Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst ítreka það sem ég sagði hér áðan til að ekki fari milli mála að við fulltrúar Sjálfstfl. í þeim starfshópi eða þeirri nefnd sem undirbjó langtímaáætlun gerðum sérstaka bókun af því tilefni að ákvarðanataka var tekin úr höndum nefndarinnar og tilkynnt af formanni nefndarinnar að ríkisstjórn og stjórnarflokkar mundu taka ákvörðun um öll meginatriði og raunar öll atriði smá og stór sem vörðuðu langtímaáætlun. Af þeim sökum gerðum við svohljóðandi bókun:
    ,,Þar sem ráðherra hefur tekið ákvörðun um að leiðir til fjáröflunar og skipting fjármagns milli rekstrar - og fjárfestingarliða skuli vera í höndum ríkisstjórnar og stuðningsflokka hennar á Alþingi lýsum við fulltrúar Sjálfstfl. yfir að við lítum svo á að ráðherra og ríkisstjórn vilji ekki lengur leita eftir pólitískri samstöðu um gerð vegáætlunar og langtímaáætlunar um vegagerð. Við áskiljum okkur rétt til að endurmeta stöðu okkar í þessari nefnd út frá breyttum forsendum.``
    Þetta var gert í Reykjavík 13. febr. 1991.
    Eftir að þessi bókun var gerð átti nefndin einn fund eins og ég sagði áðan. Sá fundur var eingöngu til þess að ganga frá þeim ákvörðunum sem teknar höfðu verið í ríkisstjórn og stjórnarflokkum og það er af þeim sökum ekki hægt að líta svo á að till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994 né heldur till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð sé störf nefndarinnar, heldur eru þetta ákvarðanir sem teknar voru af ríkisstjórn og að frumkvæði hæstv. ráðherra.
    Á fundi nefndarinnar skömmu áður, hálfum mánuði, má ég segja, áður en þessi bókun var gerð, voru okkur kynntar tillögur sem hæstv. samgrh. sagðist mundu bera upp í ríkisstjórn. Síðan féll fundur niður eina vikuna til þess að ríkisstjórnin gæti áttað sig á málinu og þá var tekin ákvörðun um að haga málum með þeim hætti sem við sjáum hér á þskj. 716 og 735.
    Ég vil vekja athygli á því að í greinargerð og athugasemdum með tillögunum er ekki gerð nákvæm grein fyrir því hvernig eigi að standa að tekjuöflun fyrir vegáætlun. Þar er heldur ekki minnst einu einasta orði á þær athugasemdir sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu að gera við þá tekjuáætlun sem lögð er til grundvallar í fjárlögum og jafnframt er lögð til grundvallar hér í þeim þingskjölum sem liggja fyrir.
    Við nefndarmenn áttum fund með hæstv. fjmrh. og Þórarni V. Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, og Ásmundi Stefánssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, niðri í Arnarhváli þar sem þeir lýstu því yfir, hinir svokölluðu þjóðarsáttarmenn, að þeir gætu ekki fellt sig við að bensíngjald og álögur á umferðina hækkuðu meira en næmi almennum hækkunum eins og um þær hafði verið talað í samkomulaginu fyrir einu ári.
    Samkvæmt fjárlögum liggur það fyrir að bensíngjald eigi að hækka um 15% frá áramótum. Nú er það komið í ljós að ríkisstjórnin treysti sér ekki til

þess að hækka bensíngjaldið um 5% hinn 1. jan. sl., eins og ákveðið hafði verið, og eftir þeim upplýsingum sem ég hef nýjastar hefur bensíngjaldið verið hækkað um 3% eða minna heldur en segir í forsendum fjárlaga, en á hinn bóginn kom það fram hjá hæstv. samgrh. að hugmyndir hans séu þær að hækka álögur á umferðina þeim mun meir síðari huta ársins og þá sérstaklega eftir að þjóðarsáttarsamningarnir eru útrunnir, hinn 1. sept. nk. Þessi tekjuáætlun ber það jafnframt með sér að hugmyndin er að hækka mjög verulega álögur á umferðina á næsta ári.
