Kosningar til Alþingis
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Samkvæmt tilmælum virðulegs forseta vil ég mæla fyrir nál. allshn. Nd. Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt með tveimur breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Fyrri breytingin varðar þann fjölda kjósenda sem þarf til að lýsa stuðningi við framboð til þess að það sé löglegt, eins og að var vikið í máli hv. síðasta ræðumanns. Lagt er til að hámarks- og lágmarkstölur séu nokkuð hækkaðar. Seinni breytingin varðar lok kjörfundar. Lagt er til að kjörfundi ljúki í síðasta lagi kl. 22, eða 10 að kvöldi, en frv. miðaði við kl. 21. Um þetta urðu allir fulltrúar í hv. allshn. sammála en hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir var fjarverandi afgreiðslu málsins.