barnaverndarlaga, sbr. breytingu á þeim með lögum nr. 14/1983, þ.e. að miða skuli við fæðingarár en ekki fæðingardag?``
    Ástæða þess að ég ber upp þessa fsp. er sú að ég hef vitneskju um það að skemmtistaðir fara ekki að lögum frá 1983 um að fæðingarár skuli gilda en ekki fæðingardagur. Ég tel það mikið sanngirnismál að fæðingarárið ráði þar sem það er ætlast til hins sama af þessum ungmennum við skólaborðið en þegar kemur að því að þau fari út saman til að skemmta sér á kvöldin þá er hópurinn tvístraður. Þess vegna ber ég þessa fsp. upp til hæstv. menntmrh.