Lánasjóður íslenskra námsmanna
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Framfærslulán íslenskra námsmanna verða ekki skert.
    Í öðru lagi er því til að svara að velta Lánasjóðs ísl. námsmanna er 4 -- 4,5 milljarða kr. Við höfum verið að fara yfir útlánaáætlanir sjóðsins og það er ljóst að á fyrri hluta þessa árs er ekki um það að ræða að óbreyttum útlánaforsendum og öðrum aðstæðum að nauðsynlegt sé að grípa til neinna nýrra takmarkana í reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Það voru ákveðnar breytingar á útlánareglum Lánasjóðs ísl. námsmanna í mars 1990 og sá sparnaðarárangur sem þar var að stefnt mun aðallega skila sér á þessu ári. Auðvitað er það hugsanlegur hlutur að á síðari hluta ársins þurfi að taka tillit til nýrra aðstæðna svo sem verið hefur sl. tvö ár. Sl. haust þurfti að bæta við Lánasjóð ísl. námsmanna á fjáraukalögum 500 millj. kr. og haustið þar áður, haustið 1989, þurfti einnig að bæta við fjármunum. Ástæðan fyrir því var sú að námsmönnum fjölgaði mjög verulega og samsetning námslandanna breyttist þannig að kostnaður vegna sjóðsins var með öðrum hætti en gert hafði verið ráð fyrir. T.d. urðu fleiri lán greidd í Bandaríkjunum en áður hafði verið o.s.frv.
    Ég sé enga ástæðu til þess að taka ákvörðun um niðurskurð á þjónustu Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessu stigi málsins. Ég teldi það rangt að skerða framfærslulánin. Ég tel að þetta séu mál sem þurfi að athuga þegar líður á haustið, þegar fyrir liggur hver fjöldi lána námsmanna verður.
    Spurningin er hins vegar sú hvort hér sé verið að gera tillögu um það, þó með óbeinum hætti sé, af Sjálfstfl. að skera niður framfærslulán Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er spurning sem ég leyfi mér að skilja eftir hjá hv. fyrirspyrjanda.