Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það hefur svo margt komið fram í þessari síðustu ræðu hæstv. ráðherra sem ástæða er til að leiðrétta að það er dálítið vandasamt að ákveða hvar eigi að bera niður fyrst. En það er best að byrja á því sem tilheyrendum er e.t.v. ferskast í minni, því sem ráðherrann sagði síðast varðandi tildrög þessarar umræðu, þó að það út af fyrir sig sé ekkert aðalatriði.
    Við upphaf þessarar umræðu sl. mánudag tilkynnti forseti Sþ. eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Hæstv. fjmrh. hefur óskað eftir með bréfi til forseta þingsins að fá að ræða utan dagskrár skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Þormóðs ramma.`` Utan dagskrár. Ef þetta er rangt með farið, þá er þetta mál milli þeirra flokkssystkina, hæstv. fjmrh. og forseta Sþ., en þetta stendur í þingtíðindum um upphaf þessarar umræðu. Mér finnst þetta hins vegar ekkert aðalatriði. En eigum við ekki bara að hafa það sem rétt er í þessu og eigum við ekki að treysta því að forseti Sþ. hafi skýrt þingheimi rétt frá? Þó sú gagnrýni sem fram hefur komið sé vitanlega rétt að eðlilegast hefði verið að taka þetta mál á dagskrá og gefa skýrslubeiðendum kost á að hefja hér umræður.
    Ráðberrann ber það síðan af sér, sem ég hafði þó lesið beint upp úr útskrift úr frétt Ríkisútvarpsins frá 29. jan. sl., að hann hafi að fyrra bragði talað um að ,,panta`` skýrslu. Hann treystir því að það séu það fáir hér inni eða fólk sem hafi ekki tekið nægilega vel eftir að það muni ekki eftir því að ég las þetta beint upp úr útskriftinni og ég er með hana í höndunum. Fjmrh. er spurður í inngangi þessarar fréttar, þar er sagt: ,,En er fjmrh. með þessu að segja að annarleg sjónarmið ráði ferðinni hjá Ríkisendurskoðun?`` Þá svarar ráðherrann, með leyfi forseta: ,,Ja, það hafa tveir aðilar pantað skýrslu frá Ríkisendurskoðun`` o.s.frv. (Gripið fram í.) Síðan segir hér í næstu spurningu, með leyfi forseta: ,,Þannig að menn geta pantað þá niðurstöðu sem þeim líkar?`` Það er væntanlega þetta sem ráðherrann er að reyna að koma hér að. Fréttamaðurinn spyr að þessu: ,,Þannig að menn geta pantað þá niðurstöðu sem þeim líkar?`` Og þá svarar hæstv. ráðherra: ,,Ég ætla ekki að svara því hér og nú, en það er hins vegar alveg ljóst að tveir aðilar hafa pantað skýrslu og fengið niðurstöður mjög ólíkar sem þjónar hagsmunum hvors aðilans fyrir sig.``
    Á öllum vígstöðvum er reynt að koma ábyrgð yfir á aðra, í smáu sem stóru, og hlaupa undan því sem menn hafa sagt. Það var auðvitað einkenni á ræðu virðulegs ráðherra að hann er byrjaður að draga í land með það sem hann hefur sagt um Ríkisendurskoðun vegna þess að hann óttast það auðvitað núna í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram að Alþingi taki af skarið og álykti sérstaklega um traust sitt á Ríkisendurskoðun. Og hann er ekki mjög hrifinn af þeirri hugmynd.
    Hafi það verið svo að umræddur fréttamaður hafi lagt ráðherranum orð í munn þá hefði kannski verið ástæða fyrir ráðherrann á fyrra stigi að óska leiðréttingar á því. En það er ráðherrann sjálfur, samkvæmt þessari frétt, sem fyrstur tekur sér þessi orð í munn, ,,panta skýrslu`` og notar þau síðan tvívegis og fréttamaðurinn skýtur því inn í á milli ummæla ráðherrans.
    Þetta er nú annað atriðið í þeim rangfærslum sem ráðherra hefur hér dregið upp, atriði númer tvö.
