Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að því er varðar það húsnæðislánakerfi sem komið var á fót árið 1986. Jafnframt eru lagðar til breytingar á lánskjörum að því er varðar aðilaskipti á lánum.
    Með þessu frv. er tekið á þeim vanda sem skapast hefur varðandi fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og margoft hefur verið vakin athygli á. Það er ljóst að ekki er unnt að búa lengur við það fyrirkomulag að bíða eftir lánum Byggingarsjóðs ríkisins í meira en þrjú ár, auk þess sem umsækjendur hafa þurft að búa við óvissu um það hvað gert yrði í málefnum Byggingarsjóðs ríkisins. Húsbréfakerfið hefur nánast yfirtekið alla þá fyrirgreiðslu sem unnt er að fá úr Byggingarsjóði ríkisins og því meira en tímabært að eyða í eitt skipti fyrir öll því óvissuástandi sem ríkt hefur frá því að brestirnir í húsnæðislánakerfinu frá 1986 komu í ljós í mars 1987.
    Fram eru komnar tillögur nefndar fjögurra ráðherra sem kveða skýrt á um hvernig taka beri á þessum vanda. Auk þess liggja fyrir skýrslur og athuganir tveggja nefnda sem skiluðu niðurstöðum sínum á síðasta ári þar sem eindregnar tillögur eru lagðar fram um leiðir til að forða Byggingarsjóði ríkisins frá gjaldþroti um næstu aldamót. Fyrir liggur álit Seðlabanka Íslands og Ríkisendurskoðunar sem leiða að sama marki.
    Ríkisstjórnin ákvað 20. des. 1990 að fela fjórum ráðherrum að gera tillögur um uppgjör húsnæðislánakerfisins frá 1986 og fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins með hliðsjón af tillögu forsrh. í ríkisstjórn 18. des. sl. Í nefndinni voru auk mín Guðmundur Bjarnason heilbrrh., Júlíus Sólnes umhvrh. og Steingrímur J. Sigfússon, landb.- og samgrh.
    Nefndin hafði til hliðsjónar skýrslur og tillögur tveggja sérfræðinganefnda sem falið hafði verið að leggja fram tillögur um hvernig bregðast skuli við fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins. Frv. byggir á niðurstöðum nefndarinnar. Það er tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að hætt verði að taka við umsóknum um lán úr almenna lánakerfinu frá 1986 og í öðru lagi eru gerðar breytingar á lánskjörum á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins allt frá 1. júlí 1984. Lagt er til að umsækjendum, sem bíða eftir afgreiðslu, verði gefinn kostur á að staðfesta umsóknir sínar, að öðrum kosti falli þær niður. Umsóknir sem verða staðfestar verða afgreiddar innan þriggja ára.
    Ég skipaði nefnd 21. mars 1990 sem fékk það verkefni að gera úttekt á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins með það að markmiði að leiða í ljós áætlaða meðalvexti á eignum og skuldum sjóðsins og rekstrarafkomu næstu árin. Á grundvelli þeirrar úttektar skyldu gerðar tillögur um leiðir til að koma jafnvægi á fjárhag sjóðsins. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum og tillögum 22. júní sl. Þar kemur fram að Byggingarsjóður ríkisins verður gjaldþrota um eða skömmu eftir næstu aldamót að öllu óbreyttu. Nefndin lagði það til að almenna lánakerfinu frá 1986 verði

lokað, þ.e. hætt verði að taka á móti umsóknum og einungis þeir umsækjendur afgreiddir sem fengið höfðu lánsloforð frá Húsnæðisstofnun. Nefndin lagði auk þess til að vextir af lánum sjóðsins frá 1. júlí 1984 verði hækkaðir í 5%.
    Ríkisendurskoðun komst að sömu niðurstöðu og nefndin, þ.e. að Byggingarsjóðurinn verði gjaldþrota um næstu aldamót, skv. skýrslu frá í september 1990 sem tekin var saman um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Ríkisstjórnin ákvað að fela starfshóp á vegum félmrn., fjmrn. og forsrn. að leggja mat á niðurstöður og tillögur nefndarinnar. Starfshópurinn var sammála nefndinni um að nauðsynlegt væri að loka lánakerfinu frá 1986 og hækka vexti í 5% á lánum Byggingarsjóðs ríkisins frá 1. júlí 1984 til að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins.
