Endurskoðun fiskveiðistefnunnar
Fimmtudaginn 31. janúar 1991


     Karl Steinar Guðnason :
    Hæstv. forseti. Ég tel það mjög eðlilegt að hv. þm. komi með till. um breytingar á kvótakerfinu. Sú till. er komin fram hér. Ég undrast það hvernig þessi till. er og ég undrast líka að þeir hv. þm. sem hafa gerst aðilar að þessari till. forðast að tala um efni till. heldur tala aðeins um að þeir vilji endurskoðun sem reyndar er lögbundin og enginn er ósammála um. Þessi till. fjallar um ákveðið markmið sem tillöguhöfundar vilja ná. Ég er mjög undrandi á þeim markmiðum, að hverfa aftur til fortíðarinnar, til skrapdagakerfisins sem nú fær nýtt heiti, sóknarstýring. Ég sé ekki að með því móti yrðu þau vandamál leyst sem eru við stjórn fiskveiða í dag. Það vita allir hér að menn eru mjög ósammála um fiskveiðistjórnunina og það er sama hvar maður kemur að það eru margar skoðanir uppi. Lendi maður í fimmtán manna hóp þá eru jafnvel sextán, sautján skoðanir í hópnum.
    Ég vil líka vekja athygli á því að þegar núgildandi lög um fiskveiðistjórnun voru sett, þá voru það ekki aðeins hagsmunaaðilar sem settu þau lög eða sömdu það frv. heldur voru þingmenn þar líka. Ég verð að játa það að mér fannst ekki burðugur málflutningur allra þingmanna sem þar voru og ekki mikið um tillögur. Þær fundust, en það var ekki mikið af þeim. Ég verð að segja það að ég get ekki hugsað mér að lögin verði endurskoðuð á þann hátt að sjómenn og verkafólk fái ekki að koma nálægt því. Ég verð að spyrja spurninga varðandi merkingu þessara markmiða. Það er sagt hér: ,,Skal endurskoðunin hafa að markmiði að komið verði á þeirri skipan sem tryggir verndun fiskstofnanna og miðast við að atgervi þeirra sem sjóinn stunda fái að njóta sín ...`` --- Hvað er átt við með þessu? Þýðir þetta að með þessu skrapdagakerfi þá verði mönnum hleypt á miðin ákveðinn tíma þar sem menn veiða ótakmarkað? Það berst svo og svo mikill fiskur að landi og síðan seinni part ársins eða hvenær sem það er þá hefur fólk ekkert að gera á milli. Hvað með sjómennina og kjör þeirra? Hvað með verkafólkið sem er atvinnulaust í hundraðavís og mundi verða í þúsundavís ef af þessu yrði?
    Ég botna ekki í svona málflutningi. Hann er alla vega ekki til bóta.
    Ég óttast það að einhverjir sem hafa skrifað upp á þetta hafi ekki alveg lesið markmiðið sem í þessu er. Þetta er ekki bara tillaga um endurskoðun. Þetta er tillaga um að hverfa til fortíðarinnar, sem gafst mönnum mjög illa, því það segir í grg. að það eigi að miða við ákveðið aflamagn sem megi koma að landi. Einhvern veginn verður að skipta því. Einhvern veginn verður að takmarka það, en það eru engar hugmyndir um hvernig það skuli gert. Það á að siga öllum flotanum á miðin samkvæmt þessu og hlýtur að verða meðan ekki er útskýrt hvað menn vilja með þessu orðalagi. Það er ekkert sem stendur eftir annað en það að lögmál frumskógarins eigi aftur að ríkja. Þá er ég hræddur um að hinar ýmsu byggðir, sem menn eru að bera fyrir brjósti, fari illa.
    Ég tel að endurskoðun þurfi að fara fram eins og

lög segja til um og henni mætti gjarnan flýta. Menn gætu farið að vinna að því mikið fyrr en þar er sagt. Og ég bendi á að við þá endurskoðun sem var gerð síðast fengu allir að koma að því máli, bæði þingflokkar og einstakir þingmenn sem í nefndinni sátu. Núverandi kvótakerfi er afrakstur af þeim nefndarstörfum.
    Ég tel að það þurfi ekki aðeins að skoða það sem aflaga hefur farið í fiskveiðistjórnuninni heldur eigi líka að koma í veg fyrir að atvinnan flytjist í jafnríkum mæli til útlanda og gerst hefur að undanförnu. Þá á ég við sölu fisksins óunnins beint á markaði erlendis. Ég tel að það eigi að haga málum þannig að fiskurinn verði boðinn upp hér innan lands. Bæði geta útlendingar og Íslendingar í hann boðið og það verði að styrkja stöðu fiskmarkaðanna. Ég trúi því að með því móti muni aðilar betur geta sætt sig við útkomuna og hinar einangruðu byggðir úti á landi þurfi ekki að búa við þau ósköp að fiskurinn sé seldur á verðlagsráðsverði. Og ég reikna þá með því að atvinna muni mjög aukast í þessari grein. Ég tel að það þurfi að taka einmitt á þessum málum mjög bráðlega. Það er mjög brýnt.
    En ég endurtek varðandi tillöguna sjálfa að við hinir, sem kannski skiljum þetta ekki sem þarna er sett á blað, þurfum að fá frekari útskýringar á þeim markmiðum sem þarna eru sett fram. Það eru allir sammála um það að endurskoða lögin. En sú stefnumörkun sem tillagan segir til um er bæði óljós og undarleg og stangast líka á við hvað annað. Ég óska eftir að við hinir, sem erum svo fáfróðir eða skilningslausir, fáum að vita hvað átt er við með þessari tillögugerð.