Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á þskj. 959, nál. um þá till. sem hér er á dagskrá frá fjvn., þá ritar nefndin öll undir þetta nál. en fulltrúar stjórnarandstöðunnar skrifa undir með fyrirvara.
    Í þeirri till. sem hér er verið að afgreiða koma fram ýmsar áherslubreytingar bæði að því er varðar tekjuhlið þessarar tillögu og eins að því er lýtur að gjaldahliðinni. Ég vil geta þess að minn fyrirvari og okkar í stjórnarandstöðunni væntanlega lýtur ekki síst að því að í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að farið sé verulega fram úr áætlaðri verðlagsþróun í aukningu tekna til Vegasjóðs og gert er ráð fyrir því að hækka tekjustofna Vegagerðarinnar með þeim hætti umfram verðlagsþróun. Þetta er gert á grundvelli þess að þessir tekjustofnar hafa ekki verið fullnýttir að undanförnu og er gert ráð fyrir að hækka þessa tekjustofna nú á þessu ári eins og hér var raunar lýst af framsögumanni nefndarinnar, þ.e. bensíngjald um 10% umfram verðlag og einnig að hækka svo aftur bensíngjald um 8% umfram verðlag á næsta ári. Fyrir þessu eru heimildir í lögum og við höfum ekki talið ástæðu til að snúast gegn þessu en vekjum á þessu sterklega athygli. Á þennan hátt er verið að fara fram úr verðlagsþróun hvað þessa tekjustofna snertir og þar með skattaálögur á þjóðina.
    Það er ekki síst ástæða til að vekja athygli á þessu vegna þess að hér er um að ræða hækkanir á þessum tekjustofnum sem fara langt umfram það sem hin svokallaða þjóðarsátt gerir ráð fyrir. Hæstv. samgrh. skýrði þetta með þeim hætti þegar hann mælti fyrir þeirri till. sem hér er á dagskrá að það væri gert ráð fyrir því að ná þessum hækkunum á tekjustofnunum á síðari hluta þessa árs og á næsta ári, þ.e. á því tímaskeiði þegar hið svokallaða þjóðarsáttartímabil sem nú stendur er á enda runnið. Það er í samræmi við ýmislegt annað hjá hæstv. ríkisstjórn að það er reynt að fresta hækkunum, fresta skattahækkunum sem eru yfirvofandi, fresta hækkunum á opinberri þjónustu þangað til á síðustu mánuðum þessa árs og e.t.v. á næsta ári, eins og hér er um að ræða, þ.e. það sem þeir kalla venjulega ,,eftir þjóðarsátt``, en ættu raunverulega að segja sannleikann eins og er: þangað til ríkisstjórnin hefur farið frá.
    Þetta er það sem ástæða er til að vekja mjög sterklega athygli á hér í þessari umræðu. Ég tel einnig ástæðu til að vekja á því athygli að til viðbótar við þá hækkun þungaskattsins sem gert er ráð fyrir að hér verði og var lýst af hv. 5. þm. Vestf., þar sem farið verður að fyllstu mörkum þess sem lög heimila, þá er gert ráð fyrir að breyta innheimtukerfinu á þann veg að ná umfram heilsárstekjur tveggja mánaða tekjum til viðbótar, eða 170 millj. kr. á fyrsta ári eftir að breytingin tekur gildi.
    Þetta þýðir það að þungaskatturinn verður ærið erfiður viðfangs fyrir þá sem hann þurfa að greiða á þessu ári, ef slík lagabreyting kemst fram, og það er auðvitað rétt að gera sér fulla grein fyrir því að þessi hækkun þungaskattsins hlýtur að koma fram í verðlagi. Það er ekki hægt að búast við því að þeir sem greiða þungaskatt, þ.e. þeir sem annast flutninga á landi, geti tekið á sig þessa hækkun án þess að það komi fram í taxta vörubílstjóra og þeirra sem annast þungaflutninga og þar með er það komið út í verðlagið. Þessar ákvarðanir hafa því áhrif á verðlagsþróun sem hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á.
    Þessi atriði eru þau efni sem ég tel sérstaklega ástæðu til að vekja athygli á varðandi tekjuhlið þessa máls. Það er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram á þessu ári 350 millj. kr. sem framlag til þess að mæta kostnaði við flýtingu Vestfjarðaganga en síðan falli slíkt framlag úr ríkissjóði niður.
