Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Það var í sjálfu sér ekki meining mín að fara að halda ræðu hér um það frv. sem hér er til afgreiðslu, þ.e. búsetamálið. Ég hef talað fyrir því oft áður. En margt sem hefur komið upp síðan hefur orðið til þess að mér finnst ástæða til að koma aðeins inn á þessi mál. Það sem ég vil fyrst segja er í sambandi við brtt. á þskj. 887. Ég hef orðið var við það í stjórnarliðinu að það hefur valdið einhverjum taugatitringi að þessi tillaga er komin fram aftur. Á henni eru þrír framsóknarþingmenn sem börðust fyrir þessari breytingu þegar frv. var hér síðast til umræðu árið 1990. Við stöndum að því að endurflytja þetta sjálfsagða ákvæði. Það stendur ekki á því að klaga blessaðan hæstv. forsrh. ef eitthvað er hróflað við þessum málum á annan veg en sumir vilja láta vera eða ná fram.
    Það þarf raunverulega ekki að halda fram miklum rökum fyrir því að það sem var tekið út úr lögunum með frv. á síðasta ári, þ.e. sérstök aðstoð við það fólk sem getur ekki lagt neitt af mörkum í sambandi við að halda húsnæði, að talið var nauðsynlegt að halda þessu inni í gegnum húsnæðislöggjöfina til þess að bjarga þessu fólki frá algeru hruni. Ég held að núna þurfi ekki að tala langt mál um það að þær ráðstafanir sem þegar hafa verið samþykktar og liggja einnig fyrir í nýjum frv. um að hafa sérstök erfiðleikalán í öðru formi en var hér á árum áður þegar þetta var tekið upp 1984 og 1985, að setja sérstaka deild við Húsnæðisstofnun sem annaðist þjónustu og fyrirgreiðslu við fólk sem lenti í erfiðleikum vegna húsnæðis. Það var reynt að semja við banka og peningastofnanir til að hjálpa þessu fólki áfram. Þess vegna er það óskiljanlegur hlutur, algerlega óskiljanlegur hlutur, eins og kom fram við afgreiðslu laga nr. 70/1990 á síðasta ári, að menn skuli berjast fyrir því að fella þetta ákvæði út eins og gert var hér, varð eiginlega að handjárna síðasta þing til að láta þetta ákvæði ekki koma inn í frv.
    Það verður að segjast eins og er að mér þætti það ákaflega furðulegt ef þingmenn almennt skilja ekki nauðsyn þessarar litlu brtt. á þskj. 887, um að húsnæðimálastjórn sé heimilt að veita sérstök lán til allt að þriggja ára til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsástæður. Þetta er svo sjálfsagt mál, ekki síst í ljósi þess að núverandi yfirstjórn þessara mála hefur í raun og veru eyðilagt það kerfi sem var sett upp 1984 til þess að reyna að aðstoða þetta fólk í gegnum sérstaka ráðgjafardeild sem annaðist þessi mál. Það á að gerast nú í gegnum húsbréfakerfið sem allir skynsamir menn sjá að er útilokað að leysi þetta vandamál. Ég vona þess vegna að þrátt fyrir þessi klögumál til forsrh. um þessa litlu brtt. nái hún fram að ganga hér í hv. deild því þetta er réttlætismál sem hlýtur að höfða til allra sem vilja hugsa um það í alvöru að rétta fólki hjálparhönd sem vissulega þarf á því að halda.
    Það er hægt að taka undir margt af því, eða ég get

a.m.k. tekið undir margt af því sem síðasti ræðumaður, hv. 14. þm. Reykv., sagði hér áðan um húsnæðiskerfið almennt. Auðvitað hefur sá málatilbúningur sem hefur verið núna undanfarin ár orðið til þess að það er algjör ringulreið í þessum málaflokki, svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Og við heyrum eða lesum ekki svo fjölmiðla nú á hverjum degi að við sjáum ekki dæmi um hvernig fyrir þessum málum er komið. Ég hef sagt það áður að allur þessi frumvarpsflutningur um húsnæðismál sem hefur gengið yfir Alþingi nú sl. þrjú, fjögur ár hefur leitt til þess að málin fara í enn þá meiri óvissuhnút en eðlilegt er.
