Samningar um álver
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir (frh.) :
    Virðulegur forseti. Þegar ég lauk máli mínu í gærkvöldi átti ég örlítið vantalað við hæstv. fjmrh. og hæstv. umhvrh. Ég sé að hæstv. fjmrh. hefur brugðið sér frá en ég hafði reiknað með að hann yrði hér. Er hann kannski farinn úr húsinu? ( Forseti: Nei, nei. Forseti vill upplýsa að hæstv. fjmrh. er hér í húsinu.) Þá hlýtur hann að láta sjá sig fljótlega. Þá hefði ég viljað snúa mér fyrst að hæstv. umhvrh. þar sem hann er hér staddur.
    Ég fór í fyrri hluta ræðu minnar örlítið í gegnum málið og minntist örlítið á umhverfismálin þar sem þau eru sá hluti þessa máls sem hefur alls ekki verið haldið nógu vel á. Þau mál voru í upphafi í höndum hæstv. iðnrh. eða iðnrn. en eru nú í höndum umhvrn. Að því er mér sýnist og fram kom reyndar strax í skýrslum sem hér voru bornar fram og í þeim fréttum sem birst hafa í fjölmiðlum virðist vera um stöðugt undanhald að ræða af hálfu umhvrn.
    Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með framgöngu umhvrn. í þessu máli þar sem ég hafði vænst þess að þegar komið væri á stofn umhvrn. hér á landi þá mundi þessum málum verða sinnt af einhverjum myndarskap og á þeim tekið með þeim hætti að eftir yrði tekið og einhver stefnubreyting yrði.
    Ég vil minnast örlítið á þá þætti umhverfismálanna sem illa hefur verið á haldið. Flúor er hættulegasta efnið sem kemur frá álbræðslu þessari. Bæði fyrir dýr og plöntur. Það er kannski lengst reynsla af því að hreinsa flúoríð úr útblásturslofti. Vil ég inna hæstv. umhvrh. eftir því sem fram kom í skýrslu, sem var 8. mál. þessa þings, að svæðið umhverfis verksmiðjuna sem átti að vera iðnaðarsvæði þannig að mengunarstig mátti vera tiltölulega hátt þar var mjög stórt. Það var, ef ég man rétt, 6 km fjarlægð umhverfis verksmiðjuna. Ég gat ekki séð að á því hefði orðið nokkur breyting eftir því sem fram kemur í þeirri skýrslu sem iðnrh. hefur nú lagt fram í tengslum við þetta mál, sem er 449. mál þingsins. Verð ég þá að líta svo á að þarna sé um óbreyttar forsendur að ræða. Ég er því hrædd um að við, sem höfum áhyggjur af dýrum og plöntum á þessu svæði, munum illa geta sætt okkur við að 6 km svæði umhverfis verksmiðjuna verði skilgreint sem iðnaðarsvæði.
Reikna ég með að fólk geri sér almennt grein fyrir hversu stórt það svæði er í kringum verksmiðjuna.
    Sá þáttur mengunarmálanna sem mest hefur verið deilt um er hreinsun á brennisteinsdíoxíði. Það þarf ekki að ræða það hér hversu alvarlegur mengunarvaldur brennisteinsdíoxíð er og hefur það verið mikið rætt á þessu þingi en greinilega ekki nóg þar sem enn eru menn að því er best verður séð á því að hleypa út allt of miklu brennisteinsdíoxíði í loftið frá þessari verksmiðju.
    Mikið hefur verið deilt um með hvaða aðferðum á að hreinsa brennisteinsdíoxíðið en auðvitað skiptir aðferðin engu máli. Aðalmálið er hversu miklu við viljum hleypa út. Hversu miklu við viljum að verksmiðjan megi hleypa út af brennisteinsdíoxíði.

    Það þarf ekki að tala lengi um það. Allir hljóta að vita hversu miklum skaða þetta efni hefur valdið í löndunum í kring og flestir þekkja skógadauðann í Þýskalandi sem er fyrst og fremst vegna brennisteinsdíoxíðs.
    Ég vil minna á að það kom fram í fréttum í síðustu viku, held ég að það hafi verið, að skólabörn hafa verið að mæla sýrustig regns hér á landi. Þau komust að því að regnvatnið var miklu súrara en gert hefur verið ráð fyrir hingað til. Kom þeim það mjög á óvart, enda er mengun hér á þessu svæði orðin verulega mikil og er brennisteinsdíoxíð frá útblæstri bíla meginmengunarvaldurinn. Mér finnst því mjög alvarlegt ef við ætlum að leyfa verulega mengun af þessu efni af völdum þessarar álbræðslu, að þetta efni eigi að fara hér út í loftið í svo miklu magni sem hér er gert ráð fyrir og margfaldast mengunin hér á þessu svæði.
