Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Svo virðist sem hér sé nú kominn á framboðsfundur á Suðurnesjum eða í Reykjaneskjördæmi og er það út af fyrir sig vel. Þetta er ágætis vettvangur til slíks. Ég ætlaði hins vegar að leggja örfá orð í belg út af atvinnumálunum sérstaklega en ekki kannski endilega halda hér neina framboðsræðu. Mig langar til að gera eina athugasemd. Hún varðar þann misskilning sem felst í fyrirspurninni, að ríkisvaldið eitt sér skaffi öllum atvinnu. Atvinna skapast fyrst og fremst fyrir frumkvæði einstaklinganna. Það sem ríkisvaldið þarf að gera er að skapa einstaklingunum þann ramma sem gerir þeim kleift að vera með eðlilega og öfluga atvinnuuppbyggingu.
    Hins vegar er það alveg ljóst og ég er að því leytinu til sammála fyrirspyrjanda að við hljótum að gera ráð fyrir því að það verði verulegur samdráttur í herafla varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar sé ég það fyrir mér að á Keflavíkurflugvelli verður um alla framtíð rekin öflug eftirlits - og varnarmiðstöð. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að Íslendingar geti í mjög auknum mæli tekið við þeim störfum sem nú eru unnin af liðsmönnum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.