    Ég vil vekja athygli á því sérstaklega að nýtt bensín er komið á markað hér frá því á síðari hluta sl. árs, 85 oktana bensín sem er blýlaust. Mér er ekki kunnugt um hvernig bensíngjald er lagt á það bensín, en hitt er rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að það er talað um slaka á mörkuðum tekjustofnum. Í greinargerð er talað um að þessum slaka verði náð upp á árinu 1992. Við erum hér að tala um verulegar hækkanir á bensíni, skattahækkanir hreinar, nýjar álögur á fólk í landinu, sem eru lagðar til grundvallar í þessari vegáætlun. Ef við reynum að átta okkur á því hvernig þessi nýja skattahækkun kemur til annars vegar í bensíngjaldi og þungaskatti er hægt að hafa það til leiðbeiningar að á þessu ári er annars vegar gert ráð fyrir því að 350 millj. kr. komi beint úr ríkissjóði í Vegasjóð. Hins vegar er ákveðið að hækka skatta um 150 millj kr. með því að fjölga innheimtudögum á þungaskatti. Með öðrum orðum: 150 millj. kr. nýr skattur á umferðina sem felst í þessu frv. með því að fjölga greiðsludögum á þungaskatti.
    Ég heyrði það viðhorf í nefndinni að þeir sögðu að það væri ekki að þyngja skattheimtu að fjölga greiðsludögum. Það er svona skemmtilegur útúrsnúningur. Ef skattheimtan er sú sama á þessu ári eftir sem áður, þá þurfa þegnarnir væntanlega að borga sömu upphæð til ríkisins og áður. Ef þegnarnir þurfa að borga 150 millj. kr. í viðbót, þá er það auðvitað þynging á skattbyrði. Það er það sem við erum hér að tala um. Síðan erum við að tala um það að bensíngjaldið eigi að hækka meira en nemur þjóðarsáttarsamningum. Og ekki nóg með það. Við erum líka að tala um það að verulegar hækkanir verði á bensíngjaldinu og á þungaskattinum eftir 1. sept. í haust. Við erum að tala um að það eigi að skylda alla þá sem greiða þungaskatt til þess að setja nýja mæla í bílana sína sem kosta 24 -- 25 þús. kr. á hvern einasta bíl í landinu. Þetta eiga menn að bera bótalaust og síðan er því haldið fram að svo og svo margir af atvinnubílstjórum séu skattsvikarar og því er haldið fram að hægt sé að auka tekjur ríkissjóðs mjög verulega með því að skipta um mælana og með því að ná inn þungaskatti sem svikinn hefur verið undan á sl. árum. Ekki skal ég um það segja en hitt liggur ljóst fyrir að það er á þessum forsendum sem tekjuáætlunin er reist.
    Ég lýsti því yfir og við Sturla Böðvarsson að við mundum ekki geta fallist á þyngingu skatta, en það er auðvitað eðlilegt. Ég veit ekki hvort ég á að viðhafa rök þeirra þjóðarsáttarmanna, Vinnuveitendasambands

og Alþýðusambands. Þeir bentu hæstv. fjmrh. á að það væri ætlast til þess af launafólki að það sætti sig við mjög óverulegar prósentuhækkanir nú á þjóðarsáttartímanum og það dygði náttúrlega ekki að ríkisstjórnin og hæstv. samgrh. ætlaði sér að taka tvöfalt meira til sín.
Það dugir heldur ekki, eins og samgrh. er farinn að haga sér, að vísa til þess að það sé óhætt að hækka svo og svo mikið hvað eina strax eftir 1. sept. af því það sé utan við ramma þjóðarsáttar. Hann er þegar búinn að standa að því með hæstv. fjmrh. að gera samninga um hækkun á launum til flugumferðarstjóra í haust um, ef ég man rétt, 5% og um 8% í byrjun næsta árs, en hvort tveggja á að vera umfram önnur laun í landinu. Hann er nú þegar búinn að semja um það að eftirlaun flugumferðarstjóra skuli hækka um 45% á sama tíma og aðrir verða að sætta sig við þjóðarsáttina. Það sem er kannski verst í þessu öllu saman erþað að að þessir dæmalausu samningar við flugumferðarstjóra voru gerðir og undirskrifaðir á sama tíma og mál Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna var fyrir héraðsdómi. Á sama tíma og fjmrh. átti í málaferlum við háskólamenntaða menn, þar sem hann krafðist þess að laun þeirra yrðu innan ramma þjóðarsáttar, var fyrir atbeina samgrh. gerður samningur við flugumferðarstjóra um meiri hækkanir en nam þjóðarsáttarsamningum, meðan málaferlin stóðu yfir, meðan beðið var dóms. Slík var ósvífnin og ósvinnan. Þetta er um tekjuhliðina.
