Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Halldór Blöndal (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur marglýst því yfir á Alþingi, bæði í Sþ. og eins hér í Ed., að hann telji sig ekki hafa lagaheimildir til þess að endurgreiða það gjald af erlendum lántökum vegna þriggja fyrirtækja í skipasmíðaiðnaði sem hér um ræðir. Þessi atkvæðagreiðsla jafngildir því og er yfirlýsing stjórnarmeirihlutans um að hann sé andvígur því að þessi fyrirtæki fái lántökugjaldið endurgreitt. Það er eftirtektarvert að íhuga hvaða þingmenn það eru sem haga sér með þessum hætti og það er líka eftirtektarvert að þessi ríkisstjórn hefur í smáu sem stóru svikið þau fyrirheit sem hún hefur gefið skipasmíðaiðnaðinum í landinu.