Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja að það sem gerðist á Norðurlandaráðsfundi núna ætti ekki að koma neinum á óvart ef menn hugleiða það hver er þróun í alþjóðamálum í heiminum. Það var sagt hér áðan af einum hv. þm. að grundvöllur Norðurlandaráðs byggðist á samstarfi fimm sjálfstæðra ríkja. Frummælandi fyrir þeirri fyrirspurn sem borin var fram hér áðan, Matthías Mathiesen, vísaði til ársins 1952 um þetta atriði. Hv. þm. hljóta að hafa gert sér grein fyrir því hér fyrir löngu síðan að sjálfstæðishugtakið á þessari forsendu hefur verið að taka á sig mjög breytta mynd í Vestur - Evrópu á síðustu árum, þar á meðal einnig á Norðurlöndum. Hugsjónir Evrópubandalagsins, útfærsla og framkvæmd, stríða á móti gömlu þjóðríkjakenningunni. Þetta er augljóst mál.
    Ef haft er í huga að Danir eru orðnir aðilar að Evrópubandalaginu, Svíar stefna inn í Evrópubandalagið og Norðmenn eru tvístígandi, þá er það auðvitað rökrétt og eðlilegt að þessar þjóðir leggi minni áherslu á þátttöku og samstarf á Norðurlöndunum. Áherslur eru að breytast og þar með samstarfsform. Þetta sést m.a. í nánu samstarfi flokka á alþjóðlegum grundvelli og vísa ég sérstaklega til samstarfs sósíaldemókrata í Vestur - Evrópu á síðustu áratugum. Þeir sem hafa tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi í Evrópu, hvort sem það er í EFTA eða verkalýðshreyfingunni, hafa tekið eftir því að t.d. samstarf sósíaldemókrata í Evrópu er miklu nánara á flokkslegum grundvelli heldur en þjóðríkjagrundvelli. Það er hverjum manni ljóst.
    Það sem að mínu mati er að gerast í Norðurlandaráði er þess vegna rökrétt afleiðing þeirrar framþróunar sem er í Vestur - Evrópu. Það er svo annað mál hvort við viljum sætta okkur við þessa þróun eða ekki. Íslendingar vilja samstarf en ekki samruna. Þess vegna hljótum við auðvitað að mótmæla því sem gerðist í Norðurlandaráði. En þetta undirstrikar mikilvægi þess að Íslendingar gangi ekki inn í Evrópubandalagið eða svo nærri því að flokksbönd ráði en ekki sjónarmið sjálfstæðra þjóðríkja.