    Ég geri ráð fyrir því að margir alþingismenn séu mér sammála um það að langtímaáætlun sem byggir á þeim almennu markmiðum sem lýst er í grg. með till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð er óraunhæf í tíma, einfaldlega vegna þess að þar er gert ráð fyrir þvílíkum framkvæmdum að ekki er við því að búast að hægt verði að ráðast í þær allar og ljúka þeim í því sem við getum kallað fyrirsjáanlegri framtíð. Þegar horft er til Íslandskorts á bls. 14, korts þar sem lýst er vegaframkvæmdum 25 til 30 ár fram í tímann, kannski lengra, hljótum við að sakna ýmissa framkvæmda sem ekki eru taldar upp þar. Ég vil taka sem dæmi: Ekki náðist samkomulag um það að taka inn veg yfir Öxarfjarðarheiði sem styttir veginn fyrir um fimmtán hundruð manns frá Vopnafirði til Þórshafnar um 80 km eða svo. Ekki er gert ráð fyrir því að leggja bundið slitlag milli Norðurlands og Suðurlands, háfjallaveginn þar, á næsta aldarfjórðungi, sem er auðvitað algjörlega óviðunandi sömuleiðis. Og ég vil líka vekja sérstaka athygli á því að í þessari langtímaáætlun er ekki séð hvernig eigi að ná viðunandi tengingu á milli norðausturhornsins og Austurlands og er ég þá að tala um svæðið frá Vopnafirði til Norður-Þingeyjarsýslu. Það er ekki einu sinni svo í þessari langtímaáætlun, sem lögð er hér fyrir, að nefndin hafi treyst sér til þess að setja sér nein markmið varðandi þá sjálfsögðu framkvæmd að unnt verði að ljúka vegi hringinn í kringum landið. Það er ekki einu sinni að tímamörk á því að ljúka hringvegi séu inni á þessari langtímaáætlun. Svo fjarri lagi er að segja þess vegna að við séum hér að tala um eitthvað sem sé

skýrt, glöggt eða ásættanlegt.
    Ég geri mér vel grein fyrir því að það ósamkomulag, sem fram eftir þessu ári var innan ríkisstjórnarinnar, sennilega fram í febrúarmánuð, um það hversu miklu fé skyldi varið til vegagerðar á þessu ári olli miklu um það hversu seint gekk að komast áleiðis. Einnig hitt að vinnubrögð voru með þeim hætti að erfitt var að fá úr því skorið hver væri vilji stjórnarsinna, en eins og ég hef lýst þá starfaði nefndin yfirleitt á þeim grundvelli og er kannski ekki við því að segja.
    Ég tek undir með hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni þegar hann gagnrýnir það hversu hægt hefur gengið nú hin síðustu ár í sambandi við útlögn á bundnum slitlögum. Það er ekki nokkur vafi á því að stefna í vegamálum sem er reist á því að draga áfram úr því að hægt sé að ganga frá vegum, leggja á þá bundin slitlög, slík stefna er ekki í takt við tímann. Slíka stefnu verður að endurskoða frá rótum, hún getur einfaldlega ekki staðist.
    Í Norðurlandskjördæmi eystra var það svo á árinu 1989 að lagt var bundið slitlag á 6 km, á 14 km á sl. ári. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að ástæðan er að sumu leyti sú að við réðumst í hið mikla verkefni, Ólafsfjarðarmúla. En við skulum þá líka gera okkur grein fyrir því að nú fyrst á Vestfjörðum og síðar á Austfjörðum er gert ráð fyrir því að ráðast í sambærileg verkefni sem munu taka meira á heldur en Ólafsfjarðarmúlinn norðan lands og munu auðvitað valda því að bundin slitlög munu dragast mjög aftur úr á næstu árum.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Þessi mál eiga eftir að skýrast í þingnefndum. Það er auðvitað uppi nokkur áherslumunur meðal einstakra þingmanna hvar fyrst og fremst sé rétt að ráðast í verkefnin, en eins og áður er það áberandi að sums staðar er torvelt að sjá framhaldið þar sem hagsmunir tveggja kjördæma eru með ólíkum hætti. Ég vil af þeim sökum leggja sérstaka áherslu á tengingu Norðurlands og Austurlands. Ég vakti máls á því í nefndinni að annað væri óviðunandi en að þess kafla yrði sérstaklega getið ef einhver sjónarmið kæmu frá nefndinni allri. Um slíka ritgerð var ekki að tefla. Á hinn bóginn féllst meiri hlutinn á að nokkur orð kæmu um tengingu Norður- og Austurlands en því var hins vegar algjörlega hafnað að taka inn hugmyndir um veg yfir hálendið eða veg yfir Öxarfjarðarheiði og harma ég það.