Norræna ráðherranefndin 1990 - 1991
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samstarfsráðherra fyrir mjög ítarlega og greinargóða skýrslu um norrænt samstarf. Það eru aðeins örfá orð sem ég vil hér segja.
    Í fyrsta lagi varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi, að það kynni að vera heppilegra að tala fyrir öllum skýrslunum fyrst, áður en almenn umræða um hið norræna samstarf hefst. Ég vil taka undir þetta og það gæti verið okkur til athugunar svona fyrir seinni tíma að það er sjálfsagt heppilegra fyrirkomulag að gera þetta þannig.
    Hæstv. ráðherra nefndi tvær tillögur sem nú liggja fyrir Norðurlandaráði frá skipulagsnefndinni. Önnur er sú að utanríkisráðherrar landanna verði jafnframt samstarfsráðherrar. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að hann væri ekki hlynntur þessari tillögu og ég er það ekki heldur. Íslandsdeild Norðurlandaráðs ályktaði gegn þessu og ég tel það ekki heppilegt að ákveða það í reglum Norðurlandaráðs hvaða ráðherra skuli jafnframt vera samstarfsráðherra. Það hlýtur að vera miklu heppilegra að það sé ákveðið í hverri ríkisstjórn hverjir til þess eru hæfastir og hafa til þess rýmstan tíma að sinna samstarfsverkefnum á sviði Norðurlanda. Þetta vildi ég upplýsa að þarna erum við sammála.
    Einnig nefndi hann tillöguna um að fjármálaráðherrar ríkjanna verði ábyrgir fyrir norrænu fjárlögunum. Við erum einnig, Íslandsdeildin, andvíg þeirri tillögu. Ég held að hún sé í sjálfu sér ekki skynsamleg. Ég hugsa að það sé nú svo í öllum ríkjunum að fjármálaráðherrarnir hæstv. hafi nóg á sinni könnu yfirleitt og það sé á allan hátt eðlilegra að samstarfsráðherrarnir séu áfram sem hingað til ábyrgir fyrir þessum mikilvæga þætti.
    Mér þótti gott að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði varðandi Norrænu eldfjallastöðina og efast ekki um að hann muni á vettvangi ríkisstjórnarinnar beita sér fyrir lausn á því máli.
    Hæstv. ráðherra nefndi svo einnig stöðuveitingar hjá norrænu ráðherranefndinni og ég skildi hann svo að Ísland ætti þar heldur erfitt uppdráttar með að fá að njóta sannmælis, held ég að ég megi segja, og það sé vont til þess að vita, og er, að enginn Íslendingur gegnir nú hinum æðri stöðum hjá norrænu ráðherranefndinni. Mér sýnist satt að segja að það sé einhver svipuð hugsun í gangi á vettvangi Norðurlandaráðs, að Ísland sé þar sett til hliðar, og þetta er uppi núna í sambandi við formennsku í fastanefndum Norðurlandaráðs þar sem nú er búið að færa tillögugerð um það á vettvang flokkahópanna. Við höfum barist gegn þeirri breyttu skipan sem nú virðist eiga að koma á og það sýnist eins og afleiðingarnar af því að þessi tillögugerð fari í flokkahópana frá forsætisnefndinni og landsdeildunum að eitthvert land, og í þessu tilviki Ísland, verði alfarið sett til hliðar. Ég vonast til að við munum í sameiningu berjast gegn því að svona fari. Þetta er ekki sagt vegna þess að það sé eitthvert höfuðatriði að Íslendingar gegni hinum og þessum trúnaðarstörfum. Þetta er í fyrsta lagi táknrænt upp á samstarfið og það er jafnframt sönnun þess að við sitjum allir við sama borð en það fari ekki eftir stærð landanna eða fólksfjölda hvernig þessum trúnaðarstöðum er skipt.
    Ég legg sem sagt áherslu á að við bregðumst við þessu sem virðist vera þarna stefnumörkun hjá ýmsum vinum okkar á Norðurlöndum. Við eigum að berjast gegn því. Við eigum að leggja áherslu á, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar hér fyrr í dag, að halda við landsdeildunum meðan ekki er kjörið beinni kosningu til Norðurlandaráðs eins og kannski einhvern tíma verður. Ég er ekki að mæla með því en þær tillögur hafa heyrst á vettvangi Norðurlandaráðs að það eigi að kjósa beint til þings Norðurlandaráðs. En meðan það er ekki gert þá erum við fulltrúar þinganna hver og einn og myndum þannig landsdeildir og sendinefndir en eigum ekki að leysast upp í einhverja pólitíska flokkahópa þegar við komum til funda í Norðurlandaráði. Samstarf á þeim vettvangi er út af fyrir sig ágætt og ég er ekki að finna að því, en það á ekki að verða ráðandi um afstöðu í einu og öllu.
    Þetta vildi ég nú að kæmi fram, hæstv. forseti.