    Varðandi gjaldahlið till. þá skýrði ég það við fyrri umr. málsins að þar kæmu fram verulegar áherslubreytingar. Á síðasta ári komu þær breytingar vissulega að nokkru leyti fram með því að tekinn var upp nýr liður, raunar tveir nýir liðir í sundurliðun á útgjöldum til vegamála, þ.e. liður sem ber nafnið Stórverkefni annars vegar og Til höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Auðvitað er hér um þörf og góð viðfangsefni að ræða sem ekki skal gagnrýnt hér að skuli taka til sín það verulega fjármagn sem till. gerir ráð fyrir, en eigi að síður er nauðsynlegt að hv. Alþingi og almenningur í landinu geri sér grein fyrir því að um leið og fé Vegasjóðs er tekið í svo ríkum mæli sem hér er gert ráð fyrir til þessara tveggja verkefna, þá er minna eftir til annarra.
    Á þessu ári er gert ráð fyrir að rúmur milljarður gangi til þessara tveggja verkefna og má segja að það sé svipuð tala, ef sama verðlagi væri fylgt, sem gangi til þessara tveggja viðfangsefna á hverju ári áætlunartímabilsins. Þetta þýðir að ekki tekst að ljúka ýmsum þeim verkum sem áætlað var á hinni gömlu langtímaáætlun í vegagerð á því síðasta tímabili þeirrar langtímaáætlunar sem nú stendur. Og það er verulegur ósigur í því fólginn að það skuli ekki takast. Þetta þýðir einnig að það verður ekki hægt að taka til við meiri verkefni í þjóðbrautum svo neinu nemi umfram það sem gert hefur verið á undangengnum árum þrátt fyrir fyrirheit um að þjóðbrautirnar mundu fá aukið fé til sinna þarfa þegar því langtímaáætlunartímabili lýkur sem senn er á enda. Þetta er líka býsna alvarlegt og að þessu þarf hv. Alþingi að ganga með opin augun.
    Þess vegna er það að um leið og við fögnum því að geta sinnt ýmsum stærri verkefnum, sem vissulega hafa mikla þýðingu fyrir þau byggðarlög sem þeirra framkvæmda eiga að njóta, þá erum við að taka fé frá hinni almennu vegagerð í landinu. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
    En þrátt fyrir þessar tillögur höfum við í stjórnarandstöðunni ekki gert um þær ágreining og skilum ekki um þær séráliti né flytjum um þær brtt. heldur viljum við vekja athygli á þessum áherslubreytingum sem hér eru á ferðinni og hvað þær þýða.
    Ég skal ekki fara að ræða hér einstök viðfangsefni og taka til þess tíma. Í skýrslu hæstv. samgrh. um framkvæmd vegáætlunar frá síðasta ári, ársins 1990, er að vanda margháttaðan fróðleik að finna. Þar kemur fram að fé vegna nýbyggingar vega, brúa og fjallvega á síðari árum hefur verið í raun afar sambærilegt frá ári til árs, allt frá árinu 1974. Þó að nokkur þrep séu í fjárveitingu á milli einstakra ára þá er það svo að samkvæmt þessari skrá, sem hér liggur fyrir og er birt mynd af í stöplariti, sést að árið 1975 var varið á verðlagi ársins 1990 um 2453 millj. kr. til þessara framkvæmda, þ.e. nýbygginga vega, brúa og fjallvega. Á síðasta ári var þetta fé 2132 millj. kr. eða um 300 millj. kr. minna. Á milli þessara talna hefur framkvæmdaféð sveiflast með tiltölulega litlum frávikum á öllu þessu árabili. Og í þeirri vegáætlun sem hér er verið að afgreiða er ekki um veigamikla breytingu frá þessu að ræða, a.m.k. ekki á fyrsta ári. Á hinn bóginn voru miklu meiri fjárveitingar til nýbygginga í vegum á næstu árum á undan þessu, þ.e. á árunum 1971 til 1974.
