Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frv. þetta er samið af nefnd sem upphaflega var skipuð af þáv. félmrh. Alexander Stefánssyni þann 23. júlí 1986. Í þá nefnd voru skipuð: Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaður Starfsmannafélagsins Sóknar, skipuð af ráðherra, Kristján Benediktsson, fyrrv. borgarfulltrúi, tilnefndur af þingflokki Framsfl., Gunnar Jóhann Birgisson lögfræðingur, tilnefndur af þingflokki Sjálfstfl., Ingibjörg Rafnar lögfræðingur, tilnefnd af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Rannveig Guðmundsdóttir, þáv. forseti bæjarstjórnar Kópavogs, skipuð af ráðherra, Sveinn Ragnarsson félagsmálastjóri, skipaður af ráðherra, og Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjóri í félmrn., skipuð af ráðherra, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Í desember 1987 tók Sjöfn Sigurbjörnsdóttir kennari sæti Rannveigar Guðmundsdóttur í nefndinni.
    Þann 12. jan. 1988 skipti ég nefndinni í tvær nefndir, vinnunefnd og ráðgjafarnefnd, og jafnframt skipaði ég tvo nýja fulltrúa í nefndina, Braga Guðbrandsson félagsmálastjóra og Ólöfu Thorarensen félagsmálastjóra. Upp úr miðju ári 1988 lágu fyrir áfangadrög að frv. þar sem m.a. var getið helstu kafla og þeirra málaflokka sem ætlunin var að frv. tæki til. Áfangadrögin voru þá lögð fram í ríkisstjórn og jafnframt send til umsagnar landshlutasamtaka sveitarfélaganna og stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Umsagnir þessara aðila voru þess eðlis að nefndin taldi fulla ástæðu til að halda áfram á sömu braut og mörkuð hafði verið.
    Rúmu ári síðar, í ágúst 1989, skilaði nefndin til ráðherra fullbúnum drögum að frv. Þegar frumvarpsdrögin voru lögð fram í ríkisstjórn kom í ljós að ágreiningur var um þau varðandi dagvistarmál. Í kjölfarið var skipuð sérstök nefnd með fulltrúum allra stjórnarflokkanna til þess að yfirfara frumvarpsdrögin. Því verki lauk með þeim hætti að fjórir af fimm nefndarmönnum stóðu sameiginlega að niðurstöðu nefndarinnar, en einn fulltrúi Alþb. skilaði séráliti.
    Veturinn 1989 -- 1990 voru frumvarpsdrögin til meðferðar í ríkisstjórn. Ástæða þess var sú að þá voru komin fram drög að frv. um leikskóla en þau voru í veigamiklum atriðum í blóra við frumvarpsdrög um félagsþjónustu. Á vordögum náðist niðurstaða í það mál með samkomulagi í ríkisstjórn sem fól í sér nokkra breytingu á báðum frumvarpsdrögunum. Frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga var síðan lagt fram á Alþingi undir þinglok á síðasta ári en fékk ekki umfjöllun.
    Þrátt fyrir það samkomulag sem náðst hafði í málinu vorið 1989 kom í ljós við upphaf þessa þings að enn var ágreiningur um ákvæði frv. um dagvistarmál þar sem þingflokkur Alþb. taldi samkomulag ekki ganga nógu langt til samræmis við frv. um leikskóla. Því hefur frv. um félagsþjónustu enn verið breytt í því skyni að komast hjá hugsanlegri skörun við leikskólafrv. Þannig er nú samheitið ,,leikskóli`` notað yfir öll dagvistarheimilin óháð tímalengd vistunar barna á

þeim.
    Miklu lengri aðdragandi er að baki þessa frv. sem hér hefur verið greint frá. Þegar á sjöunda áratugnum hófust umræður um nauðsyn þess að setja heildstæða félagsmálalöggjöf á Íslandi. Þá þegar komu fram þær grundvallarhugmyndir sem þetta frv. byggir á, þ.e. heildarsýn í félagsmálum. Hins vegar hafa þessar hugmyndir aldrei náð fram að ganga í löggjöf þrátt fyrir verulegan áhuga og ítrekaðar tilraunir í þá veru. Þannig bárust stjórnvöldum þegar á áttunda áratugnum áskoranir um að sett yrði heildstæð löggjöf í félagsmálum, m.a. frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, Stéttarfélagi félagsráðgjafa og Félagsmálastofnun Reykjavíkur og Kópavogs. Í kjölfar þessarar umræðu unnu tvær ráðherraskipaðar nefndir á árunum 1979 -- 1983 að því að undirbúa frv. að heildstæðri löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga. En af ýmsum ástæðum lauk því verki ekki og lá því niðri þar til vinna við frv. þetta hófst haustið 1986, eins og áður var vikið að.
