Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Í fyrri hluta desembermánaðar sl. barst mér fréttabréf öryggismálanefndar nr. 3, sem kallað er upplýsingar um öryggis - og utanríkismál. Á áttundu síðu þessa fréttabréfs er að finna frásögn af svonefndri skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál sem hæstv. utanrrh. hafði skipað með bréfi undirrituðu í september sl. Það er þessi fregn sem varð tilefni þess að ég legg svofellda fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra:
    ,,1. Hvað veldur því að utanrrh. hefur nýlega skipað nefnd sem samkvæmt skipunarbréfi er m.a. ætlað að samræma áætlanir sem varða
 ,,a) varnar - og liðsdreifingaráætlanir varnarliðsins á Íslandi, varnir hernaðarlega mikilvægra staða,
    b) birgða - og stjórnstöðvaráætlanir til stuðnings lið a,
    c) varnar - og liðsaukaáætlanir Atlantshafsbandalagsins á Norður - Atlantshafi,
    d) stuðningsáætlanir viðtökulands (Host Nation Support Plans),
    e) neyðaráætlanir Almannavarna ríkisins, fjarskipta - og stjórnkerfi``?
    2. Hverjir hafa verið skipaðir í þessa nefnd?
    3. Var haft samráð innan ríkisstjórnar áður en þessi nefndaskipan var ákveðin?``
    Virðulegur forseti. Það kemur sannarlega spánskt fyrir sjónir að á sama tíma og samningar hafa tekist um skipan öryggismála í Evrópu og verulega fækkun í herliði austan fyrrverandi járntjalds sem og vestan, samningar sem frágengnir eru með þátttöku 34 þjóða, auk samninga milli risaveldanna um samdrátt vígbúnaðar, þá skuli unnið að því hér uppi á Íslandi á grundvelli herstöðvasamnings, sem gerður var við Bandaríkin 1951, að færa út hernaðarumsvif í landinu og samþætta íslenskt þjóðlíf og starfsemi íslenskra stofnana við starfsemi bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Ég legg þessa fyrirspurn hér fram af augljósu tilefni og það verður fróðlegt að vita hvaða svör hæstv. utanrrh. hefur fram að færa sem skýringar á þessum hernaðarumsvifum sem hann stendur hér fyrir eða undirbúningi slíkra umsvifa hér í landi.