Vestnorrænt ár 1992
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á aðalfundi Vestnorræna þingmannasambandsins í Stykkishólmi 1989 var samþykkt áskorun á landsstjórnir Færeyja, Grænlands og Íslands að gera árið 1992 að sérstöku vestnorrænu ári. Megináherslan yrði lögð á jafnréttismál karla og kvenna, umhverfismál og æskulýðsmál. Ráðstefna um jafnrétti verði haldin á Íslandi, ráðstefna um umhverfismál á Grænlandi og um æskulýðsmál í Færeyjum. Enn fremur skoraði ráðið á stjórnvöld þessara landa að veita nægilegt fé til þessara mála og tilnefna hvert einn fulltrúa til að undirbúa vestnorrænt ár 1992.
    Vestnorræna þingmannasambandið samþykkti einnig á þessum fundi að skora á landsstjórnir Grænlands, Færeyja og Íslands að fylgja eftir ályktun nr. 4 sem samþykkt var á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Nuuk 1988 en þar lýsti ráðið áhyggjum sínum af hernaðarumsvifum í Norður - Atlantshafi og hvatti stjórnvöld viðkomandi landa til að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem birtust í ályktuninni, m.a. með því að kalla strax til hóp sérfræðinga til að annast umhverfisvandamál sem um var getið í þessari ályktun. Ráðið skoraði því á landsstjórnir Grænlands og Færeyja og ríkisstjórn Íslands að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að beita stórveldin þrýstingi í því skyni að flýta afvopnun á Norður - Atlantshafi.
    Í Þórshöfn á fundi Vestnorræna þingmannasambandsins sl. haust var sömuleiðis samþykkt ályktun sem umhverfisnefnd þess þings samdi. Umhverfisnefndin leggur áherslu á fundi sínum á að haf, land og loft í þessum löndum sé mjög lítið mengað miðað við aðstæður á mörgum stöðum í heiminum og leggur áherslu á að við sem byggjum þessi þrjú lönd verðum að standa vörð um umhverfi okkar, en í löndum okkar er náttúran mjög viðkvæm og henni má ekki spilla. Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hæstv. umhvrh. með tilliti til þessarar umhverfisráðstefnu sem á að halda:
    Hvað líður undirbúningi af Íslands hálfu undir ráðstefnu á Grænlandi um umhverfismál og hefur verið skipaður fulltrúi af Íslands hálfu í undirbúningsnefnd fyrir vestnorræna árið?