Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Atvmn. hefur fjallað um till. til þál. um heimilisiðnaðarráðgjafa. Í nál. frá hv. nefnd segir á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna. Á þessu stigi telur nefndin vera fullviðamikið að stofna embætti heimilisiðnaðarráðgjafa. Var ákveðið að breyta efni tillögunnar þannig að gerð yrði könnun á því hvernig mætti efla heimilisiðnað í landinu, að tilhlutan forsrh. í samráði við fræðsluyfirvöld, samtök listamanna og Heimilisiðnaðarfélag Íslands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Matthías Á. Mathiesen og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. rita nöfn sín Árni Gunnarsson, Geir Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Geir H. Haarde og Hreggviður Jónsson.
    Brtt. er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,1. Tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar að fela forsrh. að kanna, í samráði við fræðsluyfirvöld, samtök listamanna og Heimilisiðnaðarfélag Íslands, hvernig efla megi heimilisiðnað hér á landi. Helstu markmið verði eftirfarandi:
    a. Að kanna stöðu heimilisiðnaðar og minjagripagerðar á landsbyggðinni.
    b. Að leita uppi gamlan fróðleik um gerð ýmissa þjóðlegra muna með það að markmiði að þjóðleg handíð varðveitist og þróist áfram.
    c. Að kanna hvernig veita megi faglega ráðgjöf með því að efna til námskeiða þar sem kunnáttufólk leiðbeini um rétt vinnubrögð og handtök við gamla heimilisiðnaðinn og mikilvægi þess að nota hráefni sem er sérstakt fyrir Ísland.
    d. Að leggja sérstaka áherslu á vinnslu íslensku ullarinnar, t.d. með því að standa fyrir tóvinnunámskeiðum.
    e. Að sækja aðstoð til hönnuða og hugmyndasmiða í leit að nýsköpun í heimilisiðnaði.
    f. Að aðstoða fólk við fjármögnun og markaðssetningu.
    g. Að hafa samstarf við atvinnumálaráðgjafa þar sem þeir eru starfandi.``
    Í öðru lagi er gerð brtt. á þessa leið: ,,Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Till. til þál. um eflingu heimilisiðnaðar.``