Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. sem hér er til umræðu. Það er ljóst að það þarf að líta á það á milli umræðna og ég tel að hv. 1. þm. Norðurl. v. muni verða við þeim óskum, sem hér hafa verið fram lagðar, um að fundur verði haldinn í nefndinni á milli umræðna og þar verði tekin til meðhöndlunar þau atriði sem bent hefur verið á að þurfi að laga í frv. og skal ég ekki endurtaka þau.
    Ástæðan fyrir því að ég kem aftur í ræðustól í þessu máli er sú að ég tel eðlilegt að taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það mál sem við erum hér að afgreiða nú hefur nánast ekkert með samninga okkar, sem hluta af EFTA - heildinni við EB - ríkin um Evrópska efnahagssvæðið, að gera. Öllum er ljóst að ef af slíkum samningum verður og menn munu sjá fyrir endann á innan tíðar og vonir standa til, undir það get ég tekið með hæstv. ráðherra, þá þarf að breyta flestum þeim lögum sem verið er að breyta í því frv. sem hér er til umræðu. Ef hins vegar ekkert verður af samningum um sjávarútvegsmál og sölu sjávarafurða, þá auðvitað getum við einhliða tryggt okkar rétt hvað snertir sjávarútveginn og ekki síst fiskveiðarnar. Það hlýtur að vera alveg ljóst. En um flest önnur atriði sem um verður samið þurfum við að opna mun meira og taka tillit til þeirra reglna sem þegar hafa verið samþykktar eða verið er að samþykkja um þessar mundir á vettvangi Evrópubandalagsins. Og ég hygg að það sé rétt að það séu allt að 1400 reglur og lagatexti upp á þúsundir blaðsíðna sem þá þarf að renna hér í gegnum þingið.
    Hæstv. utanrrh. staðfesti þetta reyndar í ræðu sinni áðan og þar með þann skilning, sem ég held að sé réttur, að þessar breytingar sem verið er að gera nú eiga rætur sínar að rekja til starfs sem var hafið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, ríkistjórnar Þorsteins Pálssonar, og hófst með því að Sjálfstfl. beitti sér af alefli fyrir að opna fyrir erlenda fjárfestingu til þess að íslensk fyrirtæki gætu notið áhættufjármagns frá erlendum fjárfestum í stað þess að vera eingöngu upp á lánsfjármagn komin. Við sjálfstæðismenn höfum stutt þessa viðleitni um margra ára skeið og vildum ganga lengra eins og frv. þáv. forsrh., hv. 1. þm. Suðurl., gerði ráð fyrir. Þá stóð þannig á í þinginu að Framsfl., einn stjórnarflokkanna þriggja, lagðist þvert fyrir málinu og neitaði afgreiðslu þess á því þingi. Hins vegar verður að segja Alþfl. það til hróss að hann hafði meiri skilning á þörfum fyrirtækjanna, hafði meiri framtíðarsýn en Framsfl., og kemur það kannski ekkert á óvart í sjálfu sér. Tilraunir framsóknarmanna til að láta í það skína að þeir séu með því frv. sem hér er til umræðu að útbúa einhvers konar varnarlínu fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenska einangrunarsinna gagnvart útlendingum og útlendu afli og það eigi að nota þetta sem eins konar fyrirvara í framhaldi af ræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti á sínum tíma, fyrirvararæðunni miklu, þegar samningarnir fóru af stað um Evrópska efnahagssvæðið er einber misskilningur.

Þetta mál hefur ekkert með það að gera.
    Þetta frv. ásamt því frv. sem var á dagskrá fyrr í dag eru allt annars eðlis. Þau gera ráð fyrir einfaldari lagareglum, lítils háttar opnun á vissum sviðum og samræmingu og er það vissulega til bóta. En því miður virðist það hafa gerst í samstarfi núv. stjórnarflokka að inn í frv. hafa læðst hugmyndir sem eru ekki til bóta og eru frekar afturför ef eitthvað er.
    Virðulegi forseti. Þessu taldi ég ástæðu til að koma hér til skila og undirstrika þann skilning sem er þá sameiginlegur með okkur fulltrúum Alþfl. og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni en hann lagði megináherslu á þetta sjónarmið í sinni ræðu hér áðan.