    Seðlabankinn lagði til 28. jan. sl. í umsögn sinni um útgáfu á 1. flokki húsbréfa 1991 að lánakerfinu frá 1986 verði lokað og þær lagabreytingar sem til þess þarf verði gerðar. Seðlabankinn telur það vandkvæðum háð að hafa tvö húsnæðislánakerfi í gangi á sama tíma. Allar umsagnir um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins beinast því að sama marki, að loka beri lánakerfinu frá 1986.
    Lánakerfið frá 1986 var hrunið 13. mars 1987, aðeins rúmum fimm mánuðum eftir opnun þess. Þá hætti húsnæðismálastjórn að afgreiða lánsloforð innan tveggja mánaða frá komudegi umsókna eins og lögin gerðu ráð fyrir. Sá lánsréttur sem lögin byggja á veitir öllum, óháð efnahags - og fjárhagsstöðu, rétt til láns svo framarlega sem þeir hafa greitt í lífeyrissjóð. Hér á landi hafði aldrei áður verið húsnæðislánakerfi sem gaf öllum rétt til slíks láns. Það kom líka á daginn að skyndilega fóru allir að huga að íbúðakaupum og biðröð myndaðist svo til strax. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í september, sem áður er nefnd, segir að margar af forsendunum að baki lánakerfinu hafi brugðist að verulegu leyti. Eftirspurn var meiri en áætlað var, vaxtamunur meiri en ráð var fyrir gert, framlög úr ríkissjóði lægri en reiknað var með auk þess sem fé vegna skuldabréfakaupa lífeyrissjóðanna skilar sér nokkru síðar en gert var ráð fyrir í upphafi.
    Hér vegur án efa þyngst að almenna lánakerfið frá 1986 kallaði á umsóknir. Lánskjör voru slík að mun fleiri en þeir sem þurftu á niðurgreiddum lánum Byggingarsjóðs ríkisins að halda sóttu um lán. Umsóknirnar eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast til Húsnæðisstofnunar. Umsóknunum er einungis skipt í tvo hópa, forgangshóp og víkjandi hóp. Þeir sem þurfa ekki á niðurgreiddum lánum að halda tóku því sama pláss í biðröðinni og hinir sem voru í húsnæðisvandræðum, enda spurðist það fljótt út að Húsnæðisstofnun væri að afgreiða hærri lán en áður þekktust á bestu kjörum sem í boði voru. Þetta kallaði á umsóknir langt umfram þörf.
    Þegar húsnæðismálastjórn hætti að afgreiða lánsloforð í mars 1987 var búið að ráðstafa öllu því fjármagni sem Húsnæðisstofnun hafði til umráða. Stjórnin varð því að loka kerfinu. Það var svo aftur opnað um næstu áramót, áramótin 1987 -- 1988, eftir að Alþingi hafði samþykkt frv. sem ég lagði fram þar sem stigið var fyrsta skrefið til að draga úr sjálfvirkni í húsnæðislánakerfinu. Hætt var að binda það í lög að umsækjendur ættu rétt á lánsloforðum innan tveggja mánaða frá komudegi umsóknar. Þess í stað var hafið að veita lánsloforð eigi síðar en ári áður en að lánveitingu kæmi. Fyrstu svör umsækjenda frá Húsnæðisstofnun urðu þar með einungis um það hvort viðkomandi umsækjandi væri lánshæfur samkvæmt gildandi lögum eða ekki. Með þessu var komið í veg fyrir að fjármagn Byggingarsjóðs ríkisins væri bundið langt fram í tímann. Ef þessi breyting hefði ekki verið gerð á almenna lánakerfinu frá 1986 og húsbréfakerfið hefði ekki komið til væri búið að binda allt lánsfjármagn Byggingarsjóðs ríkisins út árið 1995. Biðtími eftir lánum væri þá um fimm ár. Hver væri þá vandinn í húsnæðismálum í dag? mætti spyrja. Það væri búið að binda 25 milljarða kr. frá Byggingarsjóði ríkisins fimm ár fram í tímann. Biðtíminn væri því orðinn fimm ár. Og það er rétt að undirstrika það að þessi staða hefði verið óháð húsbréfakerfinu. Ef húsbréfakerfið hefði ekki komið til, ekkert verið að gert í þessum efnum, þá væri búið að binda 25 milljarða kr. frá Byggingarsjóði ríkisins fimm ár fram í tímann og biðtími sem fólki væri boðið upp á sem væri að koma sér þaki yfir höfuðið væri orðinn allt að fimm ár.
