Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fjölmargir aðrir þingmenn heyrði ég umfjöllun fjölmiðla um þessi málefni nú um helgina og þykir mér raunar ansi bratt að fara að fjalla um það hér á þingi. Hér er að vísu ekki um að ræða efnislega umræðu um skýrsluna en í umfjöllun Ríkisútvarpsins um helgina komu engu að síður fram veigamikil atriði er varða atvinnulíf og ábendingar sem full ástæða er til að ræða um á hér Alþingi, ekki síst þá staðhæfingu að í skýrslu Byggðastofnunar komi það fram að ef byggðakvóti hefði verið reglan í stað kvótakerfis sem við nú búum við, þá hefði hluti af þeim vandamálum sem Seyðisfjörð hafa hrjáð í atvinnumálum e.t.v. ekki komið upp. Ég vonast því til þess að þótt undir öðrum formerkjum verði muni verða fjallað um efni þessarar skýrslu og þá á efnislegan hátt en ekki vegna þess að efni hennar hefur lekið út í fjölmiðla. Og ég vonast til að við þingmenn, eins og aðrir, fáum skýrari hugmyndir um hvað í henni stendur þar sem þarna er að mati hæstv. forsrh. ekki um mál að ræða sem ástæða er til að hafa trúnað á öllu lengur.