Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir nokkrum árum var landskunnur Íslendingur, sem er þekktur fyrir góða kímnigáfu, spurður hvort hann væri ekki á leiðinni á þing, hvort það vantaði ekki húmorista á þing. Húmorista, hváði þessi ágæti maður. Ég held að það vanti ekki húmorista á þing. Ég held að það vanti menn sem taka stjórnmál alvarlega.
    Ef þetta er sú mynd sem menn hafa af Alþingi, að hér sé um skrípasamkundu manna að ræða sem taki stjórnmál ekki alvarlega, þá er það alvarlegt mál. Það er jafnvel talað um að hér séu menn sem vilja þagga niður í minni hlutanum á ólýðræðislegan hátt sé hann meiri hlutanum ekki þóknanlegur. Séu þetta hugmyndir fólks, þá er það alvarlegt mál, ég ítreka það.
    Það er full ástæða til þess að ræða hvað veldur þessari mynd fólks af Alþingi þjóðarinnar. Getur verið að umfjöllun um raunverulegt daglegt líf á Íslandi hljómi svo allt of, allt of veikt í sölum Alþingis og réttlætiskrafan sé þar ekki alltaf með í ferðinni? Það skyldi þó aldrei vera að á Alþingi sé fjallað meira um lánskjör en lífskjör. Um vísitölu frekar en fæðingartölu. Um hagvaxtarskilyrðin frekar en vaxtarskilyrðin sem við búum börnunum okkar. Við heyrum líka stundum talað um leikhúsið við Austurvöll og þá í niðrandi tón. Því miður er aldrei talað um leikhúsið við Austurvöll sem þann stað þar sem raunveruleikinn fær listræna dýpt, þar sem tilfinningar eru tjáðar og einhvers konar sköpun, sem skiptir máli, á sér stað.
    En hver er þá raunveruleikinn sem allt of sjaldan ratar í þingsali? Lítum á þann raunveruleika sem blasir við okkur nú. Í launamálum er mikið verk að vinna. Það verk viljum við kvennalistakonur sjá unnið og við erum fúsar til að taka þátt í þeirri vinnu. Við höfum ekki séð þá launaþróun sem við viljum. Við viljum ekki kyrr kjör. Við viljum bætt kjör. Frekar en að svíkja þá sannfæringu okkar að lægstu laun í samfélaginu verði að hækka, þá höfum við m.a. fórnað tækifæri til að fara í ríkisstjórn. Enginn vilji fannst hjá samstarfsaðilum að taka á launamálum, enda hafa verkin talað. Ríkið semur um smánartaxta. Ríkið ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og hafa þannig áhrif á launamarkaðinn í heild.
    Og hverjir eru það svo sem eru á þessum smánartöxtum? Það eru konur. Þær hafa aðeins 60 -- 70% af launum karla þótt miðað sé aðeins við full störf. Það eru þær sem sitja eftir á töxtunum, sem samið er um, á meðan launaskriðið hefur sinn gang. Tvær af hverjum þremur konum eru á taxtalaunum en aðeins þriðjungur karla. Það er engin hemja að muna skuli 19 þús. kr. á meðallaunum karla og kvenna í afgreiðslustörfum, svo að dæmi sé tekið. Konurnar fá 55 þús. í sinn hlut fyrir heils dags starf. Karlarnir 74 þús. kr. og eru ekkert of sælir með það. Það segir mér enginn að karlarnir afgreiði svona miklu betur en konurnar. Nei, ástæðurnar hljóta að vera einhverjar aðrar í viðhorfi og mati á störfum kvenna og karla. Þessu viljum við kvennalistakonur breyta. Þörf er á nýrri

hugsun.
    Við kvennalistakonur höfum harðlega gagnrýnt hvernig kvennastörf eru metin. Fiskvinnslukonur mega t.d. sæta því að vera skákað til og frá á vinnumarkaðinum, vinna erfiða vinnu og bera tiltölulega lítið úr býtum. Þær búa við óþolandi öryggisleysi. Krafa okkar kvennalistakvenna er sú að úr þessu verði bætt. Þessi krafa okkar hefur m.a. komið fram í hugmyndum okkar um að stokka upp kvótakerfið og koma á byggðakvóta. Núgildandi kvótakerfi tekur aðeins mið af hagsmunum útgerðarinnar. Það er andstætt hagsmunum fiskvinnslufólks. Það varðar okkur öll hvernig fiskinum er ráðstafað, þessari mikilvægu auðlind sem er sameign allrar þjóðarinnar, eins og segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. En samkvæmt sömu lögum er henni síðan ráðstafað til eignar og brasks fárra stórra hagsmunaaðila og eftir sitja byggðarlögin, fiskvinnslan og konurnar sem vinna þar.
    Við kvennalistakonur höfum minnt á þetta æ ofan í æ. Við höfum flutt ítarlegar tillögur um að kvóta sé ráðstafað til byggðarlaga. Þannig væri fiskvinnslunni best borgið. Tillögur Kvennalistans fela einnig í sér hvata sem hækkar laun allra sem vinna að sjávarútvegi og ekki veitir af. Og þetta er ástandið þrátt fyrir það að fiskvinnsla sé líklega eitt þeirra kvennastarfa sem gefa hvað skást laun í aðra hönd, svo að maður líti nú aftur á launahliðina. En það er þó með slíku erfiði, sliti og striti að ómanneskjulegt er.