    Síðan sá hann ástæðu til þess að nefna hér sérstaklega og nafngreina vararíkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson, sem hefur á undanförnum árum getið sér gott orð víðs vegar í stjórnkerfinu, m.a. í fjmrn., hjá Ríkisendurskoðun á árum áður og fyrir samstarf við fjvn. Hann hélt því fram að umræddur Sigurður Þórðarson hefði verið einn helsti ráðgjafi viðskrh. við söluna á Útvegsbankanum og vissulega er það rétt að Sigurður Þórðarson var kvaddur til þess verks áður en hann var skipaður í embætti vararíkisendurskoðanda og hélt þeim störfum síðan áfram, væntanlega að ósk viðkomandi ráðherra. Og auðvitað hefur hann verið til þess kvaddur ásamt fleirum vegna þess að menn hafa treyst honum til þess að leggja það mat sem um var beðið á hlutabréf ríkisins í Útvegsbankanum. Staðreyndirnar í því liggja að sjálfsögðu fyrir. Þær voru ekki þær sem hæstv. ráðherra klykkti hér út með að segja, að það væri á ábyrgð Sigurðar Þórðarsonar og annarra matsmanna hvert endanlegt söluverð hefði verið, sem hv. þm. Páll Pétursson og núv. bankastjóri Landsbankans, Halldór Guðbjarnason, hefðu síðan gagnrýnt harðlega fyrir að vera of lágt. Staðreyndin í því máli er nefnilega sú, virðulegi ráðherra, --- kominn tími til að hann upplýsist um það --- að núv. viðskrh. tók þá pólitísku ákvörðun að lækka söluverðið um einar 250 millj. kr. frá því sem matsmennirnir töldu vera eðlilegt mat. Ef hæstv. ráðherra vill halda uppi einhverjum umræðum um söluverðið á Útvegsbankanum og reyna að ófrægja þá menn sem stóðu að því mati fyrir viðskrh. þá ætti hann í fyrsta lagi að tala um það við viðskrh. sjálfan sem seldi bankann á lægra verði og í öðru lagi held ég að hann verði að leita á önnur mið til þess að ófrægja núverandi vararíkisendurskoðanda eða þá menn sem tóku þátt í að meta bankann í sínum tíma. Þetta er ómaklegt, og eins og margt annað sem fram hefur komið hjá virðulegum ráðherra í þessu máli, honum ekki sæmandi.
    Að því er varðar þá umræðu hvort starfsmaður fjvn. eigi að koma frá Ríkisendurskoðun, þá er það auðvitað annað mál. En ég má til með að vitna í lögin um Ríkisendurskoðun. Í 2. mgr. 1. gr. þeirra segir m.a. að Ríkisendurskoðun skuli vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Það er hennar skylda ef þingnefndir óska eftir því. Auðvitað er það mál fjvn. og þingsins hvort þessi háttur er á hafður. Það er fjvn. sjálf, í umboði Alþingis, sem hefur kosið að hafa það svo. Ef menn vilja breyta því þá er það einföld ákvörðun hjá fjvn. En það er ekki hægt að sakast um það við Ríkisendurskoðun eða blanda því inn í önnur verkefni hennar eða annað það sem frá henni hefur komið. Mér er vel kunnugt um að það hefur lengi verið um það viss ágreiningur hvort eðlilegt sé að starfsmenn Ríkisendurskoðunar aðstoði fjvn. Fjvn. sjálf hefur ákveðið að

hafa það svo.
    Það er auðvitað fullkomin rökleysa og út í bláinn að fjalla um ummæli forseta Nd. Árna Gunnarssonar hér áðan og í ræðu hans í fyrra um þetta atriði í sama mund og verið er að ræða árásir fjmrh. á stofnunina. Og að bera þetta á einhvern hátt saman er auðvitað fjarstæða. Þingið á það við sjálft sig og nefndin við sjálfa sig hvort hún kýs að hafa þetta svona, hvort hún kýs að hagnýta sér það ákvæði í lögum um Ríkisendurskoðun að hún skuli vera þingnefndum tiltæk ef þær óska.
