Ferðaþjónusta
Mánudaginn 11. mars 1991


     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Á síðasta fundi gerði ég þetta frv. að umtalsefni á breiðum grundvelli og sýndi fram á að hér er farið fram á það að ferðamálum verði breytt með þeim hætti að ríkið komi inn á nánast öll svið ferðamála. Hér er um mikla ofstjórnartilhneigingu að ræða sem nauðsynlegt er að brjóta til mergjar í meðferð nefndarinnar á þessu frv.
    Ég vil, herra forseti, af því tilefni ítreka fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra um það hvaða upplýsingar Hagsýslustofnun hafi gefið um þann kostnaðarauka sem þetta frv. hefur í för með sér. Ég á að vísu ekki von á því að hæstv. ráðherra hafi þau gögn við höndina nú, geri raunar ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi beðið Hagsýslustofnun um téðar upplýsingar, en það mun koma í ljós nú á fundinum.