Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram umræður allmerkilegar og kannski mikið fyrir það að þær eru á skjön við þingsköp og að ýmsu leyti sérstakar þess vegna, það að hæstv. fjmrh. er veitt heimild til utandagskrárumræðu hér samkvæmt ákveðinni grein í þingsköpum, grein sem fyrst og fremst er ætlað að tryggja rétt alþingismanna til þess að leita álits, fá upplýsingar hjá ráðherrum. Að það sé opnað fyrir slíkar umræður hér er töluvert sérstætt og ég man ekki eftir því að það hafi gerst áður. Það kannski skýrir sig dálítið með hvaða hætti þessar umræður hafa farið fram, hvers vegna það varð að breyta út af þessari venju en ég verð að segja sem mína skoðun að þessar umræður, þær ásakanir sem hér hafa verið bornar fram, eru með þeim hætti að ég trúi ekki að Alþingi láti þessu öllu saman lokið öðruvísi en það komi skýrt fram hvort Ríkisendurskoðun nýtur trausts Alþingis eða ekki.
    Ég ætla ekki að ræða einstakar tölur sem hér hafa komið fram. Ég ætla ekki að ræða niðurstöður þeirrar verslunar sem átti sér stað og allt málið snýst um, 150 millj. eða einhverja aðra tölu. Á móti koma tölur sem Ríkisendurskoðun telur sig hafa fengið út úr dæminu við þá athugun sem hún hefur gert.
    Það sem mér finnst vera hér alvarlegast eru ásakanir á hendur Ríkisendurskoðun um að þangað sé hægt að leita af hálfu Alþingis eða alþingismanna og fá pöntuð skjöl til þess að nota þau í pólitískum umræðum, til þess að koma pólitísku höggi á einhvern, hvort sem það er hæstv. fjmrh. eða þá einhver annar á öðrum tímum.
    Ég segi það alveg eins og er, við getum deilt, við getum haft skiptar skoðanir á málum, en ég er þeirrar skoðunar að við verðum að kunna fótum okkar forráð þegar slíkar umræður eiga sér stað.
    Að það sé hægt að panta frá Ríkisendurskoðun einhverja skýrslu eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt, ja, þá óneitanlega gefur hann í skyn að einhvers staðar sé hægt að panta skýrslu. Ég ætla ekki að halda því fram að hann hafi pantað skýrslu hjá þeim aðilum sem gáfu honum skýrslu eða gerðu mat á eignum þess fyrirtækis sem hann seldi. Það hvarflar ekki að mér að gera slíkt þó að ég gæti verið að athuguðu máli gjörsamlega ósammála þeim niðurstöðum sem frá þeim annars ágætu mönnum hafa komið og ætla ég þó ekki að gerast neinn dómari í því máli.
    Það gerðist á Alþingi 1977 að einn þáv. hv. þm., Halldór Ásgrímsson, núv. hæstv. sjútvrh., flutti frv. til laga um Ríkisendurskoðun. Það var, ef ég kann söguna rétt, það fyrsta sem kom hingað í sali Alþingis um það að færa Ríkisendurskoðun frá því að heyra til stjórnvalds, þ.e. að vera ráðuneyti í fjmrn. eins og Ríkisendurskoðun var, til þess að gera Ríkisendurskoðun að sjálfstæðri stofnun og vera Alþingi til styrktar í því einmitt, eins og hann orðaði það hér áðan, að fylgjast með og gefa ríkisvaldinu, framkvæmdarvaldinu það aðhald sem það vissulega þarf eins og hver annar stjórnandi sem tekur að sér slík

mál.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að ég varð fyrir þó nokkrum vonbrigðum hér áðan þegar ég heyrði þennan guðföður Ríkisendurskoðunar, í því formi sem hún er í dag, koma hér í ræðustól og tala í þessu máli og gera grein fyrir sínum skoðunum á þeim umræðum og málinu eins og það hefur birst hér í sölum Alþingis. Það voru ekki sömu blæbrigði á þeirri ræðu sem hann hér flutti og þeirri greinargerð sem fylgdi þessu frv., svo skilmerkileg sem hún er, þegar það fyrst var flutt og svo síðan þegar málin hlutu afgreiðslu hér á Alþingi. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átti von á því að hæstv. sjútvrh. væri harðari og ákveðnari og með meiri eindrægni í stuðningi sínum við störf Ríkisendurskoðunar heldur en fram kom í þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan.
    Við höfum að vísu orðið vör við það og það hefur gerst að hér hafa talað ráðherrar, einn og tveir og þrír, um sama málefnið, verið á sinni skoðun hver, en þeir hafa gert það þannig að það hefur verið ósköp góðlátlega sett fram, notuð til þess þau orð að ekki væri beint um stóryrði að ræða, en það hins vegar sýnt sig að þeir hafa verið gjörsamlega ósammála.