    Lánakerfið frá 1986 hafði slæm áhrif á fasteignamarkaðinn. Nýju fjármagni var beint á markaðinn sem hafði þær afleiðingar að íbúðaverð rauk upp. Sá ávinningur sem átti að vera af þeim háu lánum sem Húsnæðisstofnun veitti, því að vissulega voru lánin mun hærri en áður hafði verið, varð fljótlega að nánast engu. Það liggur fyrir að fjölmargir þeirra sem sótt hafa um lán vegna greiðsluerfiðleika frá Húsnæðisstofun á undanförnum árum höfðu fengið lán úr 1986 - kerfinu. Niðurstaðan er því sú að lánakerfið frá 1986 stóðst ekki þær forsendur og væntingar sem menn byggðu á. Meiru var lofað en unnt var að standa við og þess vegna hrundi kerfið á örfáum mánuðum. Það er ekki hægt að vera með húsnæðislánakerfi sem byggir á biðröð sem mæld er í árum. Auk þess er algerlega ófært að vera með húsnæðislánakerfi þar sem allir fara í röð og ekkert tillit er tekið til umsækjenda og aðstæðna þeirra, fyrir utan að skipta þeim niður eftir því hvort þeir hafa átt íbúðir áður eða ekki.
    Ég hef unnið að því frá því að ég kom í félmrn. að snúa við þessari þróun sem almenna húsnæðislánakerfið var komið í. Þar skiptir mestu máli að lögfest hefur verið almennt húsnæðislánakerfi, húsbréfakerfið, sem leysir 1986 - kerfið fullkomlega af hólmi. Með húsbréfakerfinu, sem var lögfest á árinu 1989, er horfið frá beinum lánveitingum hins opinbera vegna almennra fasteignaviðskipta. Þess í stað er greitt fyrir fasteignaviðskiptum með skuldabréfum sem bera ríkisábyrgð, svonefndum húsbréfum. Jafnframt hættir hið opinbera beinum niðurgreislum vaxta af almennum húsnæðislánum. Aðstoð sem hið opinbera veitir hefur verið færð yfir í skattakerfið með vaxtabótum sem

taka mið af eignum og tekjum viðkomandi.
    Vaxtabótakerfið er jöfnunarkerfi til hagsbóta fyrir fólk með lágar og miðlungstekjur og ólíkt því kerfi sem áður var þar sem allir sem fengu lán hjá Húsnæðisstofnun fengu niðurgreidda vexti og allir sem voru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð fengu húsnæðisbætur, óháð því hvort þeir voru með vaxtagjöld eða ekki.
    Húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar bárust 5.580 umsóknir um greiðslumat frá opnun kerfisins 15. nóv. 1989 til 31. des. 1990. Af þeim höfðu á sama tímabili 2.286 aðilar nýtt sér húsbréfakerfi til fjármögnunar við fasteignakaup. Um 40% af þegar útgefinni fjárhæð húsbréfa, sem er um 7,5 milljarðar kr., hefur ekki leitað út á markaðinn og er hlutur þeirra notaður áfram við fasteignaviðskipti eða geymdur sem sparnaður. Hin 60% hafa að stórum hluta verið notuð til að greiða skammtímalán í bönkum og lán lífeyrissjóða og því aukið ráðstöfunarfé banka og lífeyrissjóða. Einnig hafa íbúðakaupendur losað sig um leið við erfið og þung skammtímalán.