    Nú heyrum við það í fréttum í dag að þolinmæði kvennanna í fiskvinnslunni sé þrotin. Mikið hefur þó langlundargeð þeirra verið. Þær boða verkfall og krefjast þess að fá fleiri krónur í vasann. Þær vilja að störf þeirra í fiskvinnslunni séu metin að verðleikum. Það er því furðulegt að heyra bjargvættina frá Flateyri lýsa því í fjölmiðlum að fiskvinnslukonurnar verði að draga úr eyðslu sinni í stað þess að vera að biðja um betri kjör. Í hvaða veröld lifir þessi maður? Heldur hann að það séu lágu kvennalaunin sem valda þenslunni í samfélaginu? Dettur honum ekki í hug að það sé kannski frekar launaskrið yfirborguðu karlanna.
    Þegar Kvennalistinn talar um að það sé þörf á endurmati á störfum kvenna, þá heyrir maður karlmenn stundum spyrja: Gerist þess nú nokkur þörf? Þessari spurningu má allt eins svara með dæmisögu, því fjölmörg eru dæmin frá öllum tímum um vanmat á störfum kvenna.
    Verk frægs hollensks 17. aldar málara, Frans Hals, Káti flakkarinn, hékk á vegg í þekktu listasafni og hafði gert það lengi. Þetta var geypiverðmætt verk. Nú gerðist það fyrir örfáum árum að það uppgötvaðist að þetta dáða listaverk var alls ekki eftir Frans Hals heldur var það eftir samtímakonu hans, Judith Leyster. Þrátt fyrir það að verkið hafði auðvitað ekkert breyst við þessa uppgötvun, þá kom upp hin pínlegasta staða. Verkið var sett á afvikinn stað og það kolféll í verði. Það skiptir greinilega miklu máli hver vinnur starfið og meira máli heldur en hvernig það er unnið. Þessi saga úr myndlistinni er aðeins eitt ótal dæma um að störf kvenna eru svo undarlega lítils metin.
    ,,Nú er veður til að skapa`` heitir eitt ljóða borgarskáldsins Tómasar og í því er þessi hending:
            Nú er vor um allan geiminn!
            Nú er veður til að skapa!
            Og lengi hef ég ætlað mér
            að endurbæta heiminn.
    Nú er vor og ég held að það veiti ekki af því að halda áfram að reyna að endurbæta heiminn.
    Við kvennalistakonur lögðum út í stjórnmálabaráttu með þann ásetning að standa fyrir hugarfarsbyltingu. Við höfum svo sannarlega séð mikið breytast á þeim árum sem Kvennalistinn hefur starfað. Við höfum séð mál Kvennalistans verða að veruleika, sex mánaða fæðingarorlof er nú staðreynd. Við teljum það raunar tímabært að stíga næsta skref og taka upp níu mánaða fæðingarorlof. Kvennalistakonur fluttu frv. þess efnis nú í vetur en það hefur ekki fengið afgreiðslu. Við höfum sem betur fer séð úrbætur í meðferð nauðgunarmála. Við höfum séð umhverfisráðuneyti, sem að vísu varla er orð á gerandi hvernig er eins og sakir standa en vonandi breytist það. Við sjáum nú umræðu um utanríkismál þróast út í þá friðarumræðu sem við höfum alltaf hampað. Við höfum fengið samþykkt að gert verði átak gegn einelti, dregið úr ofbeldi í myndmiðlum, að úrbætur verði gerðar í málefnum ungmenna sem flosna upp úr skóla og að vinnuvernd barna og ungmenna verði aukin svo að lítið eitt sé nefnt. Og við höfum alltaf reynt að færa mál í þá átt að hagsmunir kvenna og barna séu þar hafðir í heiðri.
    Við höfum einnig fengið ýmsar tillögur um nýsköpun í atvinnulífi samþykktar. Um þessar mundir auglýsir Byggðastofnunm 15 störf í fjarvinnslu laus til umsóknar. Það gerist í beinu framhaldi af samþykkt tillögu Kvennalistans um að dreifa störfum opinberra stofnana víðs vegar um landið nú á tölvuöld. Við höfum alltaf lagt ríka áherslu á atvinnustefnu sem verður að vera byggð á fjölbreytni, skapandi hugsun, virkum rannsóknum og framsýni. Við höfum þess vegna hafnað einföldum, dýrum og óraunsæjum gervilausnum, svo sem stóriðju, og mér heyrist raunar að það séu æði margir stjórnarsinnar á sömu skoðun. Við höfum bent á ótal margt í staðinn, t.d. undirbúning vetnisframleiðslu, atvinnugreinar framtíðarinnar. Við höfum bent á ferðaþjónustuna, fullvinnslu sjávarafurða, fjarvinnslu, ylrækt, upplýsingamiðlun og svo mætti raunar lengi telja.
    Góðir áheyrendur. Er kannski veður til að skapa núna, skapa nýtt verðmætamat sem byggist á að reynsla og menning kvenna og karla fái að njóta sín? Ekki bara menning og reynsla karlanna einna sem hefur verið allt of lengi einráð og alls ráðandi og það hefur endurspeglast jafnt í listum, launum og stjórnmálum. --- Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.