Brunavarnir í skólum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrsti liður fsp. hljóðar svo: ,,Hvernig er háttað brunavörnum og eldvarnareftirliti í skólum?``
    Því er til að svara að samkvæmt lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 74/1982, eru brunavarnir og eldvarnareftirlit í höndum sveitarfélaga. Í 4. gr. laganna segir að sveitarfélög skuli halda uppi brunavörnum, þar með talið eldvarnareftirlit, í samræmi við kröfur sem nánar skuli kveðið á um í reglugerð um brunavarnir og brunamál. Sveitarstjórn og slökkviliðsstjóri fara með brunavarnarmál sveitarfélagsins.
    Í lögunum eru engin sérákvæði um brunavarnir og eldvarnareftirlit í skólum.
    Á nokkrum stöðum á landsbyggðinni eru starfandi sérstakir eldvarnareftirlitsmenn. Þeir hafa m.a. tekið út brunavarnir skóla á sínu svæði og séð kennurum og nemendum fyrir fræðslu um brunavarnir. Á hinum minni stöðum þar sem ekki eru starfandi sérstakir eldvarnareftirlitsmenn hafa slökkviliðsstjórarnir séð um eldvarnareftirlit í skólum og í sumum tilfellum sinnt fræðslu skólabarna. Í ýmsum skólum hafa farið fram brunaæfingar sem hafa m.a. beinst að rýmingu skóla.
    Annar liður fsp. hljóðar svo: ,,Fylgjast ráðuneyti félagsmála og menntamála með framkvæmd sveitarfélaga á 4. gr. laga nr. 74/1982, um brunavarnir og brunamál, að því er skóla varðar?``
    Samkvæmt 25. gr. laganna skulu slökkviliðsstjórar, hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með því að farið sé að lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál. Komi í ljós að ákvæði laganna eða reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim hafi verið brotin þá skal slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Ákvæði um þetta eru í 26. gr. laganna. Þessi ákvæði um eftirlit eiga að sjálfsögðu við um skóla eins og aðrar byggingar.
    Brunamálastofnun ríkisins fer með daglegan rekstur brunamála í landinu. Hlutverk hennar er skilgreint í 3. gr. laganna. Þar er ekki að finna nein bein ákvæði um að Brunamálastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að sveitarfélögin ræki lögboðnar skyldur sínar í sambandi við brunavarnir. Félmrn. hefur þó ekki í neitt annað hús að venda varðandi slíkt eftirlit, hvort sem um er að ræða skóla eða aðrar byggingar.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Eru brögð að því að ákvæðum brunavarnarreglugerðar nr. 269/1978, um viðvörunarkerfi í skólum, sé ekki framfylgt?``
    Því er til að svara að komið hefur í ljós að eldvarnareftirlit sveitarfélaga er allvíða ekki með þeim hætti sem vera þyrfti. Af þeim sökum var fyrir nokkrum árum tekin upp sú stefna að Brunamálastofnun ríkisins tæki út sem flestar byggingar og aðrar áhættur. Hefur verið unnið að þessu verkefni með skipulegum hætti sl. þrjú ár. Ákveðnir flokkar bygginga um allt land hafa verið teknir út. Fram til þessa hefur einkum verið um að ræða húsnæði þar sem fólk gistir, dvelur eða safnast saman annars staðar en í heimahúsum, svo og atvinnuhúsnæði eða önnur hús

sem gerðar eru sérstakar kröfur um, m.a. þær að Brunamálastofnun ríkisins samþykki hönnun þeirra.
    Staðan er nú sú að Brunamálastofnun hefur tekið út nærri 2000 byggingar og má segja að nær allar byggingarnar á landsbyggðinni í þessum flokkum hafi verið teknar út og þar með allir skólar á landsbyggðinni. Eftir er aðeins Reykjavíkursvæðið en þar mun þetta verk vera unnið í samvinnu við eldvarnareftirlitið í Reykjavík. Teknir hafa verið út 110 skólar, 35 íþróttahús og 28 heimavistir og hafa brunavarnarskýrslur verið gerðar um hverja úttekt. Skýrslurnar hafa verið sendar viðkomandi slökkviliðsstjórum og sveitarstjórnum ásamt bréfi þar sem vísað er til ábyrgðar þessara aðila skv. 4. gr. laga nr. 74/1982, um brunavarnir og brunamál.
    Niðurstaða þessara skoðana er í stuttu máli sú að brunavörnum í þessum byggingum hefur víða verið ábótavant og þær alls ekki í samræmi við ákvæði brunavarnarreglugerða. Á það við um viðvörunarkerfin svo og mörg önnur atriði. Samkvæmt úttektinni var ástandið slæmt í 52 skólum og óviðunandi í tólf. Í íþróttahúsunum slæmt í 18 og óviðunandi í þremur. Í heimavistunum slæmt í 14 og óviðunandi í fimm.
    Brunahólfun og rýmingarleiðir í skólabyggingum er það sem oftast er ábótavant. Klæðningar veggja og lofta eru mismunandi í skólabyggingum. Í nýrri skólabyggingum eru í flestum tilfellum klæðningar góðar frá sjónarmiði brunavarna. Rýmingarleiðir úr skólabyggingum eru yfirleitt óviðunandi og kemur þar margt til. Algengt er t.d. að hafa venjulegan læsingarbúnað í útihurðum skólanna, þ.e. að þeim er læst með lykli. Þetta getur verið alvarlegt mál ef um er að ræða heimavistarskóla. Útgöngu- og neyðarlýsing er oftast engin í þessum byggingum en slíkur öryggisbúnaður er mikilvægur þáttur rýmingarleiða. Áætlanir eru yfirleitt ekki til um rýmingu skólahúsnæðis. Leiðbeiningar um rýmingarleiðir, sem ættu að hanga í öllum kennslustofum, finnast ekki nema í fáum skólum á landinu.
    Ekki liggja fyrir neinar tæmandi upplýsingar um árangur þeirrar herferðar sem Brunamálastofnun hefur staðið fyrir. Engu að síður er ljóst, m.a. samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá byggingarfulltrúum, að undanfarið hafa verið gerðar miklar úrbætur í brunavörnum í skólum í kjölfar þessarar herferðar og ástandið er nú allt annað og miklu betra heldur en áður en hún hófst.
    Haustið 1987 lagði ég fram á Alþingi frv. sem gerði ráð fyrir verulega auknum tekjum og eflingu Brunamálastofnunar. Frv. varð að lögum þá í desember. Í framhaldi af því rýmkaðist fjárhagur Brunamálastofnunar verulega og hún var betur í stakk búin til að sinna hlutverki sínu.
    Í janúar 1989 skipaði ég síðan starfshóp til að gera heildarúttekt á stöðu brunamála í landinu. Sú úttekt lá fyrir í nóvember á sama ári. Niðurstaða starfshópsins var í stuttu máli sú að á sumum sviðum skorti talsvert á að lög og reglugerðir um brunavarnir og brunamál séu fullnægjandi en það sé þó fyrst og fremst í framkvæmd og í skipulagi brunavarna sem pottur sé

víða brotinn. Í framhaldi af þessu fól ég starfshópnum að vinna að frekari útfærslu á tillögum til úrbóta í brunamálum, m.a. með samningu frv. til breytinga á lögum um brunavarnir og brunamál. Frv. þetta er nú að verða tilbúið og er stefnt að því að leggja það fram á hv. Alþingi í næstu viku. Í því verður einmitt lögð sérstök áhersla á að herða eftirlit með brunavörnum og eldvarnareftirliti.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að mér hafi tekist að varpa ljósi á þau atriði sem fsp. fjallar um.