Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt að rétt væri nú að spyrna við fótum. Ég átti nokkuð lengi sæti í Norðurlandaráði en á það ekki lengur og þekki því ekki svo gjörla til baksviðs þeirra atburða sem hér hafa gerst. Hitt veit ég að lengi hefur sú skoðun verið uppi hjá bræðraþjóðum okkar þar að flokksböndin ættu þar að ráða meiru heldur en þjóðernið. Það er ekkert ný skoðun. Við Íslendingar höfum hins vegar, að ég hygg, alla tíð verið sammála um að horfa á þetta á annan veg og þess vegna hefur kannski stundum orðið ágreiningur innan flokkahópanna einmitt vegna þessarar sérstöðu okkar sem ég hygg að sé óbreytt enn þann dag í dag. En ástæðan til þess að ég bað um orðið hér var fyrst og fremst sú að gera athugasemd við það sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér, að norrænir sósíaldemókratar eða jafnaðarmenn hefðu ekki viljað styðja hv. þm. Sighvat Björgvinsson. Hv. þm. Páll Pétursson kýs að orða þetta svona, en auðvitað er honum jafnljóst og mér og okkur hér öðrum að þetta var ekki spurning um einstaklinga. Þetta var spurning um lönd. Ég þekki ekki þau rök sem liggja að baki þessari ákvörðun og ætla ekki með neinum hætti að bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun sem þarna virðist hafa verið tekin, einfaldlega vegna þess að ég er ekki sammála. Ég tel að hún hafi verið röng og ég tel að forsenda þess að við tökum þátt í þessu samstarfi sé auðvitað sú að við gerum það á fullkomnum jafnréttisgrundvelli við aðra.