Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Þetta mál kemur mér að óvörum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að á síðustu dögum þingsins yrði farið að reyna að gera breytingar á stjórnarráðslögum. Þau eru í mínum huga meira virði heldur en svo að hægt sé að hlaupa til þess vanhugsað eða óhugsað. Ég hlustaði að vísu á þessi fáu orð ráðherrans og gæti verið sammála því að það megi gjarnan huga að þessu máli, en ég held að það verði ekki gert alveg upp úr þurru. Raunar hef ég heyrt fleygt hugmyndum fleirum en þessari um breytingar á stjórnarráðslögum og stjórnarháttum og mundi mælast til að þetta gengi nú helst ekki mikið lengra. Það er kannski saklaust að frv. fari til nefndarinnar en ég held að það þurfi skoðunar við þó það líti sakleysislega út.
    Hér áður fyrrum tók það venjulega mjög mörg ár að átta sig á því þegar gerðar voru umbyltingar á stjórnarráðslögum. Það eru auðvitað þau sem næst standa stjórnarskránni. Það er æðsta stjórnskipun landsins og þess vegna á ekki að vera með neinar skyndiákvarðanir í því efni eða flaustra málum af. Það er nóg upplausn í þjóðfélaginu, ekki síður á sviði laga og réttar en á öðrum sviðum. Það er ekki heilbrigt eða eðlilegt að gera slíkar breytingar án þess að það sé rækilega rætt. Við erum núna að breyta til um störf Alþingis. Það eru lagðar til mjög viðamiklar breytingar og meira en nóg í mínum huga að sinna því núna. Það orkar tvímælis t.d. hvort leggja ætti niður aðra deild þingsins, þá æðri og betri, okkar deild, en ég hef fallist á að styðja það, ekki vegna þess að ég sé neitt sannfærður um að starfshættir í þinginu verði betri eftir en áður, efast mjög um það. Við eigum ekki að breyta til um æðstu stjórnskipun ríkisins í fljótræði og þess vegna legg ég til að mál þetta fái góða athugun í nefndinni ef einhver tími verði til þess, annars muni þetta frestast.