Kosningar til Alþingis
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég heyrði því einhvers staðar fleygt fyrir fáum dögum að það væri ýmissa manna mál að helsta kosningaefnið fyrir næstu kosningar yrði kjördagurinn og út af fyrir sig getur það verið rétt. En viðvera þingmanna í þingsal núna bendir ekki beinlínis til þess þó svo að hér hafi að vísu komið fram í umræðunum sem þegar hafa orðið tilefni til slíks.
    Mig langar aðeins að segja örfá orð vegna orða hv. 3. þm. Norðurl. e. um það hvort þetta frv. geti hugsanlega stangast á við stjórnarskrá. Ég þarf í sjálfu sér ekki að taka það sérstaklega fram hvernig þetta er tilkomið með þennan dag, 20. apríl. Þar er auðvitað um að ræða þá umræðu sem hv. 3. þm. Austurl. minntist á í sínu máli, að að sumra áliti væri það ekki gott að þingmenn væru umboðslausir fyrir kosningar eftir lok kjörtímabils. Þó held ég að það liggi alveg óyggjandi fyrir að það væri ekki brot á stjórnarskrá að hafa kosningadaginn nokkru eftir að kjörtímabilinu lýkur. Fyrir því eru mörg fordæmi.
    En hvort það stangast á við stjórnarskrá að hafa kjördaginn nokkru fyrr en kjörtímabilinu lýkur og ákveðinn með þessum hætti, þá tók ég það fram í ræðu minni hér áðan að það hefur borið við áður. Það mun vera aðeins einu sinni á sl. hálfri öld sem kosningar eru hér á reglulegum kjördegi eftir fjögurra ára kjörtímabil. Það var 1978 og ég gat einmitt um það dæmi í ræðu minni áðan. Árið 1974 fóru alþingiskosningar fram sunnudaginn 30. júní samkvæmt þingrofi. Fjórum árum síðar, 1978, var kosið á reglulegum kjördegi, sunnudaginn 25. júní, en það var fimm dögum áður en kjörtímabilinu var lokið, nákvæmlega eins og nú yrði ef þetta frv. yrði að lögum. Þetta kemur náttúrlega til vegna þess að menn binda sig við ákveðinn vikudag sem hins vegar hreyfist til. Eins og löggjöfin er núna gæti annan laugardag í maí borið upp á 8. til og með 14. maí. Og það er vegna þessa mismunar sem þessar aðstæður skapast.
    Ég ætla ekki að deila um það hvort þetta stangast á við stjórnarskrá eða ekki. Ég treysti allshn. Nd., og raunar allshn. beggja deilda, vel til þess að finna lausn á þessu máli. Hins vegar vil ég gjarnan láta koma fram þá skoðun mína að 11. maí væri vitaskuld langæskilegasti dagurinn, þó ekki væri nema af því að það er náttúrlega lokadagur í mörgum skilningi.