    Einnig verður mikil aukning á koldíoxíði í loftinu og er ekki gert ráð fyrir neinni hreinsun á koldíoxíði heldur á það að fara óhindrað út í loftið. Það veldur svokölluðum gróðurhúsaáhrifum og er ekki á það koldíoxíð bætandi sem fer út í loftið. Það veldur einnig að hluta til súru regni þótt brennisteinsdíoxíðið sé þar aðalvaldurinn. Síðan er það keraúrgangurinn sem oft gleymist. Í keraúrganginum eru ýmis hættuleg efni sem ekki hefur verið, að því er mér sýnist, nægilega vel frá gengið hvernig á að eyða. Það má vel vera að það sé orðið eitthvað skýrara hvaða kröfur umhvrn. gerir í þessum málum en það hefur alls ekki komið fram. Það sem mér finnst einkennilegt við þær fréttir sem ég hef heyrt varðandi starfsleyfi fyrir þessa verksmiðju er að hæstv. umhvrh. hefur verið í ferðum til útlanda, að því er sagt hefur verið, til að semja við erlendu aðilana um það hversu mikla mengun þeir megi setja hér út í andrúmsloftið eða skilja eftir á jörðu niðri. Þannig hafa fréttirnar verið settar fram. Þetta þykja mér mjög einkennilegar fréttir og er mjög óánægð með að heyra slíkt vegna þess að ég tel að það sé okkar Íslendinga að setja staðlana og setja kröfurnar og þær strangar. Síðan er það annarra, sem reka fyrirtækið, erlendra sem innlendra, að fara eftir þeim stöðlum og kröfum sem við setjum.
    Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. umhvrh. um hvað hann hafi verið að semja varðandi mengunarvarnir við þá aðila sem er verið að ræða við. Það er mér algjörlega hulin ráðgáta hvað í ósköpunum hann hefur verið að semja um varðandi þetta mál.
    Í nýjum álverum sem reist eru í Evrópu eru gerðar kröfur um að hreinsa brennisteinsdíoxíð t.d. úr útblásturslofti. Yfirleitt er notaður svokallaður vothreinsibúnaður en ef einhver annar búnaður er fyrir hendi þá er mér alveg sama hvaða búnaður er notaður einungis ef ekki er leyft að hleypa út í andrúmsloftið svo og svo miklu af brennisteini, eins og er gert ráð fyrir í þessum skýrslum sem við höfum fyrir framan okkur.
    Það er mjög slæmt ef við ætlum að byrja á því með nýtt umhvrn. að sýna þvílíkt undanhald í umhverfismálum og virðist vera ætlunin af hálfu umhvrn. og umhvrh. í þessu máli.
    Ég vænti þess að ég fái svör við þessu atriði. Ég veit að umhvrh. hefur talað um það hér að hægt sé að gera kröfur um að brennisteinsinnihald skautanna verði minnkað þannig að minni brennisteinn komi út í andrúmsloftið. Auðvitað er hægt að gera slíkar kröfur en það er ekki hægt að fá skaut núna sem eru með nægilega litlum brennisteini í til þess að útblástursloftið sé með viðunandi hætti. Ég tel því ekki koma til álita að leyfa álveri að hleypa út brennisteinsdíoxíði í þeim mæli sem reiknað hefur verið út að það muni gera ef ekki er krafist neinnar hreinsunar. Þetta er það sem ég vildi tala við hæstv. umhvrh. um í bili. Vænti ég þess að ég fái skýr svör af hans hálfu að því er þessa þætti varðar.