    Það sem mér finnst ástæða til að nefna hér, og hv. 14. þm. Reykv. kom raunar að nokkru inn á, er sú einkennilega staða sem upp hefur komið þetta kjörtímabil sem nú er að enda í þessum málaflokki, að þingkjörin stjórn Húsnæðisstofnunar er sniðgengin. Það er látið eins og hún sé ekki til. Við eigum þarna menn inni sem eru búnir að stjórna húsnæðismálum í áratugi, eiginlega frá því fyrst að Húsnæðisstofnun var sett í gang. Þeir menn hafa ótvíræða reynslu og hafa sinnt þessum málum alla tíð af samviskusemi og reynt að stjórna stofnuninni þannig að hún gæti sinnt því hlutverki sem henni er ætlað, þ.e. að koma með úrbætur og tillögur um úrbætur í húsnæðismálum. Nú ber svo við að þessir aðilar eru ekki hafðir með í ráðum. Nú er hvert frv. á fætur öðru til afgreiðslu í hv. Alþingi og húsnæðisstjórnin fær ekki tækifæri til að fjalla um þau, hvorki eins og þau líta út áður en frv. eru lögð fram eða fjalla um frv. sjálf. Og þetta litla frv. sem hér er, sem er þó mikilvægt fyrir vissa aðila, þ.e. búsetafélögin, það kom fram í félmn. að þetta mál hefði aldrei verið borið undir stjórn Húsnæðisstofnunar. Forstöðumaður verkamannabústaðadeildarinnar kom eins og álfur út úr hól til nefndarinnar því hann hafði ekkert í höndunum um það frá Húsnæðisstofnun hver væri stefna stjórnarinnar í þessu máli. Hann varð því miður að fara af fundi nefndarinnar án þess að koma með nokkrar upplýsingar um þessi mál, sem hann svo síðar tók að sér að fá fram a.m.k. einhverja afstöðu í málinu. Eins og hér kom áðan fram kom hann síðar með á fund nefndarinnar ýmsar ábendingar sem lágu fyrir án þess að fjallað væri um þetta á eðlilegan máta.
    Ég hygg að svo sé um flest þessi frv. Ég hef rætt við stjórnarmenn í Húsnæðisstofnun sem eru löngu búnir að afskrifa það að þeir eigi að hafa nokkur áhrif á þessi mál sem hér eru lögð fyrir Alþingi. Nú síðast voru fulltrúar frá stjórninni á fundi í félmn. Ed. Þar kom fram að t.d. tveir þeir sem eru búnir að vera lengst í stjórninni lýstu fyrir félmn. Ed. hvernig þessum málum er raunverulega komið í þeirri yfirstjórn sem nú ríkir í þessum málum. Það var ófögur lýsing, því miður.
    Það er svo um einmitt flest þessi mál að þau ganga á skjön við það sem hefur verið eðlilegur gangur á undanförnum árum, þó langt aftur sé leitað. Og ég vil segja það alveg eins og er að mér blöskrar alveg, eftir að vera búinn að standa í þessum málum sl. fjögur ár, þá blöskrar mér það alveg að það skuli vera tekin upp sú stefna t.d. að sniðganga aðila vinnumarkaðarins í veigamiklum ákvörðunum í sambandi við húsnæðismálin, aðila sem lögðu sig fram 1985 -- 1986 til að stuðla að því að það fjármagn sem myndaðist innan aðila vinnumarkaðarins, þ.e. hjá lífeyrissjóðunum, kæmi af fullum krafti inn í húsnæðismálin. Þessir menn eru ekki hafðir með í ráðum þegar verið er að gera veigamiklar tillögur eða breytingar á húsnæðiskerfinu. Það verður sjálfsagt tækifæri til að taka þetta mál upp nánar hér í umræðum. Ef frv. um breytingar á yfirstjórn húsnæðismála kemur inn í hv. deild verður hægt að leiða nákvæm rök að því sem hér er verið að fara með og sýna fram á hvernig vinnubrögðin eru í sambandi við þennan málaflokk.
    Herra forseti. Mér þótti rétt að koma aðeins inn á þetta mál því ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það orðin dálítið einkennileg staða að þurfa að standa frammi fyrir þeirri staðreynd ár eftir ár að
menn mega ekki hafa sjálfstæða skoðun í þessum málaflokki. Það er talið brjóta gegn einhverjum möguleikum á því að samstaða sé í ríkisstjórn um afgreiðslu mála. Þess vegna varð ég undrandi í dag þegar kallaður var saman þingflokksfundur í mínum þingflokki og forsrh. sá ástæðu til að átelja okkur þrjá þingmenn Framsfl. fyrir að leyfa okkur það að bera fram brtt. með stjórnarandstöðu í réttlætismáli sem við höfum áður barist fyrir að ná inn í húsnæðiskerfið og við urðum undir í þeirri atkvæðagreiðslu hér í hv. deild á sl. ári. Hvers vegna? Það var ekki vegna þess að málið væri slæmt, síður en svo, því menn viðurkenna það að hér er um tilraun að ræða til að ná aftur inn í lögin ákvæði sem búið er að vera í húsnæðislögunum alla tíð, um möguleika á að hjálpa fólki sem lendir í sérstökum erfiðleikum með 100% lán.
