Norræna ráðherranefndin 1990 - 1991
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég hef litlu við að bæta. Ég minnist þess að hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir beindi til mín tveimur spurningum, sem mér láðist reyndar að svara. Þær voru var um málefni dansks stúdents sem býr hér á Íslandi og hafði sótt um styrk til Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Við höfum haft þetta erindi til sérstakrar athugunar og ég geri ráð fyrir því að við munum taka þetta mál upp á vettvangi samstarfsráðherra. Hins vegar er málið nokkuð snúið vegna þess að það er eiginlega ekki hægt að leysa þetta á annan veg en það verði gerður sérstakur sáttmáli meðal Norðurlandanna um það að norrænir ríkisborgarar gætu fengið námsstyrki hjá hverju Norðurlandanna sem þeir ættu búsetu í hverju sinni. Til þess að þetta geti náð fram að ganga þarf væntanlega að breyta löggjöf allra hinna Norðurlandanna þó svo það sé ekki alveg ljóst hvort það þyrfti að gera það hér á Íslandi. En að sjálfsögðu þyrfti þá að grandskoða þetta mál og ég mun beita mér fyrir því að þetta verði tekið til umræðu á vettvangi samstarfsráðherra.
    Á það hefur verið bent að sennilega mundu Íslendingar hagnast hvað mest á því að þetta næði fram að ganga af öllum Norðurlöndunum, þ.e. ef hægt væri að ná samkomulagi um það að norrænir ríkisborgarar gætu sótt um námsstyrki til jafns við þegna þess lands sem þeir dveldust í og hefðu fasta búsetu í.
    Hitt var varðandi menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi. Það er rétt að það er talað þar um að samningsaðilar krefji ekki hverjir aðra um greiðslu fyrir kennslu, kennsluefni og þess háttar sem nemendur frá öðrum norrænum ríkjum verða aðnjótandi. Ég er nú ekki viss um að þetta ákvæði sé mjög mikilvægt í þessu sambandi þó að það sé eitthvað um það að kennsluefni sé úthlutað frítt til nemenda í einhverju Norðurlandanna. Ég held að það sé þó mjög lítið um slíkt. En þetta er einfaldlega til að slá þann varnagla að ef um það sé að ræða að t.d. bækur eða annað námsefni sé afhent nemendum án þess að þeir þurfi að greiða fyrir það, þá verði gestur frá einhverju öðru Norðurlandi sem dvelur í slíkum skóla ekki krafinn um greiðslu, þ.e. hann njóti sömu réttinda og aðrir nemendur í þeim skóla. En þetta mundi ekki verða til þess að breyta þessu fyrirkomulagi eins og það er á Norðurlöndum yfirleitt, heldur var aðeins varnagli um þetta atriði sérstaklega.