    Ég hjó eftir því að hæstv. sjútvrh. sagði að það þyrftu að gilda um sölu á eignum ríkisins skýrar reglur og ég er honum alveg sammála. Ég hefði gjarnan viljað að sú skoðun, sem hann setti þar fram, hefði verið hér í ræðustól sett fram af honum og fleiri af hans samflokksmönnum og fleiri alþingismönnum, t.d. á síðasta þingi þegar fjvn. flutti hér frv. einmitt um með hvaða hætti farið skyldi með eignir ríkisins í sambandi við sölu og mjög margt annað sem þetta frv. fjallaði um, þar á ég við útgjöld ríkissjóðs í mörgum tilfellum. Þetta frv. var ekki flutt af einhverjum stjórnarandstæðingum, einhverjum aðilum sem eru í andstöðu við ríkisstjórn, heldur man ég ekki betur en formaður fjvn. hafi verið þar 1. flm. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þegar málið var svo komið til fjh.- og viðskn., þá hafi það verið látið hvíla þar. Hefði formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, hv. 1. þm. Norðurl. v., þá verið röskur í sínum störfum, eins og hann oft getur verið, látið hendur standa fram úr ermum, látið þetta frv. ná fram, auðvitað að athuguðu máli, fram komnar tillögur skoðaðar, þá stæðu menn kannski ekki í þessum umræðum hér í dag. Svo einfalt er nú málið. Þannig að þegar hæstv. sjútvrh. lýsir því yfir að hér þurfi að gilda ákveðnar reglur þá er ég honum alveg sammála en þá vek ég athygli hans á því að hefðu menn tekið sig saman í andlitinu og skoðað þetta frv. sem ég tel að hafi að mörgu leyti verið mjög gott, en mér er sagt að það hefði þurft að --- þarna kemur hv. 1. þm. Norðurl. v. Við vorum að ræða um reglur varðandi sölu á eignum ríkisins. Það var hæstv. sjútvrh. sem sagði að það þyrfti að setja reglur og það þyrftu að gilda um það reglur. Ég var honum alveg sammála og ég veit að hv. þm. er það líka nú. Ég vék þá að frv. sem hér var flutt á síðasta þingi, ekki af stjórnarandstæðingum, 1. flm. var formaður fjvn., og ég bætti því

við að hefði þetta frv. náð fram að ganga, menn verið röskir, látið hendur standa fram úr ermum, þá hefðu menn ekki staðið frammi fyrir þessu máli sem við erum að fjalla um eða hefur, eins og ég orðaði það í upphafi, orðið að víkja frá venjum um fundarsköp, jafnvel frá reglunum um fundarsköp til þess að þessar umræður gætu farið fram. ( Gripið fram í: Þetta er því miður rétt.) Þetta er því miður rétt, segir hv. þm. Nú, en við höfum enn tíma til þess að setja nýjar reglur. Á þeim dögum og þeim vikum sem eftir eru af yfirstandandi þingi væri hægt að koma þessum reglum fram, því ég trúi ekki að slíkur skoðanaágreiningur sé um einstök atriði að ekki sé hægt að ná samstöðu þar um á milli fjmrn., fjvn. og Alþingis sem endanlega að sjálfsögðu kæmi til með að samþykkja slíkt frv.
    Þó að hv. formaður fjh.- og viðskn., formaður þingflokks Framsfl., sé genginn úr salnum, þá veit ég það að hæstv. sjútvrh. ber honum þá áskorun mína að þeir hvetji nú 1. flm. þess frv. til að flytja það aftur. --- Kemur formaður fjh.- og viðskn., formaður þingflokks Framsfl. í salinn. Ég var að segja að mér fyndist eðlilegt að 1. flm. þessa ágæta frv. verði hvattur til þess að flytja þetta frv. og koma því í gegnum þingið.
    Ég vissi af því frv., sem hv. þm. gaukaði hér að mér, sem hann flytur hér nú um bann við sölu á eignum ríkisins án lagaheimilda, og að sjálfsögðu er hægt að bæta að einhverju leyti úr í þessum efnum með því að hraða því máli og mér fyndist að það ætti að skoðast. Kannski væri auðvelt að leysa þetta mál með því að flytja frv. frá því í fyrra sem breytingartillögur við þetta frv. og þá getur farið fram umræða um málið, atkvæðagreiðsla um málið. Kannski væri það auðveldasta leiðin. Ég sé að hv. 1. flm. þessa frv. á þskj. 542 brosir og ég tek það sem merki þess að þetta sé góð hugmynd sem hér hafi verið sett fram og hann muni verða fyrstur til þess að fjalla um það og reyna að koma því máli fram.
    Hæstv. sjútvrh. ræddi hér um markaðssjónarmiðin sem eigi að gilda og ég er honum alveg sammála. Hann vék nokkuð að fundi sem við þingmenn Reyknesinga áttum með honum að ósk þeirra sem þar syðra eru í útgerðarmálum og telja sig hafa farið halloka þessi tíu ár í þeim málum sem Framsfl. hefur veitt sjútvrn. forustu. Hann vitnaði til orða sem hann sagði að ég hefði þar sagt. Ég skal nú ekki staðfesta að ég hafi sagt það sem hann vitnaði til en ég skal heldur ekki segja að hæstv. ráðherra komi hér upp í ræðustólinn til þess að fara með rangt mál. (Gripið fram í.) Ég hef sagt alveg ákveðna hluti og ég hef vitnað til orða hæstv. sjútvrh. varðandi sjávarútveg hér á suðvesturhorninu og ég get gert það ef ráðherrann vill fara í þær umræður hér. Hitt liggur ljóst fyrir að þegar beðið er um að hér verði um að ræða forgang þá eru menn að sjálfsögðu að tala um á því verði sem hægt er að fá fyrir viðkomandi eignir, hvort heldur það eru skip eða einhverjar slíkar eignir sem verið er að selja.