    Hæstv. umhvrh. skrifaði grein í Dagblaðið í gær, mánudaginn 11. mars, sem hann kallar nýjar leiðir í atvinnumálum. Þar segir hæstv. umhvrh. orðrétt: ,,Eftir rimmuna sem varð um staðsetningu nýs álvers hefur hálfgerður doði færst yfir landið og vonleysi gripið um sig.`` Ekki virðist nú vera mikil bjartsýni um að þetta álver muni færa mikla björg í bú hér á landi. Síðar í grein sinni segir hæstv. ráðherra: ,,Flóttinn suður mun eflaust halda áfram en það leysir hins vegar engan vanda að allir setjist að á suðvesturhorninu.`` Síðar segir hann: ,,Við leysum ekki atvinnuvandamál okkar með eintómum álverum þótt það sé ágætur búhnykkur að fá eitt og eitt stórfyrirtæki samhliða annarri almennri atvinnuuppbyggingu. Annars væri fróðlegt að íhuga hvaða árangri það hefði skilað ef við hefðum eytt sama tíma, fjármunum og kröftum í að leita uppi og byggja lítil framleiðslu - og iðnaðarfyrirtæki á Íslandi og varið hefur verið í leit að stóriðjufyrirtækjum.`` Þetta segir hæstv. ráðherra í grein sinni í Dagblaðinu. Og síðan er því haldið fram að meiri hluti sé fyrir því á Alþingi að álver verði reist á Keilisnesi. Ég stórefast um að það sé rétt miðað við þær yfirlýsingar sem fram hafa komið af hálfu hv. alþm. varðandi þetta mál og þetta síðasta kemur núna frá hæstv. umhvrh. Þó svo að hæstv. iðnrh. hafi haldið því fram hér í gær að það væri meiri hluti fyrir því að byggja álver á Keilisnesi þá vil ég halda því fram að það sé ekki rétt. Hann hélt því fram líka í fréttum sjónvarpsins í kvöld. Þetta vildi ég sagt hafa að því er varðar hæstv. umhvrh.
    Þá langar mig til að snúa mér að hæstv. fjmrh. sem ég hafði óskað eftir að hlýddi hér á mál mitt. Ég hafði rifjað það örlítið upp í ræðu minni í gær hvernig Alþb. hefði oft breytt um stefnu á síðasta ári og rifjaði það upp að Alþb. hefði fyrst verið á móti álveri, ekki síst vegna þess að Alþb. væri á móti erlendri stóriðju. Síðan varð breyting á því og þá var allt í einu orðið í lagi að byggja álver, bara alls ekki á Keilisnesi. Man ég ekki betur en að hæstv. samgrh., sem nú er horfinn héðan, líklega farinn heim að sofa. ( Gripið fram í: Hann er hérna. Hann er að lesa bók.) Ég man ekki betur en að hann segði: ,,Álver á Keilisnesi kemur bara alls ekki til greina.`` Nú er allt í lagi með byggðasjónarmiðin. Þau mega bara fara í burtu. Hæstv. menntmrh. kvartaði yfir því hér í gær

að hann væri ekki spurður. Ég hafði nú vonast til að hann léti þá heyra í sér hér úr því hann vildi helst láta spyrja sig um stefnu Alþb. og vænti ég þess að hann komi hér síðar í umræðunni og skýri hana vegna þess að hann lýsti því í gær að svo mundi hann gera. Hlakka ég til að heyra hvað hann segir. Það er líklega nýi fáninn formannsins sem þarna spilar inn í.
    Það sem ég vildi einna helst ræða við hæstv. fjmrh. um eru skattamál að því er varðar þessa verksmiðju. Því hefur verið haldið fram lengi að þetta sé hinn mesti búhnykkur fyrir íslenska ríkið. Ég gat ekki séð að nein breyting hefði orðið á þeim forsendum sem gefnar eru í skýrslu ráðherra frá því í haust, en þar er talað um að engir tekjuskattar muni koma inn fyrr en eftir níu ár. Ekki bara það heldur eru forsendurnar mjög sérkennilegar að því er varðar þetta mál. Það er gert ráð fyrir að innkaupsverð á súráli hækki ekki. Það verði 14% af álverði á hverjum tíma en það hefur oft verið miklu hærra. Síðan er gert ráð fyrir að álverð verði 1.650 -- 1.900 Bandaríkjadollara á tonnið, sem af mörgum er talið vera allt of hátt og hefur sveiflast mjög mikið og niður fyrir þetta að undanförnu. Langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort eitthvað hafi breyst að því er varðar skattamálin. Hvort þessar tölur hafi breyst eitthvað. Hvort þær hafi hækkað? Ég gat ekki séð það og ekki var hægt að lesa það út úr því sem kemur fram í nýju skýrslu iðnrh. þrátt fyrir nokkra leit. Má vel vera að einhvers staðar hafi eitthvað verið falið þar sem ég tók ekki eftir, en við nokkuð góða skoðun gat ég ekki komið auga á neina breytingu.