    Fjmrh. fór í þessari síðustu ræðu sinni nokkuð um víðan völl í tilraunum sínum til þess að draga til baka að einhverju leyti það sem hann hefur látið frá sér fara um Ríkisendurskoðun og eins til þess að dreifa athyglinni frá því að matsverðið á þessum eignum er ekki aðalatriðið, eins og ég gat um í minni ræðu. Hann segir að við séum alveg sammála um það að þetta sé aðalatriði málsins. Við erum e.t.v. sammála um það, mér heyrist að menn geti komist að margháttaðri niðurstöðu um svona mál og ekkert eitt mat sé óskeikult. En það er samt ekki kjarni þessa máls. Kjarni þessa máls var það hvernig að þessari sölu var staðið, hvernig jafnræðisreglan var brotin og hvernig fram hjá þeim aðilum var gengið sem hugsanlega hefðu haft áhuga á því að kaupa þetta fyrirtæki ef þeim hefði verið gefinn jafn kostur á því við þá sem á endanum hrepptu fyrirtækið. Þetta er kjarni málsins. Og markaðsverðið hefði auðvitað komið í ljós ef eftir því hefði verið leitað með almennu útboði að finna það. En eins og ég gat um í minni ræðu hefði mátt gera það með ýmsum skilyrðum til þess að binda söluna við Siglufjörð eða áframhaldandi starfsemi þar, ef það hefði verið vilji manna. Ég gat þess að það væru a.m.k. tvær leiðir til að gera það þannig að gagnrýnislaust gæti verið. Það er því ekki kjarni málsins, virðulegi ráðherra, að menn geti komist að mismunandi niðurstöðu.
    Það er rangt að hæstv. ráðherra hafi ekki fellt áfellisdóma yfir Ríkisendurskoðun í sinni fyrstu ræðu. Hann gaf í skyn að það væri rétt að grípa til sérstakra aðgerða gegn yfirmönnum þessarar stofnunar fyrir það hvernig þeir hefðu vogað sér að vera á annarri skoðun en hann. En ráðherra sá nú ekki ástæðu til þess að svara þeirri spurningu minni hvernig ætti að framfylgja þeim hótunum eða hvað í þeim fælist nákvæmlega. Ráðherrann sá ekki ástæðu til þess að svara því.
    Ég tel hins vegar að það sé rangt hjá hæstv. ráðherra að segja sem svo að Ríkisendurskoðun hefði átt að koma hér með einhvern lista af mögulegum valkostum. Það er vissulega hægt að útbúa slíkan lista og ráðherrann var nú með vísi að honum í sinni ræðu, möguleikarnir a, b, c hérna megin, og 1, 2, 3 uppi, búa til töflu eða fylki, eins og það heitir í stærðfræðinni, og fylla síðan út í það, mönnum til fróðleiks og ánægju. En það hlaut auðvitað að vera tilgangurinn með svona skýrsluúttekt að fá það sem stofnunin teldi líklegast, þó að ekki væri þar með sagt að það væri óhjákvæmilega það eina rétta sem til greina kæmi.

    Það er þessi skortur á umburðarlyndi sem varð síðan til þess hjá hæstv. fjmrh. að hann hellti sér yfir stofnunina fyrir að komast að annarri niðurstöðu en hann og hans ráðgjafar. Ég kalla það skort á umburðarlyndi og skort á víðsýni í sambandi við fagleg og fræðileg málefni á þessu sviði, sem eru hugtök sem ráðherranum eru töm. Ég hef hins vegar ekki blandað því við skapferli eða skapbresti hæstv. ráðherra eins og Páll Pétursson gerir. Ég vil ekki leggjast niður á það plan með hv. þm. Páli Péturssyni að taka þannig til orða.
    Málið er hins vegar það að ráðgjafar ráðherrans og þeir sem selja fyrirtækið selja það við einu verði, einni tölu, væntanlega þeirri tölu sem þeir telja rétta. Ríkisendurskoðun kemur síðan með þá tölu sem hún telur líklegast að væri rétt mat og sú tala er reyndar ekki ein tala heldur hleypur á bilinu 250 -- 300 millj. kr. meðan söluverð ráðherrans var 150 millj. kr. með þeim skilmálum sem hv. þm. Páll Pétursson rakti hér áðan. Ef einhver hefur gert sig sekan um að hlaupa upp á nef sér við það að fleiri möguleikar séu nefndir þá er það auðvitað fjmrh. sem það gerir. Og það er skortur á umburðarlyndi af hans hálfu að taka því svona að Ríkisendurskoðun birti annað mat á þessum gjörningum hans.