    Nei, það var ekki það, heldur hitt að þetta vekti svo mikla andstöðu hjá hluta af þeim ráðherrum sem væru í ríkisstjórninni að það gæti verið hættulegt fyrir það að koma fram málum. Það getur vel verið að það séu allt í einu tengsl þarna á milli. Ég fer að halda það. Þegar við þingmenn komum á fund í sjútvn. Nd. í morgun þá var ekki hægt að afgreiða mál út úr nefndinni vegna þess að það átti eftir að tala við og fá fyrirmæli frá ráðherrum Alþfl. í þessu tilfelli um það hvort það mætti afgreiða mál út úr nefnd sem búið er að ganga frá í Ed. Ég hef aldrei vitað það þegar um það er að ræða að menn vilja fá mál fram og meiri hl. er á nefndarfundi að það sé ekki hægt að ná málinu fram vegna þess að það þurfi að spyrja ráðherra leyfis. Það varð að fresta þessum fundi og við erum ekki búnir að fá framhaldið af honum enn. En ég trúi því ekki að þessum fundi í nefndinni verði lokið þannig að málið fáist ekki fram, annað væri brot á öllum þingsköpum.
    Ég er að segja það hér að þessi málatilbúningur í sambandi við húsnæðismálin almennt er náttúrlega þess eðlis að því miður verður maður að taka undir það sem hv. 14. þm. Reykv. sagði hér áður að þessi mál eru vægast sagt komin á það stig að það er eiginlega útilokað að gera ráð fyrir öðru en að ný ríkisstjórn, hver sem hún verður, verði að byrja á því að taka þennan málaflokk algerlega til endurskoðunar og skapa grundvöll sem fólk getur treyst.
    Ég þekki menn sem eru farnir að koma til mín í stórum stíl með árangurinn af húsbréfakerfinu. Menn sem sýna mér dæmi þar sem þeir tapa ekki aðeins 500 þús. kr. heldur eru þegar búnir að tapa á þriðju millj. í viðskiptum á þessu sviði. Fyrir svo utan allan fjöldann sem hefur treyst á þetta út um landsbyggðina og rekur sig á það, þegar fólk fer að skoða þessi mál, að það er enginn grunnur fyrir því að það nái þeim rétti sem það gæti kannski notað sér í sambandi við þessar breytingar.
    Þetta mál sem við erum að fjalla um hér um breytingu á búsetaforminu er mál, eins og ég sagði áður, sem var á sínum tíma reynt að fá fram þegar þessi samtök voru stofnuð, að reyna að nýta sér húsnæðissamvinnufélögin eða það form í húsnæðiskerfinu til þess að ná fótfestu í nýju formi húsnæðismála sem hefur gengið vel í nágrannalöndum okkar. Það var reynt að ná þessu máli fram árið 1984 en því miður var Sjálfstfl. ekki tilbúinn til að samþykkja þetta form. Þó tókst með harðneskju að setja c-lið í lögin um Byggingarsjóð verkamanna. Það var því aðeins opnuð glufa fyrir þetta form sem vissulega hafði mikla þýðingu og gerði það að verkum að þessi samtök áhugafólks um þetta nýja form missti ekki fótanna. Það fannst mér mjög gott í þeirri þröngu stöðu sem þá var og þess vegna er ég ánægður yfir því að þetta frv. nú nái fram að ganga þó ég geti á þessari stundu ekki sagt það 100% að það verði að lögum á þessu þingi miðað við það klúður sem búið er að standa í kringum þessi mál.
    Ég vona samt að það takist og mun gera mitt til þess að svo verði. En ég vil enn á ný undirstrika að það er útilokað annað en að þingmenn hér í hv. Nd. átti sig á því, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að hér er um leiðréttingu að ræða, sem var felld út úr lögunum sem samþykkt voru á síðasta þingi, sem verður að nást í gegn. Það bíða tugir ef ekki meira af fólki eftir svona fyrirgreiðslu. Við vitum að það er ekki nema um 30 -- 40% af því fólki sem er í raunverulegum erfiðleikum sem getur notið þeirrar fyrirgreiðslu í gegnum húsbréfakerfið sem lögfest hefur verið. Það er því engin ástæða til annars en þessi breyting komist í gegn. Og ég vona það satt að segja að hv. þm. Framsfl. láti ekki handjárna sig um það að þeir fylgi ekki svona réttlætismáli sem allir eru búnir að viðurkenna í mínum þingflokki og svo vona ég að verði um fleiri.
    Herra forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta en af því að síðasti ræðumaður var að tala um hugsjónir Alþfl. og allt það í kringum þetta afmæli sem þeir eiga, sem ég óska þeim til hamingju með, þá er það eigi að síður ömurleg staðreynd að núna þegar Alþýðusamband Íslands á 75 ára afmæli skuli það blasa við að forustumenn Alþfl. á félagslega sviðinu hunsa samtök launþega. Þeir hunsa samtök vinnumarkaðarins í sambandi við svona mál sem við erum að fjalla um á hv. Alþingi með því að taka ekkert

mark á því sem þeir segja í breytingum á félagslegri löggjöf að því er varðar húsnæðismálin.