    Mig langar einnig til að spyrja hvort það væri algengt að veita verulegan afslátt af fasteignagjöldum, sem að vísu koma til sveitarfélaga. Ég ætlaði að vita hvort hæstv. fjmrh. væri kunnugt um að slíkur afsláttur væri veittur íslenskum fyrirtækjum á sama hátt og þarna er verið að gera. Einnig er gert ráð fyrir verulegum skattaafslætti fyrstu árin og langar mig einnig til að vita hvort það sama gildi um íslensk fyrirtæki sem eru að byrja rekstur, að þau fái sams konar fyrirgreiðslu og gert er ráð fyrir hjá þessu fyrirtæki.
    Mér þykir líka mjög merkilegt að hæstv. fjmrh. skuli vera svo ánægður með það að raforkuverð og önnur innkoma skuli vera tengd heimsmarkaðsverði á áli. Þann 1. nóv. 1984 gerði Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var stjórnarmaður í Landsvirkjun, grein fyrir atkvæði sínu varðandi raforkusamninga við Ísal. Mig langar til að lesa örlítið úr þessari bókun, með leyfi forseta, en þar segir: ,,Með þessum samningi er Landsvirkjun að halda inn á þá hættulegu braut að tengja orkuverð afkomu stóriðjufyrirtækjanna og heimsmarkaðsverði á málmum.`` Ég hirði nú ekki að lesa allt upp. Þetta er löng bókun í sex liðum með fleiri atriðum sem stjórnarmaðurinn gerði grein fyrir og segir síðan: ,,Með tilvísun til fyrrgreindra atriða greiði ég atkvæði gegn hinum nýja samningi og legg til að stjórn Landsvirkjunar hefji viðræður um ný vinnubrögð og aðrar leiðir í samningum við stóriðjufyrirtæki.``
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. hvort

hann telji að þessi braut, sem hann taldi hættulega árið 1984, sé ekki lengur hættuleg og hvaða forsendur hafi breyst á þessum tíma, sem að vísu er orðinn nokkur ár, sem hafa breytt skoðun hans, að nú sé í lagi að tengja orkuverð við heimsmarkaðsverð á áli og gera þar með 60% af orkusölu Landsvirkjunar háða heimsmarkaðsverði á áli. Þetta er nú það helsta sem ég vildi spyrja hann varðandi þetta atriði.
    Síðan hafði ég mikinn áhuga á að spyrja um, og spurði reyndar um í gær, það sem kemur fram í greinargerð með þáltill. Það eru atriði sem varða breytingar á frv. til lánsfjárlaga sem liggur fyrir deildinni. Á bls. 2 í grg. með frv. er því haldið fram að iðnrn. hafi lagt til að frv. til lánsfjárlaga breyttist þannig að 300 millj. kr. lánsfjárheimild yrði til að kaupa jörðina Flekkuvík og að 800 millj. kr. lánsheimild yrði vegna virkjanaundirbúnings. Þetta hefur ekki komið fram hér á þinginu. Alla vega hef ég ekki séð þessar tillögur og veit ekki nákvæmlega hvernig þær eru orðaðar. Þær eru að vísu orðaðar hér í þessari tillögu og e.t.v. er það endanlegt orðalag tillagnanna. Það sem mér þótti athyglisvert við þetta er það að ekki alls fyrir löngu komu fram hugmyndir frá hæstv. fjmrh. um að auka heimildir í lánsfjárlögum til þess að hægt væri að framkvæma fyrir 2000 millj. kr.
Nú á að bæta við rúmlega 1 milljarði, að því er mér sýnist, og er þá orðið mikið sem hægt er að bæta við á skömmum tíma. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi engar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur, bæði þensluáhrif og eins áhrif á vexti og annað sem við höfum nú verið að ræða hérna í kvöld. Langar mig til að heyra hvaða hugmyndir þarna eru á ferðinni, hvort nú eigi skyndilega að fara að framkvæma fyrir á fjórða þúsund millj. kr. til þess í fyrsta lagi að taka einhver skref í átt að því að byggja þetta álver, sem alls ekki er fast í hendi iðnrh., og síðan 2000 millj. í sambandi við aðrar framkvæmdir. Langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji það enga áhættu fyrir ríkissjóð varðandi þessar virkjanaframkvæmdir og framkvæmdir tengdar álveri, eins mikil óvissa og er um hvort þessum samningum muni yfirleitt nokkuð ljúka, og eins er svo mikil óvissa um það hvort nokkurn tíma kemur nokkur einasti aur í ríkiskassann frá þessu álveri.