    Húsnæðisstofnun hefur gert samning við banka og aðrar fjármálastofnanir um að frá og með 15. apríl nk. hefjist móttaka umsókna í húsbréfakerfinu hjá þessum aðilum. Umsækjendur munu þá fá umsagnir um greiðslumat í bönkum og lánastofnunum.
    Húsbréfakerfið leysir lánakerfið frá 1986 fyllilega af hólmi eins og ég áður sagði. Það á einnig við um greiðslubyrðina. Greiðslubyrði vegna íbúðakaupa eftir því hvaða lánakerfi kaupandi nýtir sér er svipuð fyrir ódýrustu íbúðirnar en lægri í húsbréfakerfinu ef verð notaðra íbúða er yfir 5 millj. kr. Ástæðan er sú að íbúðakaupendur geta fengið hærra lán í húsbréfakerfinu og þurfa því síður á skammtímalánum að halda. Þá er ekki metið til fjár hvaða kostnaður leggst á íbúðakaupendur miðað við það að bíða í biðröðinni í 1986 - kerfinu.
    Ég gat þess í upphafi máls míns að frv. þetta byggir á niðurstöðum nefndar fjögurra ráðherra sem falið var að gera tillögur um uppgjör húsnæðislánakerfisins frá 1986 og fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins. Nefndin lagði fleiri tillögur fyrir ríkisstjórnina en þær sem birtast í þessu frv. Nefndin lagði til að tryggt verði að lánshlutfallið í húsbréfakerfinu vegna nýbygginga verði ekki skert á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið. Lánshlutfall verði einungis skert með tilliti til markaðsverðs í undantekningartilvikum og að höfðu samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Hér er um reglugerðarákvæði að ræða varðandi húsbréfadeild og húsbréfaviðskipti en unnið er að reglugerðinni í félmrn. og mun hún verða gefin út næstu daga. Einnig mun verða að finna í þeirri reglugerð hærra lánshlutfall í húsbréfakerfinu til þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, eða úr 65% í 75%.
    Ráðherranefndin lagði einnig til að gripið yrði til sérstakra aðgerða til að auðvelda þeim sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð enn frekar en gert er.
    1. Að gert verði átak til byggingar félagslegra íbúða og veitt verði fjármagn til byggingar 800 -- 1000 félagslegra íbúða á ári næstu þrjú árin.

    2. Þeir íbúðakaupendur sem festa kaup á sinni fyrstu íbúð fái greiddar hærri vaxtabætur úr ríkissjóði en núgildandi lög og vaxtabætur ákvarða á fyrsta ári eftir kaupin. Þessar sérstöku greiðslur
verði tekju - og eignartengdar þannig að lágtekju - og meðaltekjufólk njóti þeirra sérstaklega. Heildarfjárhæð verði allt að 100 millj. kr.
    Þessar tillögur eru nú í undirbúningi í fjmrn. og vonandi verður frv. um það efni lagt fram á yfirstandandi þingi.
    Nefndin lagði einnig áherslu á að greiddar verði húsaleigubætur til leigjenda í gegnum skattakerfið líkt og vaxtabætur til íbúðareigenda. Þær hugmyndir eru einnig í undirbúningi í fjmrn. og vonandi verður hægt að leggja frumvarp fram um það fljótlega hér á hv. þingi.
    Ég mun nú fara nokkrum orðum um efni og einstakar greinar frv. Kveðið er á um breytt hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins, þar sem hann mun eftirleiðis aðeins vera með takmarkaðar lánveitingar til sérstakra hópa og annast þau lán sem veitt hafa verið. Ákvæði um samninga við lífeyrissjóði til tveggja ára falla niður þar sem það er ekki lengur nauðsynlegt. Núgildandi lánaflokkar Byggingarsjóðs ríkisins, að þremur undanskildum, eru felldir niður. Haldið er opinni leið til að ákveða nýjan lánaflokk í Byggingarsjóði ríkisins.