    Ég held að það blandist engum hugur um það að vegaframkvæmdir eru meðal hinna þýðingarmestu opinberra framkvæmda í landinu. Ég tel að okkur hafi tekist í okkar strjálbýla landi að vinna mjög þýðingarmikil verk í þessum efnum á undangengnum árum og raunar áratugum en við eigum þar samt sem áður mjög mikið ógert. Það er nú svo að með breyttum búskaparháttum hjá þjóðinni, breyttum þjóðlífsháttum, nauðsyn samgangna til þess að geta nýtt þjónustu og sótt atvinnu, þá er það afar nauðsynlegt að þessum þætti framkvæmda sé fram haldið með sæmilegum þrótti.
    Ég held að það sé rétt sem margir hafa sagt að samgöngumál séu meðal hinna allra þýðingarmestu mála að því er varðar byggðamál, en þó er það svo að það sem lagt er í vegakerfi landsins er ekki einungis til þess að stuðla að samgöngum fyrir það fólk sem byggir hinar dreifðu byggðir landsins, heldur er þar verið að vinna verk sem eru í þágu þjóðarinnar allrar. Þannig er það auðvitað grunnurinn undir því að yfirleitt er meiri sátt um það að verja fé og það verulegum fjármunum til vegamála heldur en til flestra annarra opinberra framkvæmda. Ég lít svo til að þrátt fyrir það að allir vilji meira fé í þessar þýðingarmiklu framkvæmdir þá sé þó um það að ræða að áfram sé haldið, að áfram þokist hin ýmsu verk sem eru nauðsynleg og það er enginn vafi að þjóðin hlýtur að finna fyrir því að vegirnir batna ár frá ári.
    Ég tel sem sé að í þessum þætti mála sé ekki hægt að kvarta stórkostlega undan því að fé sé ekki varið til framkvæmda, við getum deilt um hvernig því er skipt, en ef við viljum fá meira fé þá hlýtur það að kosta aukna skattheimtu á þjóðina í einhverju formi.
    Ég tel á hinn bóginn að annar þáttur samgöngumála hafi legið stórkostlega eftir á síðustu árum, en það er þáttur hafnamála, og það verði eigi hjá því komist á komandi árum að taka betur til hendinni í þeim framkvæmdaflokki því þar er um að ræða framkvæmdir er varða líf og dauða þeirra byggðarlaga sem sækja sér lífsbjörg, bæði að því er varðar sjósókn og framleiðslu og einnig flutninga um hafnir. Þetta er auðvitað ekki á dagskrá hér en ég læt þessa getið vegna þess að mér sýnist að þar sé þörfin enn þá

brýnni heldur en á þeim flokki framkvæmda sem við erum hér að ræða.
    Í fjvn. var einnig lítillega til meðferðar till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð og ég leyfi mér hér undir þessum dagskrárlið að segja um hana örfáar setningar til þess að spara tíma ef hún kynni að koma á dagskrá, en sá tími sem vannst til þess að vinna að þeirri till. var svo skammur að ekki var unnt að ræða hana til hlítar eða nægilega til þess að hún fengi formlega og eðlilega afgreiðslu. Hins vegar birti nefndin eins konar bráðabirgðanefndarálit þar sem fram koma og prentaðar eru sem fskj. tillögur þær sem koma fram frá starfsmönnum Vegagerðar ríkisins um skiptingu á fé samkvæmt langtímaáætlunartillögunni á einstaka vegi í stofnbrautum og til sérverkefna og til stórverkefna og til stærri brúargerða.
    Ég tel að það hafi verið eðlilegt af hálfu fjvn. að halda á því máli með þessum hætti. Sú skipting sýnir hvaða tillögur það eru sem fram hafa komið frá starfsmönnum Vegagerðar ríkisins sem í flestum tilvikum verða nokkuð ráðandi um ákvarðanir Alþingis en eru þó auðvitað oft með þeim hætti að þar eru gerðar ýmsar minni háttar breytingar á. Það fskj. sem þarna fylgir með getur þess vegna orðið til nokkurrar leiðsagnar enda þótt það hafi ekki hlotið neina formlega afgreiðslu.
    Ég ætla svo ekki, virðulegi forseti, að flytja um þetta mál lengri ræðu. Ég tel ekki ástæðu til þess þar sem ekki er ágreiningur um annað en þær áherslur sem fyrirvari minn lýtur að og ég hef hér greint frá, og ekki ástæða til að taka tíma þingsins í að fara að flytja hér langt mál um einstaka þætti þessara mála.