    Hann getur ekkert hlaupið frá því í sinni síðustu ræðu að hafa fellt áfellisdóma og verið með árásir á þessa stofnun, enda tók hann það sérstaklega fram að það þyrfti að grípa til ráðstafana gegn henni ef ekki væri hrakið lið fyrir lið og þátt fyrir þátt allt sem hann hefði sagt. Hvað þýða þau orð? Ég spurði að því í minni fyrri ræðu en ekkert svar hefur komið við því.
    Ég vísa á bug þeim ummælum sem hæstv. ráðherra vitnaði til í grein Jóns Sæmundar Sigurjónssonar, hv. samþingmanns okkar, þar sem hann segir að forsendur Ríkisendurskoðunar komi Þormóði ramma lítið við. Auðvitað stenst sú setning ekkert af hálfu hv. þm. í þeirri grein. Auðvitað er ekki hægt að skýla sér á bak við þá setningu af hálfu hæstv. ráðherra. Þessi setning er auðvitað út í bláinn, þó að hv. þm. Jón Sæmundur hafi kosið að fría sig af málinu með því að skrifa grein með þessum hætti. Ég vil hins vegar vísa á bug og mótmæla þeim talsmáta sem nokkrir hv. þm. hafa haft uppi í garð hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar að öðru leyti og tel það málinu ekki til framdráttar eða innlegg í málefnalega umræðu með hvaða hætti hefur verið að honum vikið hér að öðru leyti. En hann hefur hlaupið á sig með þessari grein, eða með þeirri fullyrðingu réttara sagt, sem hæstv. ráðherra vitnaði til í ræðu sinni.
    Þessari umræðu fer að ljúka, virðulegi forseti. Hún er búin að taka sinn tíma hér í þingsölum frá þingtímanum. Ég tel það illskiljanlegt hvernig hv. þm. Páll Pétursson og hæstv. fjmrh. geta haldið áfram samstarfi í ríkisstjórn eftir þá bunu sem yfir fjmrh. hefur gengið af könnu hv. þm. Það er vægt til orða tekið að segja að Páll Pétursson hafi tekið hér dýpst í árinni þeirra manna sem gagnrýnt hafa embættisfærslu hæstv. ráðherra í máli þessu. Hv. þm. Páll Pétursson

er að sjálfsögðu óbeint ábyrgur fyrir þessari embættisfærslu allri saman vegna þess að hæstv. ráðherra situr í skjóli þingmanna eins og hv. þm. Páls Péturssonar og þiggur völd sín úr lófa Páls Péturssonar og fleiri stjórnarþingmanna. Ef á að taka trúanleg hin stóru orðin hv. þm. Páls Péturssonar, þá lætur hann ekki hér við sitja. Hann tilkynnti okkur það hér fyrsta daginn sem þessi mál voru rædd að hann hefði það sem hann kallaði ,,kíkt á lögin um ráðherraábyrgð`` og ætti nú eftir að
skoða þau betur. Það væri nú fróðlegt að fá það upplýst hvað liði þeim rannsóknum af hálfu hv. þm. En það verður því miður að segjast eins og er að gagnrýni hans og annarra stjórnarþingmanna er býsna léttvæg fundin ef þeir ætla að sitja við óbreyttar aðstæður, ef þeir ætla að una því að hæstv. ráðherra sitji bara eins og hér hafi ekkert í skorist, maður sem hefur gert sig sekan að þeirra dómi um ótakmarkaða valdníðslu, siðleysi og það að úthluta sérstökum pólitískum skjólstæðingum sínum í einni fjölskyldu í Siglufirði heilmiklum verðmætum á kostnað ríkissjóðs. Þetta eru ásakanir Páls Péturssonar. Ég hef ekki tekið undir þær í öllum atriðum. Og mér finnst hann hafa talað ómaklega um ákveðna einstaklinga í Siglufirði. ( Gripið fram í: Og misferli líka.) Og hann notaði reyndar líka orðið misferli sem er auðvitað alvarlegt mál í hegningarlögum landsins.
    En við sjáum hvað setur með þetta allt saman, en einfaldasta og auðveldasta leiðin, og sú sem liggur beinast við til þess að ljúka þessu máli, er að sjálfsögðu að Alþingi samþykki hér einhvers konar ályktun þar sem trausti er lýst á starfsemi, starfsháttum, starfsmönnum Ríkisendurskoðunar og dylgjum, fullyrðingum og sleggjudómum hæstv. ráðherra um þessa stofnun þar með vísað á bug.