Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Hér er fram komin till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar og kemur til umræðu eftir að ,,kvöldsett löngu er`` á næstsíðasta degi þingsins. Þessi tillaga sem hér hefur verið nokkuð rædd er ávöxtur af starfi nefndar sem gera átti tillögur um verðjöfnun á raforku og sett var saman 1. okt. 1990. Ég má til að láta líta örlítið um öxl í þessu sambandi.
    Á 112. löggjafarþingi fluttum við allir þingmenn Vesturlands till. til þál. um jöfnun orkukostnaðar. Það mál var alls ekki nýtt af nálinni og höfðu margir rætt það og minnst á það áður. En sú tillaga var grundvölluð á samþykkt samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem mjög höfðu rætt þetta mál og sneru sér nú aðallega að húshitunarkostnaði. En tillagan, sem ég nefndi hér, var flutt óbreytt að öðru leyti en því að allur orkukostnaður var tekinn í stað húshitunarkostnaðarins eingöngu, vegna þess að það veltur líka mikið á að jafna orkukostnaðinn til atvinnuveganna. Hvaða sanngirni er t.d. fólgin í því að raforkutaxti til iðnaðar sé þrisvar sinnum hærri, svo að ég nefni dæmi, í Búðardal og tvisvar sinnum hærri í Borgarnesi heldur en á Reykjavíkursvæðinu, að því er manni er tjáð, og húshitunartaxti margfaldur á köldu svæðunum úti á landi á við það sem hann er í Reykjavík?
    Ég var 1. flm. að þessari tillögu og ég rökstuddi hana einfaldlega með því að taka upp úr stjórnarsáttmálum, yfirlýsingum stjórnmálamanna og samþykktum. Ég ætla bara að hafa yfir eina slíka samþykkt, með leyfi virðulegs forseta. Hún er frá kjördæmisþingi Alþfl. í Vesturlandskjördæmi 30. sept. 1989, og hljóðar svo:
    ,,Kjördæmisráðið beinir því til iðnrh. að hann vinni ötullega að jöfnun orkuverðs í landinu, enda er það ein meginforsenda áframhaldandi búsetu fólks á landsbyggðinni. Sama orkuverð á að gilda um land allt án tillits til búsetu.``
    Þessi tillaga varð ekki útrædd en á 113. löggjafarþingi endurflutti ég þessa tillögu ásamt þingmönnum Vesturlands öðrum en hv. 3. þm. sem ekki taldi sig geta verið meðflm. að þessu sinni vegna þess að hann væri nýskipaður formaður nefndar sem ætti nú að taka þessi mál til rækilegrar athugunar og jafnvel skila áliti fyrir jól. Þessi till. til þál. um jöfnun orkukostnaðar var 86. mál. Þessari tillögu var vísað til allshn. og þar hvílir hún í friði.
    En snúum okkur svo aðeins að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og menn hafa tæplega haft tækifæri eða tíma til að kryfja til mergjar eða átta sig á. Ég efast þó ekki um það að hún sé vel unnin að sínu leyti undir stjórn svo ötuls þingmanns sem hv. 3. þm. Vesturl. er. En ég hygg að það fari fyrir mörgum eins og hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Norðurl. v. að þeir verði fyrir vonbrigðum. Það lítur auðvitað sínum augum hver á silfrið. Sumum, sem lengi hafa fjallað um þessi mál og viljað ráða bót á þeim, dettur e.t.v. í hug gamli latneski málshátturinn: Parturiunt montes, nascetur ridiculus mus, þ.e. fjöllin tóku jóðsótt og

fæddist lítil mús.
    Hér er þó tvímælalaust leitast við að taka á málinu, þ.e. að ná auknum jöfnuði í þremur áföngum á næstu tveimur árum. En hér er aðeins húshitunarkostnaðurinn tekinn til greina. Það á að lækka hann þar sem hann er hæstur á landinu. Það er því varla tekið á þessu máli nema til helminga eða að hluta til. Við það bætist, eins og ýmsir hv. ræðumenn hafa bent á, að úrlausn þessa máls er algerlega vísað til næstu ríkisstjórnar, þetta er ávísun á framtíðina. Hér er því dálítið einkennilega að málum staðið. Það má vera að þetta sé einhver áfangi að vissu marki en ég býst við að hann verði til harla lítils og það verði haldið áfram að suða á þinginu um þetta mál eins og ég sé nú raunar hér í tillögu sem ég er sjálfur meðflm. að á þskj. 866. Þar segir um nýja stefnu í byggðamálum:
    ,,Endurskipulagningu raforkukerfis verði hraðað í þeim tilgangi að draga úr verðmismun á raforku eftir landsvæðum.``
    Vafalaust verður þetta tekið fram í stjórnarsáttmálum komandi tíma, en líklega ekkert gert að gagni í þessum efnum fyrst um sinn. Og segja mætti mér að maður gæti látið sér detta í hug ljóðlína úr kvæði eftir gamlan þingmann Borgfirðinga: ,,Drjúgur verður síðasti áfanginn``, áður en marki er náð.