    En markaðssjónarmiðin, ég tók eftir því í fyrstu

ræðu hæstv. fjmrh. hér, tæplega tveggja klukkutíma ræðu hans um þessi mál, að hann lagði mikið upp úr markaðssjónarmiðunum. Hvort þau voru siglfirsk eða markaðssjónarmið fyrir allt landið er kannski mál út af fyrir sig gagnvart honum. En hann hefur að ýmsu leyti viljað fylgja markaðssjónarmiðunum og þar eru þeir ekki samferða, hann og hæstv. forsrh., t.d. í sambandi við fjáröflun til handa ríkissjóði á innlendum markaði. Þar hefur hæstv. fjmrh. viljað láta markaðsöflin ráða og gert það og í dag eru þetta pappírar sem eru með hæstu vöxtum sem þar eru seldir. Hitt liggur ljóst fyrir að hæstv. forsrh. hefur ekki viljað vera inni á þeirri línu að markaðsöflin eða markaðssjónarmiðin fái þar að ráða ferðinni. En það er í þessu eins og svo mörgu öðru að þeir tala ekki sama tungumálið ráðherrarnir og fara ekki samhliða og það láta þeir sér lynda. Það er þeirra.
    Hæstv. sjútvrh. vék að sölu á Ferðaskrifstofu ríkisins þegar ég gegndi embætti samgrh. Sala á Ferðaskrifstofu ríkisins var framkvæmd samkvæmt lögum sem samþykkt voru hér á Alþingi og leitað á þeim tíma til þeirra aðila sem störfuðu fyrir ríkið. Það var síðan spurt og þá kom það í hlut núv. samgrh. að svara. Það voru settar fram nokkrar spurningar varðandi þessa sölu. En í lögunum var það skýrt tekið fram hverjir ættu forkaupsrétt á þessum eignum. Það var skýrt tekið fram og í umræðunum kom það skýrt fram að þegar þessi sala átti sér stað þá var það fulltrúi Ríkisendurskoðunar sem mat verðmæti þessara eigna og það var ríkislögmaður sem aðstoðaði við söluna á þeim hluta Ferðaskrifstofunnar sem seldur var. Þannig að þetta gerðist nákvæmlega eftir því sem lögin sögðu. Og það var leitað til þeirra aðila sem voru í störfum vegna ríkisvaldsins, þ.e. Ríkisendurskoðun til skoðunar á hlutunum, þ.e. eigninni sem slíkri og verðmæti, og ríkislögmaður til þess að hlutirnir gerðust samkvæmt því sem Alþingi hafði samþykkt. Þetta kom allt skýrt fram í svörum núv. samgrh. þegar um þetta var spurt og hann gerði grein fyrir þessu.
    Ég vil svo geta þess, til að menn átti sig á því hvað þarna var að gerast, og ég trúi að hæstv. fjmrh. geti staðfest það að á sl. ári var í fyrsta skipti greiddur arður í ríkissjóð af eignarhluta ríkisins sem núna er í Ferðaskrifstofu ríkisins. Þannig að það sýnir sig að það sem þarna var gert hefur skilað sér að þessu leyti til ríkissjóðs umfram það að eignirnar voru metnar af þeim endurskoðanda sem Ríkisendurskoðun tilnefndi sem endurskoðanda þessa ákveðna fyrirtækis.
    Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan að ég varð fyrir þó nokkrum vonbrigðum með það hvernig hæstv. sjútvrh. fjallaði um þetta mál. Mér fannst eins og sú stofnun og það fyrirkomulag, sem eins og ég orðaði það áðan hann var guðfaðirinn að, ætti ekki þann hauk í horni sem það vissulega þurfti á að halda því að burt séð frá, ég segi burt séð frá þeim deilum sem hér er um að ræða, þá er það óhemjulega þýðingarmikið fyrir Alþingi að hér starfi stofnun sem Alþingi ber traust til, stofnun til endurskoðunar, og þeir sem taka að sér að gegna ráðherrastörfum, hverjir svo sem

það eru á hverjum tíma, verða að geta þolað. En eins og hæstv. sjútvrh. sagði, þá hafa þeir tækifæri til þess að koma fram sínum skýringum, gera grein fyrir þeim forsendum sem liggja til grundvallar gjörðum þeirra. Það hefði að vísu átt að gerast með öðrum hætti heldur en hér hefur verið staðið að. En númer eitt, tvö og þrjú: Ríkisendurskoðun er stofnun sem er sjálfstæð, starfar á ábyrgð Alþingis og við berum traust til hennar. Við munum bera traust til hennar og við eigum að láta þessa stofnun vita það að við gerum það.