Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Frú forseti. Við lok þessarar umræðu vildi ég rétt láta þess getið að þegar samstarfsráðherrarnir komu saman til þess að ræða stöðuna í ljósi þess að ég taldi mig ekki geta ritað undir þessar breytingar, þetta samkomulag, nema með fyrirvara, þá var að sjálfsögðu um það rætt hvert framhaldið skyldi verða. Það er alveg ljóst að Íslendingar þurfa nú að taka nokkurt frumkvæði og knýja fram breytingar sem eru okkur að skapi. Þess vegna hvet ég fulltrúa okkar í stjórnarnefnd Norðurlandaráðs til þess að vinna hörðum höndum að því að fá í gegn nýjar tillögur um orðalag á 52. gr. Við verðum síðan öll að standa saman sem einn maður við það að koma þeim í gegn og fá þær samþykktar.
    En ég vildi svo að lokum geta þess, af því að hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir vék að því, að á fundi samstarfsráðherranna var samþykkt tillaga þess efnis að styrkja vestnorræna samstarfið og samþykkt að skipa sérstaka vinnunefnd til þess að undirbúa tillögur um það efni.