Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Eins og fram kemur í fyrirsögn frv. og í því sem ég hef sagt um aðalfrv. þá er hér um fylgifrv. að ræða þar sem gert er ráð fyrir að leiðrétta fjöldamörg ákvæði laga til samræmis við aðalfrv. Ég hef þegar farið í gegnum öll þessi atriði og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég vil aðeins segja það hér að mér þykir að sjálfsögðu leitt að geta ekki tekið upp ítarlega umræðu um ýmislegt sem hér hefur komið fram, t.d. um það að vitanlega er stuðningur minn við þetta frv., sem ég mæli fyrir, alger. Það mátti skilja annað hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Ég tel þetta mjög gott frv. og vitanlega hefði ég viljað ræða fullveldi og fullveldi ekki og allt það. Ég ætla ekki að leyfa mér það núna en vona að við fáum góðan tíma til að ræða það. Ég ætla ekki að fara að deila hér um fulla aðild eða ekki fulla aðild o.s.frv. og mun því ekki hafa meiri framsögu fyrir þessum málum en legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.