    Helstu markmið nefndarinnar sem samdi frv. þetta eru að félagsþjónusta sveitarfélaga megi tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði, veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi, og grípa til aðgerða sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
    Markmiðum þessum hugðist nefndin sem samdi frv. ná með því að setja lagaramma um þá fjölbreytilegu félagsþjónustu sem nú er veitt í öllum stærri sveitarfélögum landsins þannig að sams konar þjónusta verði veitt um land allt svo að jafnræði megi hér ríkja. Til þess að svo geti orðið þarf heildstæða félagsmálalöggjöf sem felur í sér alla þætti félagsþjónustu sveitarfélaga. Slík löggjöf er einnig nauðsynleg til þess að ýta undir þá sýn að félagsleg aðstoð sveitarfélaga felst ekki í framfærslunni einni heldur felur í sér margháttaða þjónustu sem flestir þurfa á að halda einhvern tíma á lífsleiðinni. Meðan við hins vegar búum við framfærslulög sem undirstöðulöggjöf á sviði félagsmála sveitarfélaga ýtir það undir þá hugsun að félagsleg aðstoð af hálfu sveitarfélaga sé eingöngu ætluð til að bæta úr fátækt og felur jafnvel í sér vissa niðurlægingu. Sú forna hugsun skýtur og skökku við ef tekið er mið af félagslegri aðstoð af hálfu ríkisins, svo sem almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum og fleira, en þar er hinn forni hugsunarháttur fyrir löngu lagður fyrir róða og almenn velferðarsjónarmið viðurkennd. Úr þessu er frv. ætlað að bæta, þ.e. stuðla að því að félagsleg þjónusta sveitarfélaga verði viðurkennd sem nauðsynlegur hlekkur í velferðarkerfi þjóðfélagsins.
    Í þessu samhengi má og geta þess að hin Norðurlöndin hafa fyrir mörgum áratugum fellt úr gildi sín framfærslulög og öll nema Noregur sett sér heildstæða löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Af þessu yfirliti má ljóst vera að hér er brýnt mál

á ferðinni, málaflokkur sem dregist hefur stórlega aftur úr hvað nýsmíði í löggjöf viðvíkur. Er því löngu orðið tímabært að staðið verði myndarlega að málum og lagður grunnur að nútímalegri félagsmálalöggjöf sveitarfélaga, löggjöf sem í grundvallaratriðum hafnar hinum gömlu framfærsluviðhorfum en byggir þess í stað á því að félagsþjónusta sveitarfélaga er almenn þjónusta, öllum ætluð.
    Helstu annmarkar á núverandi skipan félagsþjónustu sveitarfélaga sem frv. er ætlað að bæta úr eru í fyrsta lagi að framkvæmd félagsþjónustu sveitarfélaga er grundvölluð á mörgum sérlögum sem sett hafa verið á mjög löngum tíma. Mörg þessara laga eru fyrir löngu orðin úrelt en önnur skarast með óeðlilegum hætti. Þá er tæplega unnt að fá innbyrðis tengingu eða skírskotun þessara laga þannig að samræmingar við framkvæmd þjónustunnar sé gætt. Þessi sérhæfingarsjónarmið í löggjöf og framkvæmd orka tvímælis.
    Í öðru lagi felur sérhæfingarsjónarmiðið í sér mikla verkaskiptingu eftir eðli vandamála. Þannig hefur það haft í för með sér mikinn fjölda nefnda sem hver um sig fer með einn málaflokk félagsþjónustunnar. Þetta hefur torveldað heildarsýn og samræmingu við uppbyggingu og rekstur félagsþjónustunnar og getur gert hana óhagkvæma og ómarkvissa. Þjónusta við einstaklinga hefur oft verið sundurlaus og almenningi gert erfiðara fyrir í skiptum sínum við félagsþjónustu en ella þyrfti að vera.
    Í þriðja lagi hefur sérhæfingarsjónarmiðið enn fremur orðið til þess að yfirstjórn félagsþjónustu hefur dreifst á fleiri en eitt ráðuneyti. Slíkt fyrirkomulag byrgir fyrir möguleika á yfirsýn yfir málaflokkinn og getur staðið í vegi fyrir lagasamræmingu og samræmdri framkvæmd. Eftirliti með aðstoð við framkvæmd laga hefur jafnframt verið ábótavant sem rekja má til dreifðrar yfirstjórnar.
    Virðulegi forseti. Í upphafi var gerð athugasemd við það að það frv. sem ég mæli fyrir og frv. um leikskóla sköruðust að verulegu leyti og þyrfti að fjalla um þau bæði samtímis. Ég sé að meira að segja þeir sem gerðu athugasemd við það sáu ekki ástæðu til þess að hlýða á framsöguna. Hér er verið að ræða um mjög mikilvægt mál þar sem 2 -- 3 þingmenn sjá ástæðu til þess að fjalla um það. Ég tel það óviðunandi og óska eftir því að framsögunni verði frestað.