    Þá er fjallað sérstaklega um þá lánaflokka er eftir standa, sem eru lán til stofnana fyrir börn og aldraða, lán til einstaklinga með sérþarfir og lán og styrkir vegna tækninýjunga. Nánar er fjallað um þessa lánaflokka í reglugerð.
    Kveðið er á um að lánsréttur falli brott og enn fremur að lán til nýrra og notaðra íbúða falli brott. Er það í samræmi við að 12. gr. laganna falli niður. Lagt er til að sú breyting verði gerð á lánskjörum að ríkisstjórninni verði heimilt að ákveða að vaxtakjör breytist á lánum er nýir eigendur íbúða yfirtaka þau sem áhvílandi lán. Þessi ráðstöfun mun ekki nægja til að rétta af fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins nema á mjög löngum tíma og því lagði ráðherranefndin til að vextir af öllum lánum Byggingarsjóðs ríkisins yrðu hækkaðir 10 árum eftir stofndag láns. Það þýðir að komist þetta til framkvæmda mundu vextir af lánum sem voru tekin 1984, voru með stofndag 1984, hækka 1994, lán með stofndag 1985 mundu hækka 1995 og síðan koll af kolli. Ástæða þess að þetta kemur ekki fram í frumvarpsgreinunum er að ekki þarf lagabreytingu til þess að hrinda slíku í framkvæmd. Hér væri fyrst og fremst um að ræða ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
    Í ákvæðum til bráðabirgða er tekið sérstaklega á málum þeirra umsækjenda sem eru í biðröðum og hafa fengið lánsloforð eða bíða eftir þeim. Ráðherranefndin var sammála um að taka sérstaklega á málum þessa fólks með því að halda opinni leið til lánveitinga fram til 1. mars 1994 fyrir þessa umsækjendur. Þeir sem þegar hafa fengið lánsloforð fá sín lán afgreidd en þeir sem ekki hafa fengið staðfestingu á greiðslu láns þurfa hins vegar að staðfesta umsóknir

sínar skriflega innan þriggja mánaða frá tilkynningu þessa efnis frá Húsnæðisstofnun ríkisins. Nauðsynlegt er að umsóknirnar séu staðfestar til að í ljós komi í raun og veru hversu margir eru enn í biðröðinni og hafa ekki hætt við íbúðakaup eða farið yfir í húsbréfakerfið. Gert er ráð fyrir að þeir umsækjendur sem staðfesta umsóknir sínar afsali sér rétti til húsbréfa þann tíma sem umsóknir þeirra bíða afgreiðslu. Stefnt verður að því að afgreiða umsóknirnar innan þriggja ára.
    Í tengslum við framangreind lán er nauðsynlegt að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins til að unnt sé að veita umrædd lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Það mun fara eftir samningum Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóðina hve fljótt verður hægt að afgreiða þessar umsóknir. Samningar við lífeyrissjóðina eru því í raun forsenda fyrir því að hægt sé að afgreiða umsækjendurna í biðröðinni og hlýtur að vera háð því skilyrði að slíkir samningar takist. Um 2.700 umsóknir eru í forgangsröð í biðröðinni og er áætlað að um 6 milljarða kr. þurfi til að afgreiða þær umsóknir. Í víkjandi hópi eru um 2.300 umsóknir og er áætlað að um 4 -- 5 milljarða þurfi til að afgreiða þær. Samtals þarf því 10 -- 11 milljarða kr. til að afgreiða þær umsóknir sem bíða afgreiðslu og hafa ekki verið afgreiddar með lánsloforðum.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum í þessu frumvarpi. Ég vona að þó að skammt sé eftir af þingi verði hægt að afgreiða það fyrir þinglok. Ég tel að það sé mikið í húfi að snúa við hjólinu og byrja að taka á þeim fjárhagsvanda sem Byggingarsjóður ríkisins stendur frammi fyrir og eyða þeirri óvissu sem umsækjendur sem eru í biðröðinni hjá Húsnæðisstofnun ríkisins eru í. Ég tel að í þessu frumvarpi séu leiðirnar til þess og því vænti ég þess, þó skammt sé eftir af þingi, að Alþingi sjái ástæðu til að afgreiða þetta mál núna fyrir þinglok.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.